„Kosningasvindl” er af mörgum og mismunandi gerðum. Sú gerð sem flestir eiga við þegar orðið er notað, er einhvers konar svindl með fjölda atkvæða, hvort sem það er í þeim tilgangi að ýkja fjölda greiddra atkvæða til ákveðins framboðs eða til að draga úr fjöldanum til annarra framboða á einhvern hátt. Athæfið er sem betur fer refsivert í flestum lýðræðisríkjum og jafnvel litið hornauga annars staðar í heiminum.
Sú tegund kosningasvindls sem er algengust hér á landi er hins vegar einhvers konar ímyndarbrenglun. Áhrifavaldar í pólitík setja gjarna upp Instagram brosið skömmu fyrir kosningar og sýna af sér ýmsar gerðir af kostaðri góðmennsku í örfáar vikur, til að pússa misdældaða ímyndina. Þetta er eitthvað sem flestir kjósendur búast við. Sæmilega skynsamt fólk sér í gegnum þannig skrautfjaðrir, sem eru oft bara hluti af „spilinu”. En þegar framboðin skreyta sig svo með hinum og þessum fjöðrum og verðlaunum sem þau hafa lítið gert til að verðskulda, er það auðvitað ekkert annað en „kosningasvindl”. Þá er vísvitandi verið að reyna að slá ryki í augu fólks og blekkja það.
Nú er til dæmis í tísku meðal ýmissa framboða að lýsa yfir stuðningi við hjólreiðar sem þann umhverfisvæna, hentuga og vinsæla fararmáta sem þær sannanlega eru, a.m.k. víðast hvar í þéttbýli. Líklega af því að áhugi fólks á hjólreiðum hefur almennt farið ört vaxandi undanfarin ár, raunar svo ört og víða að varla sést lengur ein einasta auglýsing frá tryggingafélagi eða banka, nema einhvers staðar glitti í skínandi nýtt og fallegt reiðhjól og brosandi andlit með litríkan hjálm. Hjólreiðar eru „hipp og kúl”, a.m.k. enn um stund.
Oft er í framboðsræðum vísað til þess að framboðið hafi stutt innviðauppbyggingu og gjarna nefndar háar upphæðir og útgjöld til framkvæmda þessuí til stuðnings. Einnig er frekar vinsælt að vísa í óframkvæmda óskalista yfir alls konar góða hluti sem tengjast hjólreiðum, en fæstir hafa raunverulega trú á að verði að veruleika og enn færri ætla sér að gera eitthvað með. Þetta er auðvitað ekkert annað en „kosningasvindl”, að lofa einhverju stórkostlegu, sem stundum eru jafnvel hlutir sem enginn bað um eða hefur neitt raunverulegt gagn af. Bara til að geta talað um framkvæmdakostnaðinn sem einhvers konar jákvæðan mælikvarða á eigin dugnað.
Ekki bara bik
Þegar rætt er um hjólreiðar sem samgöngumáta er mikilvægt að átta sig á því að málið snýst ekki eingöngu um ákveðinn fjölda milljóna eða malbikstonna á ári. Það er nefnilega ekki nóg að rúlla út malbikinu og hvetja fólk til að nota reiðhjólin meira, ef það er svo ekkert annað gert til að styðja þann samgöngumáta.
Ef einhver ætlar að treysta á reiðhjól sem sinn ferðamáta, þarf viðkomandi að geta treyst því að hjólið hverfi ekki á meðan skotist er inn í verslun eða vinnudagurinn kláraður. Sveitarfélög geta gert ýmislegt til að draga úr hjólreiðaþjófnuðum, sérstaklega þegar afkastamestu hjólaþjófarnir eru skjólstæðingar sveitarfélaganna. En þau velja einfaldlega að gera það ekki.
Það er ekki nema 1 ár síðan þáverandi formaður skipulagsráðs Reykjavíkurborgar tilkynnti um stofnun starfshóps sem átti að taka málið fyrir og kanna leiðir til að draga úr hjólreiðaþjófnaði innan höfuðborgarinnar, enda var sú ráðstöfun hluti af samþykktri Reiðhjólaáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árin 2021-2025. En síðan hefur ekkert til hópsins spurst. Enda ekki komið árið 2025 ennþá.
Þeir sem best þekkja til um hvar stolin hjól er helst að finna, hafa fyrir löngu kortlagt þessa staði og þannig þegar bjargað verðmætum fyrir marga tugi ef ekki hundruð milljóna. Samt mæta gestir gistiskýlanna þangað nánast daglega á reiðhjólum sem kosta meira en meðaltalsmánaðarlaun, án þess að starfsfólkið geri nokkuð í málinu. Hjólreiðaþjófnaður er þannig orðinn að samþykktri leið fyrir ógæfufólk að verða sér úti um verðmæti fyrir næsta neysluskammti. Kirfilega niðurgreitt af tryggingafélögum, sem virðast bara nokkuð sátt við fyrirkomulagið.
Tryggingafélög nota eins og áður sagði gjarna reiðhjól í auglýsingum sínum, þetta skýra merki um heilbrigðan lísfsstíl og jákvætt viðhorf. En það skýtur svolítið skökku við, að þessum sömu tryggingafélögum er vel kunnugt um að stolnu hjólin sem þau greiða himinháar bætur fyrir, eru notuð sem ódýr skiptimynt í fíkniefnaviðskiptum. Hjól sem í raun kosta mörg hundruð þúsund eru oft notuð af skjólstæðingum ýmiss konar úrræða til að ná sér í næsta skammt sem metinn er á innan við 1% af verðmæti hjólsins. Hvers vegna skyldu nú tryggingafélögin vera sátt við þetta fyrirkomulag og ekki gera meira til að koma í veg fyrir þannig óbeina niðurgreiðslu ólöglegra fíkniefna? Gæti það verið af því kostnaðinum er velt beint yfir á viðskiptavinina, löghlýðnari borgara samfélagsins, fólk sem er jafnvel „skattgreiðendur”?
Hugtakið „skattgreiðendur” hefur stundum verið lögreglufólki hugfast og er þá væntanlega notað til að aðgreina þá sem verðskulda bestu mögulegu þjónustu löggæslunnar frá þeim sem hafa verðskuldað sín vandræði. Svo virðist sem hjólreiðafólk falli oftar en ekki í seinni hópinn því þrátt fyrir að flest reiðhjól bæði hverfi og finnist í næsta nágrenni við stærstu lögreglustöð borgarinnar, heyrir það til undantekninga að lögregla sé fáanleg til að heimsækja þjófana. Jafnvel þegar búið er að sýna með óyggjandi hætti að þeir séu með þýfið á heimili sínu, örfáum metrum frá aðalinngangi lögreglustöðvarinnar. Það gerir lítið fyrir öryggistilfinningu hjólreiðafólks að mæta slíku viðhorfi og forgangsröðun.
Meðal-Jón og Séra-Jón
Aukið öryggi hjólreiðafólks hefur oft komið upp í almennri umræðu á undanförnum árum. Þar hefur farið mest fyrir því að margt fólk, og þá gjarna þeir sem aldrei stíga upp á reiðhjól, vilja leggja þá skyldu á hjólreiðafólk að bera hjálma. Þetta gerir fólk í þeirri trú að skortur á hjálmnotkun sé vandamál, jafnvel þó þær fáu mælingar sem til eru á hjálmnotkun bendi til þess að hún sé vel yfir 90%. Það hefur reyndar verið á verkefnalista Samgöngustofu í rúm 2 ár að gera athugun á þessu, en þar á bæ hefur fólk bara ekki haft tíma til þess. Eða eitthvað.
Það er svolítið undarlegt að á sama tíma og þessi umræða á sér stað, þeysir fullt af hjálmlausu fólki um borgarlandið á rafknúnum hlaupahjólum, jafnvel í mis-annarlegu ástandi. Og skilur svo farartækin gjarna eftir á miðjum hjólastígum þar sem dæmi eru um að þau hafa valdið alvarlegum slysum. Og það virðist ekkert vera hægt að gera til að sporna við þessu hvimleiða fyrirbæri. A.m.k. hefur ekkert sveitarfélag séð neina ástæðu til að setja útleigjendum neinar skorður eða hömlur, hvað þá að gera notendur þjónustunnar ábyrga fyrir því hvernig þeir skilja við tækin. Enda eru notendur slíkrar þjónustu fjölmargir og það myndi sennilega kosta einhver atkvæði að láta sér annt um öryggi hjólreiðafólks á þennan hátt.
Þeir eru því miður mun færri sem láta sig það nokkru varða að á hverjum degi er fjölmörgu hjólreiðafólki stefnt í hættu af ökumönnum sem kunna ekki grundvallarreglur í samspili akandi og hjólandi umferðar. Nú er það auðvitað ekki á færi sveitarfélaga að sekta ökumenn eða sjá um ökukennslu. En þeir sem ætla raunverulega að vinna að því að hvetja fólk til að stunda hjólreiðar, verða að sýna því einhvern áhuga að það sé hægt án þess að hjólandi fólk þurfi daglega að vera í lífshættu. Þó uppbygging aðskilinna hjólastíga hafi gengið ágætlega undanfarið og framkvæmdaáætlanir innihaldi enn fleiri kílómetra á komandi árum, er allt of mikið um hjólastíga sem enda í engu og fólk neyðist til að velja á milli gangstéttar eða götu. Þeir sem velja götuna eru oftar en ekki með lífið í lúkunum alla leið.
Lok, lok og læs
Og þar komum við að öðrum þætti, sem er á ábyrgð sveitarfélaga. Oftar en ekki fá verktakar sem stunda húsbyggingar að loka leiðum gangandi og hjólandi umferðar án þess að vísa á hjáleiðir á meðan á framkvæmdum stendur. Oftar en ekki nota þessir sömu aðilar nálægasta hjólastíg sem bílastæði eða hráefnalager, oftast án leyfis. Og það er ákaflega sjaldgæft að sveitarfélög þori að skamma verktaka fyrir þennan yfirgang. A.m.k. hafa slíkar framkvæmdir lokað bæði Lækjargötu, Hverfisgötu og enn víðar í miðbænum, jafnvel um margra mánaða skeið, án þess að það hafi haft nokkrar afleiðingar. Það er ekki til þess fallið að hvetja fólk til hjólreiða, ef það kemst ekki leiðar sinnar af því verktakar „þurfa” að nota hjólastígana til að leggja skurðgröfunum sínum.
Nú þegar sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu ætla að vinna saman að Samgöngusáttmálanum og þannig tryggja að þær framkvæmdir sem ráðist verður í á næstu árum séu samstilltar og skili sem bestum árangri fyrir sem flesta, væri ekki úr vegi að þau notuðu tækifærið og þrýstu á um úrbætur á þeim vegum og svæðum sem Vegagerðin sér um á höfuðborgarsvæðinu og þá sérstaklega við tengingarnar til og frá borginni. Fjölmargir vegir í nágrenni höfuðborgarinnar væru vel til þess fallnir að leiða hjólreiðafólk út úr þéttbýlinu til að stunda sínar æfingar og hreyfingu, ef þeim væri bara sinnt örlítið betur. Það tekur ekki langan tíma og kostar ekki mikið að sópa vegaxlir svo hjólreiðafólk geti notað þær, frekar en þurfa að nýta sjálfa akbrautina með tilheyrandi hættu og töfum fyrir aðra umferð. Nema malbikið sé hreinlega ónýtt á vegöxlinni, eins og það hefur reyndar verið í mörg ár bæði á Suðurlandsvegi og Reykjanesbraut. Á vesturlandsvegi er það ekki ónýtt, enda hefur aldrei verið nothæfum vegöxlum til að dreifa í þá átt.
En það lítur ekki út fyrir að margir framhjóðendur ætli að gera neitt af þessum fjölmörgu atriðum að heitum kosningamálum. Það er svo miklu auðveldara að leggja bara á minnið árlegan fjölda malbikstonna eða milljóna sem síðasti hjólastígur kostaði.
Og pússa þannig ímyndina aðeins fastar og ákafar. Með bara smávegis „svindli”.