Á upplýsingafundi Almannavarna í dag sagðist Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, binda vonir við að sú hrina smita sem greinst hafi hér innanlands fyrir tæplega tveimur vikum væri nú afstaðin. Ekki sé þó hægt að útiloka samfélagslegt smit en einn greindist innanlands með virkt smit í gær en sá einstaklingur var ekki í sóttkví.
„Það eru ástæður til að hafa ákveðnar áhyggjur af smitinu sem greindist í gær utan sóttkvíar. Við erum nú á fullu að rekja það smit og setja fólk í sóttkví og skima í kringum þennan einstakling eins og hægt er,“ sagði Þórólfur. Hann hvatti fólk eindregið til að huga að persónulegum sóttvörnum eftir sem áður og til að fara í sýnatöku ef fólk yrði vart við einkenni COVID-19. Nú sé mikilvægt að passa sig: „Við sjáum það að veiran er ekki með öllu horfin og ef við pössum okkur ekki getum við fengið aðra bylgju í bakið.“
Hann sagði að enn greindist fólk smitað á landamærunum og heldur fleiri undanfarið en verið hefur oft áður. Í gær hefi einn einstaklingur greinst með virkt smit en 340 sýni voru tekin. Flestir sem greindust á landamærunum væru með breska afbrigði veirunnar en hingað til hefði einn einstaklingur greinst með suður-afríska afbrigðið.
Frá 19. febrúar hafa 30 manns af þeim 34 sem greinst hafa með COVID-19 eftir komuna til landsins framvísað neikvæðu PCR vottorði. Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar á upplýsingafundi almannavarna í dag. Hann sagði helminginn af þeim 34 sem greinst með COVID-19 eftir komuna til landsins hafa greinst á landamærunum en hinn helmingurinn hafa greinst í seinni skimun.
Ekki skynsamlegt að taka bara við vottorðum frá fólki innan EES
Þá fjallaði Þórólfur um undanþágur fyrir þá sem hafa bólusetningarvottorð eða vottorð um fyrri sýkingu. Hann sagði að frá 15. janúar hafi verið í gildi reglugerð um að einstaklingar frá löndum innan EES með vottorð um bólusetningar hafi verið undanþegnir skimunum sem og einstaklingar utan EES með bólusetningarvottorð frá alþjóða heilbrigðismálastofnuninni.
„Þessi ráðstöfun hefur gengið ágætlega. Til þessa hafa um fimm prósent farþega framvísað slíkum vottorðum. Ég var sjálfur dálítið hikandi um þessa ráðstöfun í byrjun en þá einkum vegna þess að það lá ekki fyrir niðurstöður rannsókna um hvort bólusettir einstaklingar gætu borið með sér smit eða ekki,“ sagði Þórólfur. Fréttir frá Ísrael benda hins vegar til að áhættan af smitum sé lítil.
Þá hafa vottorð um fyrri sýkingu verið tekin gild fyrir fólk sem kemur frá EES löndum og það því ekki þurft að fara í skimun síðan í desember. „Að mínu mati fannst mér ekki skynsamlegt að taka bara vottorð frá fólki innan EES heldur fannst mér það skynsamlegt að það myndi líka gilda um fólk sem hefur sýkst og smitast utan EES. Þess vegna lagði ég það til við ráðherra þann 13. síðastliðinn að vottorð um fyrri sýkingu hjá fólki utan EES yrði líka tekin gild.“
Opnun ytri landamæra Schengen hins vegar ákvörðun dómsmálaráðherra. „Það sem dómsmálaráðherra hefur lagt til um það að opna ytri landamæri Schengen fyrir öllum sem eru með bólusetningarvottorð eða vottorð um fyrri sýkingu, það er ákvörðun sem að dómsmálaráðherra hefur tekið og sóttvarnalæknir eða ég hef ekki haft neina aðkomu að því. Þessi reglugerð hefur ekki tekið gildi og mér er ekki kunnugt hvenær reglugerðin mun koma til framkvæmda,“ sagði Þórólfur.