Von er á um 30 Afgönum til Íslands á næstu vikum en um er að ræða einstaklinga sem falla undir þá hópa sem íslensk stjórnvöld ákváðu að aðstoða sérstaklega. Þá hefur borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins verið í samskiptum við um 25 til 30 manns til viðbótar en óvíst er hvenær sá hópur kemst til landsins.
Þetta kemur fram í svari forsætisráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans varðandi innihald minnisblaðs sem lagt var fram á fundi ríkisstjórnarinnar þann 19. október. Kjarninn óskaði eftir að fá afhent minnisblaðið sem lagt var fram á fundinum en í svari ráðuneytisins segir að gögn sem tekin eru saman fyrir ríkisstjórnarfundi séu undanþegin upplýsingarétti almennings og var beiðni um að fá minnisblaðið afhent synjað. Bent er á í svarinu að heimilt sé að kæra synjun á afhendingu minnisblaðsins til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.
Fram kemur í svari ráðuneytisins að staðan í Afganistan sé mjög flókin. „Hefðbundnar flugsamgöngur liggja niðri og er því erfitt að flytja fólk úr landi. Íslensk stjórnvöld þurfa því að reiða sig á samstarf við aðra um að koma fólki frá Afganistan.“
Hafa aðstoðað 33 einstaklinga
Þann 24. ágúst féllst ríkisstjórn Íslands á tillögur flóttamannanefndar að taka á móti allt að 120 manns frá Afganistan í kjölfar valdatöku Talíbana. Í svari félagsmálaráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans segir að borgaraþjónustan hafi aðstoðað 33 einstaklinga sem voru staddir Afganistan rétt áður en lokað var fyrir flugsamgöngur við að komast til landsins. Í hópnum hafi bæði verið einstaklingar sem falla undir þá hópa sem ríkisstjórnin ákvað að aðstoða sérstaklega sem og einstaklingar sem voru með dvalarleyfi hérlendis eða íslenskir ríkisborgarar.
Á næstunni sé von á um það bil 30 Afgönum til landsins sem falla undir þá hópa sem íslensk stjórnvöld ákváðu að aðstoða sérstaklega.
„Stjórnvöld hafa verið í samskiptum við bæði Flóttamannastofnun Sameinuðu Þjóðanna, Alþjóðafólksflutningastofnunina (IOM) og önnur Norðurlönd varðandi útfærslu á verkefninu. Staðan í Afganistan er mjög flókin, hefðbundnar flugsamgöngur liggja niðri og því erfitt að flytja fólk úr landi. Áframhaldandi góð samvinna við þessar alþjóðastofnanir eru því lykill að því að ná sem flestum af hópnum til landsins.
Félags- og barnamálaráðherra hefur beint þeim tilmælum til flóttamannanefndar að hún haldi störfum sínum áfram í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnar Íslands og að nefndin eigi að leita allra leiða til þess að koma fjölskyldunum til landsins við sem allra fyrst,“ segir í svari félagsmálaráðuneytisins.