„Þyngstu byrðar efnahagskrísunnar sem stríðið í Úkraínu hefur skapað lenda á börnum.“
Þetta kemur fram í ítarlegri skýrslu UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, sem kom út í dag. Samkvæmt skýrslunni hafa fjórar milljónir barna í Austur-Evrópu og Mið-Asíu orðið fátækt að bráð vegna innrásar Rússa og stríðsins í Úkraínu. Það er til viðbótar við þann fjölda barna sem þegar bjó við fátækt áður en átökin hófust. Fátækum börnum í heimshlutanum hefur fjölgað um 19 prósent frá síðasta ári að mati UNICEF.
UNICEF byggir niðurstöður sínar á gögnum frá 22 löndum. Rússnesk og úkraínsk börn hafa orðið verst úti. Mikill meirihluti barna sem hafa lent í fátækt eftir innrásina býr í Rússlandi, eða um 2,8 milljónir. Kostnaður við nauðsynjavörur hefur snarhækkað vegna stríðsrekstrar yfirvalda og sífellt fleiri heimili eiga erfiðara með að ná endum saman og falla undir fátæktarmörk, segir í niðurstöðum UNICEF.
Ekki aðeins hefur verðbólga hækkað upp úr öllu valdi vegna stríðsins sjálfs heldur einnig vegna viðskiptaþvingana sem vesturveldin beita Rússland.
Um hálf milljón barna í Úkraínu hefur orðið fátæk í kjölfar stríðsins. Í Rúmeníu hefur fátækum börnum fjölgað um 110 þúsund, að mati UNICEF.
Mun valda barnadauða
„Börn um allan þennan heimshluta hafa orðið fyrir barðinu á þessu hræðilega stríði,“ segir Afshan Khan, svæðisstjóri UNICEF í Evrópu og Mið-Asíu. „Ef við styðjum ekki við bakið á þessum börnum og fjölskyldum þeirra þegar í stað þá mun aukin barnafátækt alveg örugglega valda því að börn missa af menntun, tapa framtíð sinni og jafnvel deyja.“
UNICEF segir að þær fjölskyldur sem voru hvað viðkvæmastar fyrir verði harðast úti. Þegar nauðsynjavörur hækki í verði og enginn sé afgangurinn af tekjum heimilisins geti fólk ekki sótt sér nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og menntun. Við þessar aðstæður hefur sýnt sig að ofbeldi gegn börnum og misnotkun eykst.
UNICEF óttast að með sama áframhaldi muni 4.500 börn deyja fyrir eins árs afmæli sitt vegna efnahagslegra afleiðinga stríðsins og um 117 þúsund börn hætta í námi þegar á þessu ári.
Stofnunin leggur til ýmsar aðgerðir til að takast á við aðstæðurnar, m.a. að félagsleg aðstoð til barna í viðkvæmri stöðu verði styrkt. Bæta þurfi úr þegar í stað, áður en ástandið versnar enn frekar.