Vegagerðin hefur bætt við nýjum valkosti áformaðrar færslu hringvegarins í Mýrdal. Sá liggur samhliða núverandi vegi og norðan við Víkurþorp og gerir því ekki ráð fyrir jarðgöngum í gegnum Reynisfjall.
Í kjölfar umsagna og athugasemda sem bárust á síðasta ári við drög Vegagerðarinnar að matsáætlun nýs hringvegar í Mýrdal ákvað stofnunin að bæta við einum valkosti. Í aðalskipulagi Mýrdalshrepps er ný veglína dregin meðfram ströndinni og í jarðgöngum í gegnum Reynisfjall. Það gagnrýna margir og benda m.a. á hið viðkvæma og sérstæða lífríki Dyrhólaósa, sem fjórir valkostir gera ráð fyrir að vegurinn liggi við eða yfir. Einnig er bent á landrof og sandfok í Víkurfjöru, mikinn kostnað við gangnagerð og tilheyrandi rask og ásýndarbreytingar í nágrenni nokkurra helstu náttúruperla Íslands.
Innan og í nágrenni hins fyrirhugaða framkvæmdasvæðis meðfram ströndinni eru svæði sem njóta verndar, m.a. vegna fuglalífs og jarðmyndana. Dyrhólaey er friðland fugla, Dyrhólaós er á náttúruminjaskrá vegna sjávarleirna með sérstæðum lífsskilyrðum og austur af Vík er alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði (IBA), Víkurhamrar.
Í nýrri matsáætlun framkvæmdarinnar, sem Vegagerðin hefur lagt fram til Skipulagsstofnunar, kemur hvergi fram að sú leið sem dregin er upp á aðalskipulagi sveitarfélagsins sé aðalvalkostur. Sá kostur er þó merktur „valkostur 1“ og á einum stað segir að vegur um Mýrdal við Dyrhólaós sé talinn „bæta umferðaröryggi og útrýma erfiðum farartálma í vetrarveðrum á leiðinni frá Hellisheiði til Reyðarfjarðar“.
Einnig kemur skýrt fram að við umhverfismatið, sem matsáætlun er eitt skref í, sé miðað við sömu markmið og komi fram í aðalskipulagi Mýrdalshrepps: Að „megin forsenda sveitarfélagsins fyrir færslu og staðsetningu hringvegarins er að með því verði hann greiðfær láglendisvegur í stað vegar um hættulegar brekkur og misvindasamt svæði. Auk þess sem vegurinn er færður út úr þéttbýlinu í Vík og styttist um 3 km“.
Sambærilegra gagna aflað um alla kosti
Í svörum við athugasemdum, sem birtar eru í viðauka matsáætlunarinnar, er hins vegar ítrekað að í matinu sé gerð grein fyrir raunhæfum valkostum og þeir bornir saman með tilliti til umhverfisáhrifa. Aflað verði sambærilegra gagna um þá alla „til að tryggja samanburðarhæfni í umhverfismatinu“. Ákvörðun um aðalvalkost muni svo m.a. byggja á upplýsingum sem safnað er, lögum um mat á umhverfisáhrifum, vegalögum og lögum um náttúruvernd.
367 umsagnir og athugasemdir við matsáætlunardrögin bárust Vegagerðinni, ýmist frá íbúum og öðrum einstaklingum, samtökum, fyrirtækjum og stofnunum. Margar bárust í gegnum vefsjá verkefnisins sem er nýlunda hjá stofnuninni. Ýmsar breytingar og viðbætur voru gerðar á áætluninni í kjölfarið. Ein sú stærsta er sú að bætt er við valkosti sem gerir m.a. ráð fyrir að nýr vegur liggi samhliða núverandi hringvegi um Mýrdal og að núverandi vegur verði hliðarvegur með heim- og túntengingum.
Frekari rannsóknir á Dyrhólaósi
Í kjölfar umsagna Hafrannsóknarstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands var svo ákveðið að bæta við sérstakri rannsókn á lífríki Dyrhólaóssins og nærliggjandi straumvatna. Einnig verður í umhverfismatsskýrslu, sem er næsta skref í ferlinu, gerð grein fyrir mögulegum áhrifum valkosta á skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum.
Eftir athugasemdir frá Veðurstofu Íslands verður skerpt á umfjöllun um náttúruvá, m.a. hættu á miklum ofanflóðum við möguleg jarðgöng. Að sama skapi verður skerpt á framkvæmdalýsingu og matsspurningum og myndefni hefur verið uppfært. Rannsóknartímabil á fuglalífi var lengt vegna ábendinga þar að lútandi og ekki er lengur talað um núverandi veg sem „fjallveg“ enda fer hann hæst í 119 metra yfir sjávarmáli.
Vegagerðin mun láta vinna þrívíddarlíkan af valkostum, líkt og Landvernd og fleiri aðilar óskuðu eftir, auk þess sem unnar verða ásýndarmyndir sem gefa til kynna útlit jarðganga og vegagerðar eftir að framkvæmdum lýkur.
Slysatíðni á veginum um Vík yfir meðaltali
Hringvegurinn liggur nú um Gatnabrún og að hluta í 10-12 prósent halla með varhugaverðum beygjum. Einnig liggur hann í gegnum þéttbýlið í Vík.
Umræða um færslu eða vegabætur á þessum slóðum hefur staðið lengi en aukist á síðustu árum samhliða vaxandi umferð. Endurbóta er þörf svo vegurinn uppfylli veghönnunarreglur Vegagerðarinnar. Jafnframt hefur þéttbýlið í Vík stækkað með tilheyrandi umferð vegfarenda yfir og við veginn. Meðalslysatíðni á veginum í gegnum Vík á tímabilinu 2014-2018 er umtalsvert hærri en meðalslysatíðni á þjóðvegum í þéttbýli á landinu öllu. Á kaflanum vestan Víkur er slysatíðnin nokkru hærri en á þjóðvegum í dreifbýli en á veginum austan Víkur er hún aðeins lægri.
Áfram er gert ráð fyrir umferðaraukningu um svæðið en þó ekki eins mikilli og undanfarin ár.
Margir valkostir um legu vegarins eða endurbætur hafa verið nefndir til sögunnar síðustu árin en Vegagerðin ætlar að meta umhverfisáhrif sjö slíkra kosta. Fjórir þeirra gera ráð fyrir jarðgöngum í Reynisfjalli.
Valkostur 1
Samkvæmt skipulagslínu. Veglínan liggur sunnan Geitafjalls að vestanverðu, meðfram Dyrhólaósi sem er á náttúruminjaskrá, og í göngum sunnarlega um Reynisfjall. Austan Reynisfjalls liggur leiðin meðfram sjó og sameinast núverandi vegi í Vík. Einnig er til skoðunar að fara með veglínuna austar og tengjast veginum austan við þéttbýlið.
Valkostur 1b
Útfærsla á skipulagslínu. Í tengslum við forhönnun hefur skipulagslínan verið útfærð og henni hnikrað til á nokkrum stöðum vegna vegtæknilegra atriða.
Valkostur 2
Norður fyrir Geitafjall. Veglínan liggur í vestri norður fyrir Geitafjall, yfir ræktað land í Reynishverfi en sameinast veglínu valkosts 1 fyrir ofan ósinn og liggur líkt og hann um göng sunnarlega um Reynisfjall. Vegurinn tengist svo núverandi vegi austan við þéttbýlið í Vík.
Valkostur 3
Þverun Dyrhólaóss. Veglínan er að hluta til sambærileg valkosti 1 en í stað þess að taka sveigju norður fyrir ósinn er ósinn þveraður að hluta.
Valkostur 4
Lagfæringar á núverandi vegi. Kosturinn felur í sér lagfæringar á núverandi veglínu með markmið framkvæmdar í huga. Vegurinn er bættur við Geitafjall og Gatnabrún og lagður norðan við þéttbýlið í Vík. Fjallað er um kostinn í umhverfisskýrslu Aðalskipulag Mýrdalshrepps 2012-2028 og kemur þar fram að sveitarstjórn telji að þrátt fyrir breytingar á núverandi veglínu þá sé kosturinn ekki raunhæfur þar sem hann er ekki talinn uppfylla markmið um öruggan heilsársveg.
Valkostur 4b
Frekari lagfæringar á núverandi vegi. Valkostur 4b er útfærsla af valkosti 4 og gerir ráð fyrir að nýr vegur liggi samhliða núverandi Hringvegi um Mýrdal og að núverandi Hringvegur verði hliðarvegur með heim- og túntengingum. Þessum kosti var bætt við í kjölfar athugasemda.
Valkostur 5
Útfærsla á núllkosti. Um er að ræða útfærslu á núllkosti austan Reynisfjalls, og valkosti 4 eða 4b vestan Reynisfjalls. Þessum valkosti var einnig bætt við í kjölfar athugasemda. Vegagerðin telur hann þó ekki ákjósanlegan með tilliti til umferðaröryggis og þeirrar stefnu að færa hringveg út fyrir þéttbýli, og er hann fyrst og fremst settur fram til samanburðar í umhverfismatinu.
Verði einn sá kosta valinn sem gera ráð fyrir jarðgöngum í gegnum Reynisfjall reiknar Vegagerðin með að þau verði 1,3-1,5 kílómetrar að lengd auk vegskála sem þurfa að vera nokkuð langir vegna hættu á ofanflóðum. Gert er ráð fyrir að fara inn í fjallið að austan í yfir 10 metra hæð yfir sjávarmáli og yfir í 8 metra hæð vestan megin.
Varnargarður þyrfti að vera 7,5 metra hár
Er jarðgöngunum sleppir austan megin fjallsins myndi vegurinn liggja um Víkurfjöru. Gert er ráð fyrir tvennum undirgöngum til að tryggja aðgengi gangandi, hjólandi og hestaumferðar frá Vík og niður í fjöruna. Meðfram veginum þyrfti að vera varnargarður. Þar sem rannsókn á stöðugleika strandarinnar stendur enn yfir er ekki hægt að fastsetja hæð mannvirkjanna en fyrstu drög benda til þess að lágmarkshæð vegarins þyrfti að vera um 5,7 m.y.s. og varnargarðsins að austan um 7,5 m.y.s.
Vegagerðin bendir á í svörum sínum við athugasemdum að fjármögnun á framkvæmdinni sjálfri liggi ekki fyrir. Undirbúning framkvæmdar sé að finna í gildandi samgönguáætlun og þar komi jafnframt fram að leitað verði leiða til að fjármagna framkvæmd í samstarfi við einkaaðila. „Sú vinna hefur ekki farið fram.“
Allir geta kynnt sér matsáætlunina og veitt umsögn. Umsagnir skulu vera skriflegar og berast eigi síðar en 27. janúar 2022 til Skipulagsstofnunar bréfleiðis eða með tölvupósti á skipulag@skipulag.is.
Gert er ráð fyrir að kynningartími á umhverfismatsskýrslu verði nú á vormánuðum og að álit Skipulagsstofnunar, síðasta skrefið í umhverfismatsferlinu, liggi fyrir í haust. Þá er hægt að hefja umsóknarferli vegna framkvæmdaleyfis. Ráðgert er að framkvæmdir geti hafist árið 2023 og taki um þrjú ár.