Þegar Benedikt Gíslason tók við sem bankastjóri Arion banka síðla sumars 2019 var sett það markmið að bæta getu Arion banka til að greiða út fjármagn til hluthafa. Í því fólst mela annars að breyta fjármögnun bankans, fækka starfsfólki verulega og ná þar með betra kostnaðarhlutfalli, selja undirliggjandi eignir og taka til í útlánum.
Á meðal markmiða sem sett voru var að arðsemi eiginfjár yrði yfir tíu prósent og að rekstrarkostnaður yrði undir 50 prósent af rekstrartekjum.
Arion banki hefur nú náð yfir tíu prósent arðsemi á eigin fé tvo ársfjórðunga í röð. Á síðustu þremur mánuðum ársins 2020 var arðsemin 11,8 prósent og á fyrstu þremur mánuðum ársins 2021 var hún 12,5 prósent. Þá er kostnaðarhlutfall bankans komið niður í 46,2 prósent og markmið Arion banka er nú að ná því niður fyrir 45 prósent.
Samanlagt nemur hagnaður Arion banka á þessu sex mánaða tímabili 11,8 milljörðum króna.
Tug milljarða umfram eigið fé
Þegar ársuppgjör Arion banka fyrir árið 2020 var kynnt kom fram að hann ætlaði að greiða út þrjá milljarða króna í arð vegna síðasta árs og kaupa eigin bréf fyrir 15 milljarða króna. Alls yrði því 18 milljörðum króna komið til hluthafa í ár.
Í fjárfestakynningu Arion banka vegna uppgjörs fyrsta ársfjórðungs kemur fram að umfram eigið fé sé enn 41 milljarður króna og bankinn því enn í góðri stöðu til að lækka eigið fé enn meira með útgreiðslu til hluthafa, samþykki Seðlabanki Íslands það. Slíkt samþykki er nauðsynlegt í ljósi þess að Seðlabankinn ákvað að lækka bindiskyldu niður i núll og aflétta svokölluðum sveiflujöfnunarauka sem jók svigrúm íslensku bankanna til nýrra útlána, eða eftir atvikum útgreiðslu til hluthafa, um samanlagt 350 milljarða króna. Arion banki fékk leyfi frá Seðlabankanum fyrir arðgreiðslu og endurkaupum vegna síðasta árs.
Í fjárfestakynningunni segir að Arion banki hafi getu til að greiða hluthöfum sínum út um 50 milljarða króna á næstu árum og að það sé stefna bankans að gera það.
Bónus fyrir arðsemi
Það er til mikils að vinna fyrir starfsmenn Arion banka að arðsemi bankans verði hærri en vegið meðaltal arðsemi helstu keppinauta bankans: Íslandsbanka, Landsbanka og Kviku, á þessu ári. Takist það mun allt fastráðið starfsfólk Arion banka geta fengið allt að tíu prósent af föstum árslaunum sínum á árinu 2021 í kaupauka þegar ársreikningur bankans fyrir árið 2021 liggur fyrir.
Þeir stjórnendur og það starfsfólk sem hefur hvað mest áhrif á tekjur og kostnað bankans mun geta fengið allt að 25 prósent af föstum árslaunum í kaupaukagreiðslu, en þá í formi hlutabréfa í bankanum sem verða ekki laus til ráðstöfunar fyrr en að þremur árum liðnum.
Til viðbótar eru í gildi kaupréttarsamningar sem gera starfsmönnum kleift að kaupa í Arion banka fyrir milljarða króna á lágu gengi.
Erlendu eigendurnir farnir
Eigendahópur Arion banka hefur tekið miklum breytingum á síðustu mánuðum. Vogunarsjóðirnir Taconic Capital Advisors og Sculptor Capital Management, sem hafa verið leiðandi í eigendahópi Arion banka, seldu um þriðjungshlut sinn í bankanum á örfáum vikum fyrir um 60 milljarða króna.
Fleiri erlendir sjóðir hafa líka selt sig hratt niður á skömmum tíma.
Í dag eru íslenskir lífeyrissjóðir langstærstu eigendur Arion banka. Þrír stærstu sjóðir landsins: Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Lífeyrissjóður verzlunarmanna og Gildi lífeyrissjóður eiga samtals 27,53 prósent hlut í bankanum.
Stærsti einkafjárfestirinn er Stoðir, sem eiga 4,99 prósent hlut. Stoðir eru líka stærsti einstaki eigandi annars banka, Kviku.