Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segist sammála gagnrýni sem sett hefur verið fram á fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands, sem gerði meðal annars Íslendingum sem höfðu komið fjármunum fyrir í aflandsfélögum kleift að flytja þá aftur til Íslands með virðisaukningu og fá fjármunina lögmæti. „Þetta myndi aldrei gerast á minni vakt. Aldrei. Ég er sammála, það hefði mátt fylgjast mun betur með því hvaðan peningarnir komu. Ég myndi aldrei samþykkja svona á minni vakt. Þessi gjaldeyrisútboð voru að einhverju leyti neyðarráðstöfun á sínum tíma. Ég vil ekki sjá það gerast aftur að hér á landi verði tvöfaldur gjaldeyrismarkaður með þessum hætti.“
Þetta kemur fram í viðtali við Ásgeir í nýjasta tölublaði Stundarinnar sem kom út í gær.
Fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands, sem einnig var nefnd 50/50 leiðin, var gríðarlega umdeild aðferð sem Seðlabankinn beitti til minnka hina svokölluðu snjóhengju, krónueignir erlendra aðila sem fastar voru innan fjármagnshafta og gerðu stjórnvöldum erfitt fyrir að vinna að frekari losun þeirra hafta. Samkvæmt henni gátu þeir sem samþykktu að koma með gjaldeyri til Íslands skipt þeim í íslenskar krónur á hagstæðara gengi en ef þeir myndu gera það í næsta banka.
Þeir sem tóku á sig „tapið“ í þessum viðskiptum voru aðilar sem áttu krónur fastar innan hafta en vildu komast út úr íslenska hagkerfinu með þær. Þeir sem „græddu“ voru aðilar sem áttu erlendan gjaldeyri en voru tilbúnir að koma til Íslands og fjárfesta fyrir hann. Seðlabankinn var síðan í hlutverki milligönguaðila sem gerði viðskiptin möguleg. Líkt og verslun sem leiddi heildsala og neytendur saman.
Tug milljarða ávinningur
Alls fóru fram 21 útboð eftir fjárfestingaleiðinni frá því í febrúar 2012 til febrúar 2015, þegar síðasta útboðið fór fram. Alls komu um 1.100 milljónir evra til landsins á grundvelli útboða fjárfestingarleiðarinnar, sem samsvarar um 206 milljörðum króna.
794 innlendir aðilar komu með peninga inn í íslenskt hagkerfi í gegnum útboð fjárfestingarleiðar Seðlabanka Íslands. Peningar þeirra námu 35 prósent þeirrar fjárhæðar sem alls komu inn í landið með þessari leið, en hún tryggði um 20 prósent afslátt á eignum sem keyptar voru fyrir peninganna á Íslandi. Alls fengu þessir aðilar 72 milljarða króna fyrir þann gjaldeyri sem þeir skiptu í íslenskar krónur samkvæmt skilmálum útboða fjárfestingarleiðarinnar. Afslátturinn, eða virðisaukningin, sem þeir fengu með þessu umfram það ef þeir hefðu skipt gjaldeyrinum á skráðu gengi Seðlabankans er um 17 milljarðar króna.
Stjórnvöld neita að upplýsa um þá sem högnuðust
Seðlabankinn eða stjórnvöld hafa aldrei viljað upplýsa hverjir það voru sem fengu að nýta sér þessa leið til að leysa út gengishagnað, fá lögmæti á fjármuni sem mögulega voru afurð skattaundanskota eða raunveruleg eign annarra og fá virðisaukningu úr hendi opinbers aðila sem öðrum landsmönnum bauðst ekki.
Þótt stjórnvöld hafi ekki viljað upplýsa um hverjir það voru sem nýttu sér leiðina þá hafa fjölmiðlar getað upplýst um félög í eigu aðila sem það gerðu. Á meðal þeirra sem hafa nýtt sér þessa leið eru félög í eigu bræðranna Lýðs og Ágústs Guðmundssona, Hreiðars Más Sigurðssonar, Jóns Ólafssonar, Jóns Von Tetzchner, knattspyrnumannsins Gylfa Þórs Sigurðssonar, Ólafs Ólafssonar, Hjörleifs Jakobssonar, Ármanns Þorvaldssonar, Kjartans Gunnarssonar, Skúla Mogensen, rekstrarfélags Iceland Foods, Alvogen, Karls og Steingríms Wernerssona og danskra eigenda Húsasmiðjunnar.
Ekki hlutverk Seðlabankans að útdeilda réttlæti
Seðlabankinn, sem stóð að fjárfestingarleiðinni og framkvæmdi hana, hefur sjálfur gert skýrslu um leiðina sem birt var í ágúst 2019. Sú skýrsla var unnin áður en að Ásgeir Jónsson tók við embætti seðlabankastjóra og á meðan að Már Guðmundsson gegndi því. Már var líka yfir bankanum þegar ráðist var í fjárfestingarleiðina.
Þar kom meðal annars fram að aflandsfélög frá lágskattasvæðum hefðu flutt inn 2,4 prósent af heildarfjárfestingu í gegnum leiðina. Eðlilegt væri, í ljósi sögunnar, að gagnrýna að það hefði verið gerlegt að ferja fjármuni frá slíkum svæðum í gegnum hana.
Í skýrslunni sagði einnig að það væri ekki hlutverk Seðlabanka Íslands að útdeilda réttlæti í samfélaginu „með því að greina á milli æskilegra og óæskilegra fjárfesta, verðugra og óverðugra.“ Það sé ekki úrlausnarefni hans. „Önnur stjórnvöld og stofnanir hafa hlutverki að gegna við að framfylgja lögum landsins, m.a. Samkeppniseftirlitið, Fjármálaeftirlitið, ríkisskattstjóri, skattrannsóknarstjóri, lögregla, saksóknarar og svo dómstólar sem endanlega kveða á um sekt manna og réttarstöðu þeirra gagnvart lögum og stjórnvöldum.“
Ekkert þeirra embætta sem Seðlabankinn taldi upp í skýrslu sinni, og sagði að hefðu það hlutverk að útdeilda réttlæti, hafa rannsakað fjárfestingarleið Seðlabankans af einhverri alvöru.“
Reynt að skipa rannsóknarnefnd
Í nóvember 2019 var lögð fram þingsályktunartillaga um rannsókn á fjárfestingarleið Seðlabanka íslands sem allir þingmenn Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar skrifuðu upp á.
Þar var farið fram á að þriggja manna rannsóknarnefnd verði skipuð og að hún geri grein fyrir því hvaðan fjármagnið sem flutt var til landsins með fjárfestingarleiðinni kom, hvaða einstaklingar eða félög voru skráð fyrir fjármagninu sem flutt var til landsins, hvernig fénu sem flutt var inn til landsins var varið og hver áhrif þess voru á íslenskt efnahagslíf.
Þar er einnig kallað eftir að upplýsingar verði dregnar fram um hvort ríkissjóður hafi orðið af skatttekjum vegna leiðarinnar og þá hversu mikið það tap var, hvort að samþykkt tilboð í útboðum fjárfestingarleiðarinnar kunni í einhverjum tilvikum að hafa brotið gegn skilmálum hennar og hvort fjárfestingarleiðin kunni að hafa verið notuð til að koma óskráðum og óskattlögðum eignum Íslendinga á aflandssvæðum aftur til landsins, til að stunda peningaþvætti eða misnotuð með öðrum hætti.
Þegar Seðlabanki Íslands skilaði umsögn um skipun rannsóknarnefndarinnar sagði þar að bankinn leggist ekki sérstaklega gegn því að fram fari rannsókn á flutningi fjár til landsins á grundvelli fjárfestingarleiðar Seðlabankans telji Alþingi líklegt að slík rannsókn bæti einhverju við þá rannsókn sem þegar hefur farið fram á vegum ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra á leiðinni.
Steingrímur gerði margháttaðar athugasemdir
Í júní í fyrra skilaði Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, af sér 18 blaðsíðna umsögn um þingsályktunartillöguna þar sem hann gerði margháttaðar athugsemdir við málið, lagðist gegn skipun rannsóknarnefndar og vildi kanna hvort önnur rannsóknarúrræði dyggðu ekki til.
Ekki væri útilokað að óska mætti til dæmis eftir mati ríkisendurskoðunar á henni. Ríkisendurskoðun sagði í umsögn sinni um skipan rannsóknarnefndarinnar að ekki væru sýnileg lagaskilyrði séu til þess að embættið geti komið í stað rannsóknarnefndar í málinu.
Síðan að forseti Alþingis skilaði sinni umsögn um málið þá hefur það ekki þokast neitt áfram, og mun líkast til deyja drottni sínum inni í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis.