Þetta helsta…
40 þátttökuþjóðir eru meðal keppenda í Tórínó í kvöld, sem er 66. Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. 39 þjóðir tóku þátt í fyrra en í ár snúa Armería og Svartfjallaland aftur eftir stutt hlé en Rússum var vísað úr keppni sökum stríðsins í Úkraínu.
Ísland eitt sjö hópatriða
17 einsöngvarar stíga á svið í kvöld, átta konur og níu karlar, einn dúett og sjö hópatriði, þar á meðal Ísland.
Ekki sungið á frönsku í fyrsta sinn í sögu Eurovision
14 lög verða flutt á ensku, sex á öðru tungumáli en ensku og fimm á fleiri en einu tungumáli. Til gamans má geta að í fyrsta sinn í sögu Eurovision verður ekkert lag flutt á frönsku söngvararnir Alvan og Ahez munu flytja framlag Frakklands á bretónsku, keltensku tungumáli sem talað er á Bretaníuskaga í norðvestur Frakklandi, þar sem söngvararnir eiga ættir að rekja.
Ísland á besta stað í röðinni?
Eftir að Systur komust áfram í úrslitakvöldið í vikunni drógu þær um hvort þær verða í fyrri eða seinni hluta keppninnar í kvöld. Þær drógu seinni og verða átjándu á svið í kvöld, sem samkvæmt óvísindalegri rannsókn á að vera besta sætið. Því hefur lengi verið haldið fram af Eurovisionsérfræðingum að betra sé að stíga á svið í seinni hluta keppninnar. Í umfjöllun RÚV um sætaskipanina er vísað í bloggsíðu dyggs Eurovision-aðdáanda sem hefur komist að því með því að reikna út meðalstig þjóða eftir sætaskipan er best að vera númer átján á svið.
Ísland gæti rifjað upp kynnin við 16. sætið
Ísland verður að öllum líkindum ekki í baráttu um sæti í efri hluta keppninnar í kvöld og mun lokaniðurstaðan líklega vera á svipuðu róli og röðin í rásröðinni. Veðbankar spá Íslandi 19. sæti en Systur hafa verið að koma á óvart og hver veit nema hið margrómaða „íslenska“ 16. sæti verði niðurstaðan?
Sigur í raun óþarfi til að halda keppnina
Umræðan um hvar eigi að halda Eurovision þegar Ísland vinnur kemst oft á flug í aðdraganda hverrar Eurovision-keppni. Nú er staðan sú að sigur er ekki skilyrði fyrir að halda keppnina. Samkvæmt reglum Sambands evrópskra sjónvarpsstöðva (EBU) verður keppnin að fara fram í Evrópu. Því getur Ástralía ekki haldið keppnina.
Ljóst er að keppnin mun ekki fara fram í Úkraínu að ári sökum stríðsins en það gæti flækt málin þar sem Úkraínu er spáð sigri í keppninni. Ísland er raunhæfur valkostur að mati Skarphéðins Guðmundssonar, dagskrárstjóra RÚV, en hann sagði í samtali við Fréttablaðið í vikunni að EBU hafi „ítrekað lýst yfir stuðningi, tiltrú og trausti til okkar smærri keppnisþjóða.“
Mun Mika taka Grace Kelly?
Kynnar kvöldsins eru útvarpsmaðurinn Alessandro Cattelan, söngkonan Laura Pausini og bresk-líbanski söngvarinn Mika. Laura og Mika stigu á svið á seinna undanúrslitakvöldinu við mismikinn fögnuð Eurovisionaðdáenda. Mika tók hins vegar ekki sinn mesta slagara, Grace Kelly, og hans helstu aðdáendur bíða spenntir eftir að hann stígi á svið í Tórínó í kvöld á meðan allar símalínur verða rauðglóandi í símakosningunni.
Að minnsta kosti í þriðja sinn sem kosningar og Eurovision ber upp á sama dag
Það hefur vart farið framhjá neinum að Eurovision er ekki það eina markverða sem er á dagskrá í dag, sveitarstjórnarkosningar fara einnig fram í dag. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem kosningar á Íslandi fara fram sama dag og Eurovision. Það var einnig raunin í sveitarstjórnarkosningunum 25. maí 2002, og í Alþingiskosningum 12. maí 2007.
Eurovision á sama degi og kosningar býður upp á ýmsar áskoranir, ekki síst fyrir Ríkisútvarpið, sem hefur ákveðið að bregðast við því að þessu sinni með því að sýna Eurovision bæði á RÚV og RÚV 2 en skipta alfarið yfir á RÚV 2 þegar kosningavaka RÚV hefst klukkan 21:50. Eurovisionaðdáendur hér heima botna lítið í því af hverju kosningavakan megi ekki bara byrja aðeins seinna en RÚV er fjölmiðill í almannaþjónustu og þarf því að sinna hlutverki sínu í kosningum.