Drago Kos, yfirmaður vinnuhóps OECD gegn mútum, segir ótrúlegt að horfa á íslensk stjórnvöld draga lappirnar í tengslum við rannsókn á mútugreiðslum Samherja í Namibíu. Stjórnvöld í Namibíu dragi vagninn í málinu og það sé nánast vandræðalegt fyrir Ísland.
Í viðtali við fréttastofu Stöðvar 2 og Vísis sagði Kos það jafnframt valda áhyggjum að íslenskir rannsóknarblaðamenn hafi verið boðaðir í yfirheyrslur af hálfu lögreglu með réttarstöðu grunaðra. Vinnuhópurinn líti á blaðamenn sem bandamenn í baráttunni gegn spillingu og raunar ótrúlegt að eitthvað þessu líkt hafi átt sér stað á Íslandi, að lögreglan hafi farið á eftir blaðamönnum í stað þeirra grunuðu. Eðlilegt sé að fyrirtæki sem liggi undir grun reyni að beina athyglinni annað, en að með ólíkindum sé að lögregluyfirvöld spili með.
Vegna þessa, sem og vegna þess að tvö og hálft ár eru liðin frá afhjúpun Samherjaskjalanna án þess að nokkuð hafi komið fram af hálfu íslenskra yfirvalda um framgang rannsóknarinnar, hyggst vinnuhópurinn óska eftir svörum frá íslenskum yfirvöldum.
Við umfjöllun Stöðvar 2 var upplýsinga óskað um rannsóknina frá Héraðssaksóknara, sem sagði málið vinnast ágætlega þrátt fyrir skort á fjármagni, og sagði Kos það ótrúlegt að embætti saksóknara í velmegunarlandi eins og Íslandi væri vanfjármagnað. „Stjórnvöld verða að finna fjármagn og veita embættinu allt sem það þarf til að klára málið eins fljótt og hægt er.“