Kínaveiran. Breska afbrigðið og það suðurafríska. Svo hið brasilíska. Jafnvel það franska. Þegar ný afbrigði SARS-CoV-2 kórónuveirunnar fóru að dúkka upp er líða tók á faraldur COVID-19, oft mögulega talin skæðari en þau sem á undan komu, voru þau bæði í fréttum og af talsmönnum yfirvalda kennd við þau lönd sem þau fyrst uppgötvuðust í. Það var vissulega þjálla að tala um breska afbrigðið en B.1.1.7, það suðurafríska í stað B.1.351 og hið indverska en ekki B.1.617.2. Hin vísindalegu heiti sem vísa til uppruna og eiginleika með tölum og bókstöfum eru óskiljanleg í eyrum venjulegs fólks.
En að kenna veiruafbrigði við lönd var ávísun á rugling og jafnvel reiði. Hvað ef annað afbrigði myndi uppgötvast á Bretlandi? Við hvað ætti að kenna það? Og hvað geta Indverjar gert að því að nýtt afbrigði fannst fyrst þar?
Til að bregðast við þessu ákvað Alþjóða heilbrigðismálastofnunin, WHO, að nefna afbrigði nýju kórónuveirunnar eftir stöfum úr gríska stafrófinu. Þetta tilkynnti stofnunin í lok maí á þessu ári. Þannig varð breska afbrigðið að Alfa, það suðurafríska að Beta og það brasilíska að Gamma. Þetta var gert um það leyti sem ljóst var að „indverska afbrigðið“ – B.1.617.2, yrði ráðandi. Meira smitandi en önnur. Hættulegra. Það fékk líkt og hvert mannsbarn veit nafnið Delta.
WHO valdi gríska stafrófið því það er þekkt fyrirbæri víðast í heiminum og kerfið því nokkuð einfalt. Á eftir Alfa kemur Beta og svo Gamma. Niðurstaðan var fengin eftir samráð við fólk og stofnanir frá mörgum löndum.
Kórónuveiran er í stöðugri þróun. Hún er stanslaust að breytast. En það er þó ekki fyrr en stökkbreytingar sem henni fylgja verða miklar og varhugaverðar að WHO setur ný afbrigði undir sérstaka smásjá og gefur þeim nafn. Þau eru svo þegar við þykir eiga sett á tvo lista: Athyglisverð afbrigði (variants of interest) eða afbrigði sem valda áhyggjum (variants of concern).
Í augnablikinu eru tvö afbrigði, Mý og Lambda, talin athyglisverð og fimm til viðbótar á lista yfir þau sem valda sérstökum áhyggjum: Alfa, Beta, Gamma, Delta og nú nýverið Ómíkron.
Nokkur önnur afbrigði hafa fengið nöfn (Epsílon, Eta og fleiri) en er þó ekki að finna á listunum tveimur. Þau einfaldlega eiga ekki heima þar, þrátt fyrir að hafa verið talin varhugaverð í fyrstu.
Pí og Hró eru næstir í röðinni
Meiri athygli hefur þó vakið að WHO ákvað að stökkva beint úr Mý og yfir í Ómíkron og sleppa tveimur bókstöfum. Engin afbrigði hafa fengið nöfnin Ný og Xí. Talsmaður WHO svaraði því til spurður út í þetta að Ný hefði verið ruglingslegt. Ný-afbrigðið. Nýja afbrigðið (Nu, skrifað á ensku, líkist „new“ í framburði). Það var því fljótafgreitt að sleppa því. Xí (stundum skrifað Ksí á íslensku) hefur valdið meiri heilabrotum og kenningar verið settar fram um að það hafi verið gert til að hlífa forseta Kína, Xi Jinping. Nóg var talað um „Kínaveiruna“ í upphafi þótt ekki væri svo farið að blanda nafni forsetans í afbrigði hennar. Talsmaður WHO segir hins vegar að Xí sé algengt eftirnafn í Kína og því hafi verið tekin ákvörðun um að sleppa því. Hann bætti svo við að WHO legði sig fram við að reyna að komast hjá því að móðga nokkurn mann eða hóp með nafngiftum sínum.
Sagan segir okkur að nafngiftir geti verið villandi. Sjúkdómurinn ebóla er t.d. kenndur við á sem rennur langt frá þeim stað þar sem veiran sem sjúkdómnum veldur á upptök sín. Spænska veikin er annað dæmi. Sá skæði faraldur átti ekki upptök á Spáni heldur líklega í Bandaríkjunum.
En hvað mun næsta afbrigði kórónuveirunnar heita?
Næsti stafur í gríska stafrófinu á eftir Ómíkron er Pí. Miðað við þróun faraldursins hingað til og þeirrar staðreyndar að enn er stór hluti heimsbyggðarinnar óbólusettur sem aftur er kjörlendi fyrir kórónuveiruna að fjölga sér og stökkbreytast, mun ekki líða á löngu þar til Pí-afbrigðið skýtur upp kollinum. Ef WHO leggur ekki blessun sína yfir Pí mun næsta afbrigðið heita Hró.