Starfshópur sem Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra skipaði til þess að skoða starfsemi, regluverk, eftirlit og löggjöf varðandi blóðmerahald á Íslandi komst að þeirri niðurstöðu í skýrslu sinni að lagaumgjörðin um blóðtöku úr fylfullum hryssum væri „afar óljós“ og „ekki viðunandi“. Hópurinn mælti með því að ráðherra myndi setja reglugerð um starfsemina og það ætlar ráðherra að gera, samkvæmt tilkynningu frá matvælaráðuneytinu.
Stefnan í þessum málum er nú sú að leyfa starfsemina áfram á breyttum forsendum, en ekki banna hana. Að minnsta kosti í þrjú ár – en reglugerð ráðherra á að gilda í þrjú ár og mun sá tími verða nýttur til þess að leggja mat á framtíð starfseminnar. Samkvæmt tilkynningu ráðuneytisins telur ráðherra rétt að „efna til sérstakrar umfjöllunar um siðferðileg álitamál tengd starfseminni“ samhliða þessu.
Ekki hægt að banna blóðmerahald á grundvelli dýravelferðarlaga
Samkvæmt starfshópnum er ekki hægt að banna blóðmerahald á grundvelli núverandi laga um velferð dýra – og jafnframt kemur fram að ef banna ætti starfsemina á grundvelli dýravelferðar þyrfti að líta til jafnræðis á milli mismunandi dýrahalds í atvinnuskyni, en starfshópurinn fór ekki í slíkan samanburð. Auk þess þyrftu að koma til sterkari málefnaleg sjónarmið, byggð á mögulegum breytingum á niðurstöðum eftirlits og rannsókna.
Í skýrslu hópsins segir þó að annar möguleiki væri að banna starfsemina á grundvelli óbeinna efnahagslegra hagsmuna, s.s. ímyndar íslenska hestsins og hugsanlegra neikvæðra áhrifa á hestatengda starfsemi í landinu. Fram kemur að þó væri erfitt að mæla eða sýna fram á slík áhrif, en það væri þó óhjákvæmilegt að gera það áður en ákvörðun yrði tekin um með tilliti til slíkra sjónarmiða.
Hert skilyrði og óháð eftirlit með blóðbúskap
Samkvæmt tilkynningu ráðuneytisins á reglugerð ráðherra um blóðmerahaldið að gilda til þriggja ára. Í henni verður skýrt kveðið á um hvaða skilyrði starfsemin þurfi að uppfylla og jafnframt að starfsemin sé leyfisskyld.
„Með setningu slíkrar reglugerðar yrði hin óljósa réttarstaða þessarar starfsemi færð til betri vegar. Gildistími reglugerðarinnar verður nýttur til að fylgjast með framkvæmd starfseminnar og leggja mat á framtíð hennar,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.
Reglugerðin á að byggja á sömu skilyrðum og Matvælastofnun setur nú um blóðmerahald, en starfshópurinn leggur einnig til að þau verði hert og ítarlegri ákvæði sett um aðbúnað og aðstöðu, eftirlit með ástandi hrossa varðandi heilbrigði, hófhirðu og skapgerðarmat, vinnuaðferðir við blóðtökuna sjálfa og um innra og ytra eftirlit með henni. Einnig taldi starfshópurinn nauðsynlegt að óháður aðili, eins og til dæmis Tilraunastöðin á Keldum, sannreyndi mælingar á blóðbúskap blóðtökumera, að minnsta kosti tímabundið.
Starfshópur skipaður eftir að myndbönd af illri meðferð dýra birtust
Starfshópurinn sem nú hefur lokið störfum var skipaður í upphafi ársins, í kjölfar þess að evrópsk dýraverndunarsamtök myndskeið af slæmri meðferð hrossa á YouTube undir lok síðasta árs. Það mál er til rannsóknar hjá lögreglu.
Ráðherra kallaði eftir tilnefningum í starfshópinn frá Matvælastofnun og Siðfræðistofnun Háskóla Íslands. Iðunn Guðjónsdóttir, sérfræðingur í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu er formaður hópsins, en hún var skipuð af ráðherra án tilnefningar. Einnig sátu í hópnum þau Sigríður Björnsdóttir, yfirdýralæknir í hrossasjúkdómum hjá Matvælastofnun og Ólafur Páll Jónsson, prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands.