Nýleg bók Jareds Bibler, fyrrverandi rannsakanda hjá Fjármálaeftirlitinu, um aðdraganda og eftirmála hruns íslensku bankanna árið 2008, fékk afar góða umsögn í breska blaðinu Financial Times í gær. Bókin er ein fárra sem komið hafa út á ensku um fall íslenska bankakerfisins haustið 2008.
„Þrátt fyrir að ég hefði getað þegið nokkrar ljósmyndir og efnisatriðaskrá er Iceland’s Secret stórkostleg lesning. Hún opnar augu manns og felur í sér varnarorð um þau blygðunarlausu og langvarandi brot sem geta átt sér stað ef bankamenn fá frítt spil hjá blaðamönnum, eftirlitsstofnunum, stjórnmálamönnum og ríkisstjórnum ríkja,“ segir í bókadómnum.
Hann ritar blaðamaðurinn Ian Fraser, sem árið 2014 gaf sjálfur út bók um ris og fall Royal Bank of Scotland og hvað það var sem leiddi til þess að breska ríkisstjórnin þurfti að koma bankanum til bjargar á ögurstundu, með ærnum tilkostnaði fyrir skattgreiðendur.
Í bókadómnum segir Frasier að það sem Bibler bendi á með bókinni sé það að ef eftirlitsstofnanir með fjármálakerfinu á heimsvísu vakni ekki og herði sig, gæti svipaður „fíflagangur“ og átti sér stað á Íslandi fyrir hrun verið að eiga sér stað í öllum hornum fjármálamarkaðarins, með mögulega hörmulegum afleiðingum.
Taldi alþjóðlega umfjöllun um íslenska hrunið vanta
Kjarninn ræddi ítarlega við höfund bókarinnar í september síðastliðnum. Þar sagði hann frá því að hann hefði ákveðið að skrifa bókina vegna skorts á því að helstu erlendir fjölmiðlar gerðu íslenska bankahruninu og eftirmálum þess almennileg skil í heild sinni.
„Ég var alltaf að bíða eftir að Financial Times myndi covera þetta, en það gerðist aldrei,“ sagði Jared við blaðamann.
Í bókadómnum sem birtist í Financial Times segir að fáir séu í betri aðstöðu en Jared til að gera íslenska bankahrunsins skil, þar sem hann hafi verið með sæti í fremstu röð á þá atburði á árunum fyrir hrun þegar íslenska bankakerfið var í örum vexti.
Jared sagði upp störfum hjá Landsbanka Íslands einungis nokkrum dögum áður en bankakerfið fór að hliðina í upphafi október árið 2008 og fór síðar að starfa sem rannsakandi hjá Fjármálaeftirlitinu.
Í umsögninni í Financial Times segir að bók Jareds sé blanda af opinskáum persónulegum endurminningum og „norrænni glæpasögu sem varpi ljósi á þær ótrúlegar uppgötvanir sem hann gerði sem rannsakandi.“