„Af hverju ætti einhver að fylgjast með mér? Ég hef alltaf verið frjáls ferða minna,“ sagði Peng Shuai í samtali við blaðamann dagblaðsins Lianhe Zaobao sem gefið er út í Singapore.
Blaðamaðurinn náði tali af Peng á sunnudag þegar hún sótti skíðaviðburð í Shanghai en hún hefu lítið sést opinberlega frá því í byrjun nóvember þegar hún birti ítarlega færslu á samfélagsmiðlinum Weibo þar sem hún lýsti því hvernig Zhang Gaoli, fyrrverandi varaforseti Kína, þvingaði hana til kynmaka árið 2018.
Færslan var fjarlægð um tuttugu mínútum eftir að hún birtist og ekkert heyrðist frá Peng sem virtist hafa horfið sporlaust. Kínversk yfirvöld vildu ekkert tjá sig um málið en alþjóðlegar tennisstjörnur líkt og Naomi Osaka, Serena Williams og Novak Djokovic kröfðust svara. Steve Simon, famkvæmdastjóri Samtaka kvenna í tennis, lýsti yfir áhyggjum vegna málsins og sagðist óttast um öryggi Peng.
Um tveimur vikum eftir að færslan birtist á Weibo birti ríkisfjölmiðillinn CGTN tölvupóst sem Peng sendi Simon. Þar segir að hún sé örugg og að ásakanirnar sem birtust á Weibo séu ekki sannar. Fjórum dögum seinna, 21. nóvember, birtust myndskeið af Peng, annars vegar á veitingastað og hins vegar á tennismóti barna, en trúverðugleiki þeirra var dreginn í efa, ekki síst þar sem þau voru birt af Hu Xijin, ritstjóra Global Times, ríkisrekins fjölmiðils, auk þess sem sérstaklega er tekið fram hvaða dagur er í öðru myndskeiðinu.
Segist aldrei hafa ásakað neinn um kynferðislega áreitni
Spurningar blaðamanns Lianhe Zaobao sem tengjast færslunni á Weibo og tölvupóstinum sem var sendur í nafni Peng í kjölfarið virðast flækjast fyrir Peng sem hló og bað blaðamanninn að endurtaka þær.
Í viðtalinu segir Peng að hún hafi aldrei sakað neinn um kynferðislega áreitni eða kynferðisbrot. Færslan hafi innihaldið „persónuleg skilaboð sem allir hafi misskilið“.
Um tölvupóstinn sem var sendur í hennar nafni til Simon segir Peng að hún hafi skrifað hann að eigin frumkvæði en fengið aðstoð með að þýða textann yfir á ensku.
Talsmaður Samtaka kvenna í tennis segir að samtökin hafi enn ekki náð sambandi við Peng að eigin frumkvæði. Samtökin krefjast þess enn að ásakanir Peng á hendur Zhang verði rannsakaðar, án ritskoðunar.
Viðtalið ýti undir áhyggjur af raunverulegri líðan Peng
Ekkert er fjallað um mál Peng í kínverskum ríkisfjölmiðlum og talsmenn mannréttindasamtaka eru fullir efasemda um allt sem tengist málinu. Kenneth Roth, framkvæmdastjóri Human Rights Watch, segir í færslu á Twitter að viðtalið við Peng á sunnudag „auki einungis áhyggjur um þann þrýsting sem kínversk yfirvöld setja á Peng.“
Only deepening concerns about the pressure to which the Chinese government is subjecting her, tennis star Peng Shuai now claims she never accused anyone of sexually assaulting her -- after having clearly accused a senior Chinese official of precisely that. https://t.co/VRo6rBnmF4 pic.twitter.com/fSjgwMJk3Z
— Kenneth Roth (@KenRoth) December 19, 2021
Mörgum spurningum er enn ósvarað í máli Peng Shuai en það fer ekki á milli mála að þegar upplýsingar birtast á kínverska internetinu sem geta mögulega skaðað yfirvöld eru ritskoðendur ríkisins ræstir út. Samkvæmt rannsókn New York Times og ProPublica voru orð líkt og „kynferðisofbeldi“ og „tennis“ útilokuð á kínverska netinu og allt efni þeim tengdum ritskoðað.
Að sögn Xiao Qiang, fræðimanns við Berkely-háskóla sem hefur sérhæft sig í tjáningarfrelsi á internetinu, voru alls um hundrað orð bönnuð í tengslum við mál Peng. Segir hann aðferðir yfirvalda í máli hennarsvipa til aðgerða sem notaðar eru til að koma í veg fyrir að Kínverjar leiti upplýsinga eða tjái sig um mótmælin á torgi hins himneska friðar árið 1989.
Xiao segir að kínversk yfirvöld hafi ekki getað eytt aðgangi Peng á Weibo þar sem færslan hennar náði útbreiðslu á örfáum mínútum. og að hún hafi ekki beinlínis tekið stöðu gegn yfirvöldum. Venja yfirvalda sé að þegar mál líkt og þessi fái athygli utan landsteinana sé bíða uns storminn lægi en það virðist ekki ætla að takast í máli Peng Shuai.