Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra mun í febrúar leggja fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni, sem felur í sér afglæpavæðingu neysluskammta. Þetta kemur fram í þingmálaskrá nýrrar ríkisstjórnar, sem birt var á vef Alþingis í gær.
Þar segir að frumvarpið feli í sér breytingu á ákvæði núgildandi laga um vörslu og meðferð, „á þann hátt að heimila vörslu ávana- og fíkniefna sem teljast til eigin nota“. Frumvarpið verður endurflutt með breytingum, en Svandís Svavarsdóttir fyrrverandi heilbrigðisráðherra mælti fyrir frumvarpi um þetta efni í fyrra, sem ekki varð að lögum.
Stjórnarliðar ósamstíga um málið í vor
Er síðasta þing var að klárast í júní var búið að taka eina umræðu um málið á þingi og það komið til meðferðar í velferðarnefnd þingsins. Þaðan komst það ekki fyrir þinglok.
Fram í fréttum á þeim tíma að það hefði verið vegna þess að þingmenn úr liði stjórnarflokkanna hefðu ekki náð saman um málið. Halldóra Mogensen þingmaður Pírata og sagði í samtali við Vísi á þeim tíma að það væri „súrt,“ þar sem Pírötum, sem höfðu áður sett málið fram á þingi, hefði verið lofað að stjórnarfrumvarp sem leiddi að sama markmiði yrði klárað á vorþingi.
Í nýjum stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, sem kynntur var á sunnudag, er ekki stafkrók að finna um þetta mál og vakti það upp áhyggjur af afdrifum þessa máls, hjá þeim sem telja þjóðþrifamál að afglæpavæða neysluskammta fíkniefna.
Lenya Rún Taha Karim, varaþingmaður Pírata, beindi þeirri spurningu á Twitter til ungliðahreyfinga allra stjórnarflokkanna þriggja hvort þeim „þætti þetta í lagi“ og fékk þau svör til baka frá tveimur af þremur hreyfingum að þetta væri „ekki í lagi“.
Ung vinstri græn sögðust ætla að nota sinn vettvang og þrýsta á sitt fólk í þessum málaflokki, Samband ungra sjálfstæðismanna er „fylgjandi afglæpavæðingu“ og þykir „leiðinlegt að þetta málefni er ekki í stjórnarsáttmálanum“ og Samband ungra framsóknarmanna segist hafa rætt málið mikið og sé með það í málefnanefnd. Líklega verði ályktun þeirra um málið send á þingflokkinn er hún verði tilbúin.
Sex af hverjum tíu föngum áttu við vímuefnavanda að stríða
Umræða um afglæpavæðingu fíkniefnaneyslu er ekki ný, heldur hefur hún staðið yfir hérlendis árum saman. Árið 2014 gerði Kjarninn röð frétta um fangelsismál. Við gerð þeirra fékk hann aðgang að miklu magni af tölfræði hjá Fangelsismálastofnun. Á meðal þess sem fram kom var að 30 prósent þeirra sem sátu inni (42 af 139) í íslenskum fangelsum í nóvember 2014 sátu inni fyrir fíkniefnabrot. Það voru nánast jafn margir og sátu inni fyrir kynferðisbrot (25) og ofbeldisbrot (22) til samans. Þegar horft var til allra fanga í afplánun, líka þeirra sem voru að afplána utan fangelsa, voru 55 að afplána dóm vegna fíkniefnabrota.
Þann 22. júní 2015 svaraði Ólöf Nordal, þáverandi innanríkisráðherra, fyrirspurn á Alþingi um afplánun fanga í fangelsi. Í svari hennar kom fram að tæplega 60 prósent þeirra sem sitja í íslenskum fangelsum eigi við vímuefnavanda að etja. Þar sagði einnig að rúmlega 70 prósent þeirra sem sitja í íslenskum fangelsum ættu sér sögu um slíkan vanda. Svarið byggði á óbirtri rannsókn sérfræðinga.
Þegar umfjöllun Kjarnans um fangelsismál var endurtekin 2018 kom í ljós að flestir þeirra sem þá afplánuðu dóma eða höfðu hlotið óskilorðsbundinn dóm gerðu það fyrir fíkniefnabrot, eða 28 prósent fanga. Alls afplánuðu 16 prósent fanga dóma vegna auðgunarbrota og sama hlutfall vegna umferðarlagabrota. Ellefu prósent fanga afplánuðu dóma vegna manndráps eða tilraunar til manndráps, 13 prósent vegna ofbeldisbrota og 14 prósent vegna kynferðisbrota.
Í skýrslu starfshóps sem dómsmálaráðherra fól að skila tillögum um leiðir til að stytta boðunarlista til afplánunar refsingar, sem birti niðurstöður sínar í fyrra, sagði meðal annars að „hlutfall fanga fyrir fíkniefnabrot hefur vaxið mjög í fangelsum landsins á síðustu árum. Árið 2019 var hlutfallið komið í 40 prósent allra fanga og vel á annað hundrað afplánaði dóm fyrir brot af því tagi. Í lok síðustu aldar sátu einungis innan við tíu prósent fanga í fangelsi fyrir fíkniefnabrot.“