Skálmöld er nú á tæplega 7 vikna túr um Evrópu. Dagarnir eru afskaplega viðburðaríkir og aðstæður oft afskaplega skemmtilegar. Snæbjörn, bassaleikari og textahöfundur sveitarinnar, heldur úti daglegu bloggi á vef Kjarnans þar sem hann lýsir hinu goðsagnakennda rokkaralífi. Táfýla, blóð, sviti, tár og auðvitað rokk & ról beint í æð.
Það er lygi. Ég var of bugaður til að blogga í gær og núna er mánudagurinn 1. desember. Frídagur.
Við vöknuðum allir frekar hellaðir í gær og mig grunar að rauðvínið hans Böbba hafi haft með það að gera. Það var alveg djöfull vont. Stór partur var kannski sá að við gátum hvergi lagt rútunni í Berlín, við höfðum jú næturstað á einhverju random bílastæði, en þegar Robert renndi henni upp að venjúinu um hádegið var hvergi pláss fyrir okkur. Við máttum því tæma draslið úr henni, hljóðfæri og annað hafurtask, og svo sáum við á eftir henni burtu. Það hefði svo sem verið sök sér nema hversu öll aðstaða baksviðs var þröng. Ég var orðinn hundbrjálaður í skapinu eftir svona 20 mínútur, en var svo sem bæði nývaknaður og kolryðgaður. Við fundum okkur kaffihús gegnt tónleikastaðnum og drukkum kaffi. Það dugaði samt bara alls ekkert til.
Partytime, excellent! Bibbi í góðum gír baksviðs.
Sándtékk gekk vel og reyndar var staðurinn allur til fyrirmyndar fyrir utan plássleysið. Þetta er legendary staður og uppi um alla veggi hanga plaköt stórskostlegra banda sem hafa spilað þarna gegnum tíðina. Bad Religion, NOFX, Rancid, Atari Teenage Riot, Napalm Death, Dropkick Murphys, Discharged, Exploited og ég veit ekki hvað og hvað. Bönd sem ég hef hlustað á frá unglingsárum. Það er gaman að feta í fótsporin.
En við vorum þarna orðnir enn voðalegri en áður. Ég er kannski að stækka þetta eitthvað, ég var kannski bara verstur. Við fengum þarna hið svokallaða Buy Out, það eru peningar sem ætlaðir eru fyrir kvöldmáltíð. Þessi aðgerð er reyndar mjög óþýsk því venjulega eru þýsku staðirnir með innanhússmötuneyti eða aðkeyptan mat. En í gær sáum við um okkur sjálfir. Við náðum í alvörunni ekki lengra en í næsta húsnúmer og borðuðum hamborgara. Þá fattaði ég reyndar að ég var djöfull svangur sem hjálpaði ekki til. Ég ritaði hér um daginn að ég lifði svo óhollu líferni að ég hlyti að vera að fitna heil ósköp. Það er algert kjaftæði. Ég er farinn að herða beltið á buxunum mínum til muna. Þegar ég fattaði þetta fór ég yfir þetta allt saman og komst að því að ég borða afskaplega lítið. Það sem ég borða er vissulega mishollt, en óreglan er jafnvel meiri en mig óraði fyrir, og mest sökum skorts á næringu. Og þarna hafði ég sennilega gengið fram af mér.
Það var stutt í gigg og ég keyrði í mig vatn á eftir borgaranum til að reyna að hjálpa systeminu. Það gekk bara svona lala. Klukkan hálf8 var svo vitanlega talið í. Þungarokkið bíður ekkert eftir aumingjum. Fyrstu lögin hjálpuðu ekkert til en við slógum auðvitað hvergi af. Daginn áður höfðum við spilað í Póllandi og þar urðu lætin svo mikil að ég var næstum rifinn út í sal, en dyraverðirnir höfðu betur í reiptoginu. Áhorfendur rifu reyndar svo harkalega í handlegginn á mér að ég var ekkert alveg viss um að ég gæti klárað giggið vegna sársauka í öxl. Þegar tónleikunum lauk var ég hins vegar algerlega heill og hef ekki kennt mér meins síðan. Undarlegt, en mjög gott. En já, sólarhring síðar erum við þarna í Berlín, allt í skrúfunni og á gólfinu er svona reytingur af fólki sem sýnir lítil viðbrögð. Þjóðverjar hlusta og meðtaka, en sýna ekkert endilega af sér kæti. Það er allt miklu erfiðara. Og salurinn langt því frá fullur. Það breyttist nú sem betur fer og til þess að öllu sé til haga haldið spiluðum við mjög sannfærandi gigg og af fullu afli. Skálmöld gefur ekki afslátt þótt blóðsykurinn sé í ójafnvægi. Þannig endaði allt í háalofti og stemningin mikil. En þetta var eitthvað undarlegt.
Og það var eins og mig grunaði. Við áttum von á þónokkuð mörgum gestum og flestum íslenskum. Strax þegar ég sá hversu fáir voru mættir í upphafi tónleika vissi ég þetta. Í fjórða skiptið á túrnum eru tónleikarnir auglýstir klukkan átta en við settir á svið klukkan hálf. Og núna höstuðum við harkalega á yfirstjórn Eluveitie, sem reyndar reynist okkur nú afskaplega vel alla daga. En þetta getur ekki bara verið svona. Mér fannst þetta sér í lagi leiðinlegt í gær vegna fólksins okkar, en heilt yfir er þetta bara ómögulegt. Og ekki stóð á viðbrögðum. Í morgun fór út tölvupóstur á skrifstofur allra staðanna sem við eigum eftir að spila á í Þýskalandi að koma þessu á hreint. Svo virðist sem að við miðasölukompaníið hér í landi sé að sakast. Þau fengu upplýsingar um eitt en áframsendu svo annað. Og hér eftir verður þetta kannað í grunninn og klárt að Skálmöld fer ekki á svið fyrir auglýstan tíma. Helvítis helvíti!
Eftir þetta stapp og sturtu ætlaði ég að hitta fólkið en sökum þess hversu lítill þessi staður er var eina leiðin, úr bakksteidsinu og út, í gegnum mannhafið. Ég var síðastur okkar í sturtu og þegar því lauk voru Eluveitie byrjuð að spila. Ég lagði ekki í þann troðning, ég bara gat það ekki. Eftir giggið staulaðist ég fram og náði að hrista nokkra spaða en missti af öðrum. Og það eiginlega kláraði mig alveg. Robert kom skömmu síðar, við hentum öllu inn í rútu og fórum flestir í koju. Þráinn var þá reyndar orðinn alveg prýðilegur. Robert lagði rútunni við einhvern annan tónleikastað hvar við gátum tengt hana við rafmagn. Svo duttu þeir félagar í það held ég. Baldur hjálpaði þeim eitthvað smá og svo bættust hér í partýið Marci og Anton, hljóðmaður Rússanna og Chris trommutekk Eluveitie. Og kannski fleiri, ég veit það ekki. Þetta gerðist allt hér frammi í rútunni, ég var bara inni í koju að horfa á vídeó. Ég sofnaði seint og um síðar og vaknaði snemma. Og þá var allt orðið betra. En meira um það næst.
Þetta tímabil. Þetta kemur allaf og alltaf á sama tíma. Mánuður búinn sem manni finnst óralangur tími en samt rúmar tvær vikur eftir. Allt eins alla daga, ekkert gaman að dröslast þetta og keyra endalaust, heilsan afskaplega misgóð og manni finnst lífið erfitt og ofmetið. Jebb, þessi móment koma alltaf, það er lögmál.
Meistaralegt dagsins: Ekkert.
Sköll dagsins: Allt.