Neyðarstigi vegna COVID-19 var lýst yfir 11. janúar og er þetta í fjórða sinn sem hæsta háskastigi almannavarna er lýst yfir frá því að faraldurinn braust út í lok febrúar 2020. Sálfræðingur sem Kjarninn ræddi við segir að vani og þreyta á samfélagsaðstæðum vegna faraldursins kunni að skýra breytt mat almennings á hættustigi almannavarna.Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, tekur ekki í sama streng.
„Þrátt fyrir að þetta sé í fjórða skiptið sem neyðarstigi er lýst yfir vegna COVID-19 þá tel ég ekki að almenningur taki því af meiri léttúð en áður,“ segir Víðir, en bendir á að í þetta sinn er neyðarstigi lýst yfir fyrst og fremst til að virkja fyrirtæki, stofnanir og viðbragðsaðila sem hlutverki hafa að gegna í viðbragðsáætlun almannavarna og sóttvarnalæknis. Áhrif neyðarstigsins nú hefur því takmarkaðri áhrif á daglegt líf almennings, rétt eins og Dr. Tómas Kristjánsson sálfræðingur sagði í viðtali við Kjarnann fyrr í vikunni.
Neyðarstigi vegna COVID-19 var fyrst lýst yfir 6. mars 2020 og varði í um 12 vikur. Í október sama ár var neyðarástandi aftur lýst yfir og varði til 12. febrúar eða í rúma fjóra mánuði. Neyðarástandi var í þriðja sinn lýst yfir 24.mars 2021 og var í gildi til 12. maí. Neyðarástandi var svo lýst yfir 11. janúar síðastliðinn vegna fjölda smita en í tilkynningu almannavarna segir að bjartari tímar séu fram undan.
Munur á almannavarnastigi vegna veðurs annars vegar og heimsfaraldurs hins vegar
Almannavarnarstig vegna veðurs, náttúruvár eða annarra atburða eru ólík almannavarnarstigi vegna COVID-19 að sögn Víðis að því leytu að þau hafa bein áhrif á líf fólks og lýsingu stiganna er því frekar beint til almennings.
„Það er vissulega öðruvísi í heimsfaraldri eins og COVID-19, en þrátt fyrir það höfum ekki áhyggjur að almenningur sé orðin ónæmur eða hættur að hlusta þegar almannavarnastig er sett á. Almenningur getur treyst því að Almannavarnir lýsa ekki yfir almannavarnarstigi af léttuð, þvert á móti, þau eru alltaf sett á að vel athuguðu máli,“ segir Víðir.