Inngrip stjórnvalda í sýningu Libiu Castro og Ólafs Ólafssonar í Hafnarborg er ritskoðun að mati Bandalags íslenskra listamanna (BÍL). „Það þarf enginn að velkjast í vafa um að ákvörðun um að láta fjarlægja hluta sýningarinnar af vegg safnsins er fordæmalaus ákvörðun og verður ekki slitin úr samhengi við eðli og form sýningarinnar, allar eftir á skýringar um leyfisveitingar eru hefðbundið yfirklór og tæknilegar aðfinnslur til að réttlæta þá ritskoðun,“ segir í yfirlýsinguá vef BÍL.
Í yfirlýsingunni lýsir BÍL furðu sinni á þeim atburðum sem hafa átt sér stað í tengslum við sýningu listamannatvíeykisins í Hafnarborg. Hafnarborg sé viðurkennt safn samkvæmt safnalögum og beri því að starfa samkvæmt þeim sem og siðareglum ICOM, alþjóðaráðs safna. BÍL segir inngrip og afskipti stjórnvalda af sýningunni ganga á svig við þær siðareglur og meginreglu stjórnsýslu menningarmála, að „viðhafa fjarlægð pólitískra valdhafa frá listrænum ákvörðunum í rekstri safna og menningarstofnanna.“
Listráð Hafnarborgar fordæmir afskipti stjórnmálamanna
Þá sendi listráð Hafnarborgar einnig frá sér yfirlýsingu í gær. Í henni kemur fram að listráðið telji niðurtöku verksins „óforsvaranlegt inngrip í listræna starfsemi safnsins og það setji gott orðspor og heiður safnsins í alvarlegt uppnám.“
Listráðið segir afskipti bæjarstjóra afar varhugaverð og að það muni skaða listrænt frelsi safnsins auk þess sem listráðið fordæmir afskipti pólitíkurinnar.
„Listráð Hafnarborgar fordæmir öll afskipti stjórnmálamanna af listrænni starfsemi safnsins, hvort sem það varðar val á listamönnum og listaverkum, uppsetningu verka, útfærslu eða tímabundna staðsetningu þeirra, innan dyra sem og utan,“ segir í yfirlýsingunni. Það kallar eftir því að niðurtakan verði afturkölluð og verkinu komið fyrir á sama stað og það var.
Löng umræða um málið í bæjarstjórn
Löng umræða um málið fór fram á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar í gær. Fulltrúar minnihlutans kölluðu eftir afsökunarbeiðni bæjarstjóra á fjarlægingu listaverks þeirra Libiu og Ólafs. Fulltrúarnir óskuðu eftir upplýsingum um aðdraganda þess að verkið var tekið niður auk þess sem þau kölluðu þetta ritskoðun.
Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri, sagði það af og frá að um ritskoðun hafi verið að ræða. Öll ummæli í þá átt dæmi sig sjálf. Hún sagði að tilskilin leyfi fyrir uppsetningu verksins hafi ekki verið fyrir hendi. Hún sagði starfsmenn bæjarins hafa leitað mikið af leyfinu sem talað hefur verið um að listamennirnir hafi fengið. „Þetta er munnlegt eitthvað á milli fólks sem að við höfum ekki verið áheyrendur að sem að stöndum í þessu máli. Það dugar ekki í stjórnsýslu Hafnarfjarðar,“ sagði Rósa.