Tæknifyrirtækið Meta, sem á samfélagsmiðlana Facebook og Instagram, fékk þungt högg á miðvikudag. Þá kváðu írsk persónuverndaryfirvöld upp úrskurð um að sú leið sem fyrirtækið fer til þess að safna gögnum um notendur svo hægt sé að sérsníða að þeim auglýsingar sé í andstöðu við evrópsku persónuverndarreglugerðina, G.D.P.R.
Írska persónuverndarstjórnvaldið fer með málefni Meta fyrir hönd Evrópusambandsins, sökum þess að bækistöðvar félagsins á evrópskum markaði eru í Dublin. Niðurstaðan varð sú að Meta hefði þvingað notendur til þess að samþykkja að þeim yrðu sýndar sérsniðnar auglýsingar, með því að hafa það samþykki með öðrum notkunarskilmálum bæði Facebook og Instagram og að það mætti ekki, persónuverndarreglugerðinni samkvæmt.
Sekt að upphæð 390 milljónum evra fylgdi ákvörðun írska yfirvaldsins, sem jafngildir rúmum 59,5 milljörðum íslenskra króna og eru Meta nú gefnir þrír mánuðir til þess að setja fram áætlun um hvernig fyrirtækið hyggst hlíta niðurstöðunni.
Mögulega verður niðurstaðan sú að Meta geri notendum samfélagsmiðla sinna mögulegt að sveigja hjá því að gögn sem safnast þegar þeir skrolla og klikka sig í gegnum miðlana verði notuð til þess að beina til þeirra auglýsingum.
New York Times fjallaði um málið í gær og í frétt miðilsins kom fram að niðurstaðan í málinu á Írlandi gæti samkvæmt greinanda á fjármálamarkaði stefnt um 5 til 7 prósentum allra tekna Meta af auglýsingum í hættu. Það er engin smá summa, en Meta var með 118 milljarða bandaríkjadala, jafnvirði 17 þúsund milljarða íslenskra króna, í tekjur árið 2021.
Stutt er síðan að auglýsingamódel Meta fékk annan skell, er Apple ákvað á árinu 2021 að byrja að leyfa öllum eigendum iPhone-síma að velja hvort auglýsendur gætu nýtt sér gögn um símanotkun þeirra. Á síðasta ári sagði Meta að þessi breyting Apple hefði kostað félagið um 10 milljarða dala (um 1.450 milljarða íslenskra króna).
Meta hefur brugðist við ákvörðun írska stjórnvaldsins. Segir fyrirtækið niðurstöðuna vera vonbrigði og að Meta hafi talið að þeirra nálgun á gagnasöfnun vegna sérsniðinna auglýsinga hefði virt evrópsku persónuverndarreglugerðina.
Írsk yfirvöld höfðu áður komist að þeirri niðurstöðu að sú leið sem Meta fer, að hengja samþykki notenda fyrir gagnasöfnuninni inn í aðra notendaskilmála samfélagsmiðla sinna, væri í samræmi við persónuverndarreglugerðina, en nefnd um túlkun reglugerðarinnnr sem fulltrúar annarra Evrópusambandsríkja skipa komst að annarri niðurstöðu.
Íslendingar gætu orðið varið við breytingar
Enn á eftir að koma í ljós hvernig Meta bregst við niðurstöðunni, en ljóst er að íslenskir notendur samfélagsmiðla á borð við Facebook og Instagram gætu orðið varir við einhverjar breytingar ef af þeim verður, enda hefur evrópska persónuverndarreglugerðin verið innleidd á Íslandi.
Meta er risastór auglýsingamiðill á íslenskum markaði, en eins og Kjarninn sagði frá í desember rann næstum önnur hver króna sem varið var til birtingu auglýsinga á Íslandi árið 2021 til erlendra aðila, eða 9,5 af alls 22 milljörðum króna sem varið var til auglýsingakaupa á því ári.
Samanlagður hlutur Facebook og Google í greiðslukortaviðskiptum vegna þjónustuinnflutnings vegna auglýsinga var 95 prósent árið 2021.