Zephyr Iceland fyrirhugar að reisa vindorkuver í landi jarðarinnar Klaustursels á Fljótsdalsheiði. Verið yrði innan Múlaþings, á svæði sem nú er óbyggt. Virkjunarkostinn kallar fyrirtækið Klausturselsvirkjun og áformar að hún verði allt að 500 MW að afli. Hver vindmylla, sem yrði um 200 metrar á hæð, yrði 5-7 MW og því þyrfti 70-100 slíkar.
Í matsáætlun framkvæmdarinnar, sem nú hefur verið lagt fram til kynningar, kemur fram að áætlað sé að byggja virkjunina í áföngum. Fyrsti áfangi yrði á bilinu 50-300 MW og vindmyllurnar því 10-60 talsins. Síðar er gert ráð fyrir að stækka virkjunina í allt að 500 MW. „Stærð áfanga er þó háð eftirspurn eftir raforku þegar nær dregur framkvæmdum,“ segir í matsáætluninni sem verkfræðistofan Mannvit vinnur fyrir Zephyr.
Þetta er umtalsvert stærri virkjun en upphaflega var kynnt. Kjarninn fjallaði um frumathugun vegna hennar fyrr á þessu ári og þá var hugmyndin sú að verið yrði 250 MW og vindmyllurnar 40-50.
Áætlað er að meginframkvæmdirnar vegna vegagerðar, raforkuflutnings og uppsetningar á vindmyllum taki um tvö sumur. Þessi framkvæmdatími miðar við stærð virkjunar allt að 350 MW. Ef strax yrði farið í 500 MW má reikna með að eitt sumar bætist við framkvæmdatímann.
Í meirihlutaeigu Norðmanna
Zephyr Iceland ehf. var stofnað árið 2018 í þeim tilgangi að þróa vindorkuver hér á landi. Það er dótturfyrirtæki norska vindorkufyrirtækisins Zephyr AS auk þess sem Hreyfiafl ehf., sem er í eigu Ketils Sigurjónssonar, er hluthafi. Hann er jafnframt framkvæmdastjóri Zephyr Iceland.
Vindmyllur, sem margir eru stærðar þeirra vegna farnir að kalla vindrafstöðvar eða vindtúrbínur, hafa á síðustu árum hækkað enda eru þær orðnar aflmeiri. Í matsskýrslunni er talað um að þessi þróun muni halda áfram og að því sé mögulegt að færri en stærri vindmyllur verði reistar á Fljótsdalsheiði sem skili jafnmiklu afli og fleiri 200 metra háar túrbínur.
Fljótsdalsheiði er að sögn Zephyr tilvalinn staður fyrir vindorkuver. Þar eru, að því er segir í matsáætluninni, hagstæð veðurskilyrði, tiltölulega einfalt er að tengjast raforkuflutningskerfi Landsnets og góðir innviðir til staðar vegna undirbúnings og aðflutninga. Engin byggð er á svæðinu og nálægustu bæir eru Klaustursel, Hákonarstaðir og Grund. Með „góðum innviðum“ er m.a. átt við línuslóða vegna lagningar Kröflulínu 1 og 3 um heiðina. Í áætluninni segir að svæðið „einkennist nú þegar af orkumannvirkjum“ í formi háspennulína (Kröflulínur 2 og 3). Þá sé það ekki langt frá stærstu virkjun í Íslandi, Kárahnjúkavirkjun.
Framkvæmdaaðili hefur metið vindafar út frá sögulegum gögnum frá næstu veðurstöðvum Veðurstofunnar. Þá hafa vindaðstæður einnig verið metnar út frá hugbúnaði sem Zephyr nýtir. „Þó ítarlegri mælingar á vindafari séu nauðsynlegur undirbúningur svona verkefna, gefa fyrirliggjandi gögn skýrar vísbendingar um vindinn á svæðinu,“ segir í matsáætluninni. Til að staðfesta áætlaðan vind verða vindaðstæður mældar í um 80 metra hæð í minnst 12 mánuði.
Ekki stefnt að ratsjármælingum
Í matsáætluninni segir að samkvæmt flokkun Náttúrufræðistofnunar sé fyrirhugað framkvæmdasvæði utan svæða sem talin eru mikilvæg fuglasvæði.
Zephyr segir að vinna þurfi sérstaka fuglarannsókn. Þar yrði einkum um að ræða rannsókn á varpfuglum innan og í nágrenni við framkvæmdasvæðið og athugun á flugi farfugla um svæðið. „Þó að margar rannsóknir sýni fram á aukin afföll fugla vegna vindmylla, sýna þær flestar fram á óveruleg áhrif eða að ekkert bendi til neikvæðra áhrifa á fuglastofna,“ segir Zephyr. Fyrirhugað framkvæmdasvæði er ekki flokkað sem mikilvægt fuglasvæði. Ekki er gert ráð fyrir að beitt verði ratsjármælingum „nema það verði beinlínis talið skylt af hálfu stjórnvalda“.
Í matsáætluninni kemur fram að verkfræði- og ráðgjafafyrirtækið Norconsult hafi nýlega unnið skoðun á því hvernig henti fyrir vindorkuver á þessu svæði að tengjast flutningskerfinu. „Niðurstöður voru jákvæðar, enda eru öflugar háspennulínur í nágrenninu ásamt tengivirki og kerfið vel tengt stórum vatnsaflsvirkjunum sem geta nýst sem jöfnunarafl,“ segir í áætluninni. „Eðli málsins samkvæmt gæti þurft að styrkja flutningskerfið, en það fer mjög eftir því hver eða hverjir verða helstu notendur raforkunnar.“
Fyrir framkvæmdasvæðið er í gildi Aðalskipulag Fljótsdalshéraðs 2008-2028 og landnotkun skilgreind sem „óbyggð svæði“. Ljóst er að með uppsetningu vindorkuvers er nauðsynlegt að gera breytingar á aðalskipulagi Múlaþings (Fljótsdalshéraðs) í þá veru að afmarka fyrirhugað virkjunarsvæði sem „iðnaðarsvæði“.
Um 4-5 kílómetrum neðan við fyrirhugað virkjunarsvæði í Jökuldal eru tvö náttúrufyrirbæri, Stuðlafoss og Stuðlagil, sem bæði eru á náttúruminjaskrá. Stuðlafoss er formfagur foss með stuðlabergsumgjörð og í Stuðlagili eru háir stuðlabergshamrar í farvegi Jöklu. Báðir staðirnir eru vaxandi áningarstaðir ferðamanna. Þá yrði vindorkuverið í nálægð við Jökuldalsheiði sem er tilnefnd á náttúruminjaskrá vegna ferskvatnsvistgerða. Hún er einnig skilgreind sem mikilvægt fuglasvæði á Íslandi.
Hið fyrirhugaða framkvæmdasvæði er um 4.110 hektarar að flatarmáli og innan þess verður, að sögn Zephyr, vindmyllunum komið þannig fyrir „að tekið verið tillit til vindaðstæðna og annarra umhverfisaðstæðna með það að markmiði að lágmarka umhverfisáhrif“.
Öllum er frjálst að senda Skipulagsstofnun umsagnir við matsáætlunina. Þær þurfa að berast stofnuninni eigi síðar en 7. janúar.