Brasilísk þingnefnd mælir með því að forsetinn Jair Bolsonaro verði ákærður fyrir glæpi gegn mannkyni og fullyrðir að hann hafi viljandi látið kórónuveiruna fara um landið óhefta sem varð til þess að hundruð þúsunda manna létu lífið. Þannig hafi hann ætlað að ná hjarðónæmi og halda lífi í stærsta hagkerfi Suður-Ameríku. Í skýrslu nefndarinnar er einnig lagt til að 69 manns til viðbótar, þar á meðal þrír synir Bolsonaros og margir núverandi og fyrrverandi embættismenn ríkisstjórnar hans, verði ákærðir. Skýrslan átti að koma út í dag en New York Times hafði áður fengið hana í hendur og fjallað ítarlega um niðurstöðurnar.
Þingnefndin sem hafði það hlutverk að rannsaka viðbrögð við faraldrinum í Brasilíu, komst fyrst að þeirri niðurstöðu að ákæra ætti Bolsonaro fyrir fjöldamorð og þjóðarmorð á frumbyggjum í Amazon. Á þeim slóðum stráféll fólk úr COVID-19, m.a. vegna þess að sjúkrahúsin urðu uppiskroppa með súrefni. Frá þessari fyrri niðurstöðu nefndarinnar var greint í mörgum fjölmiðlum, m.a. New York Times. Viðbrögð nokkurra brasilískra þingmanna voru þau að nefndin hefði gengið of langt og skömmu síðar, rétt áður en birta átti endanlega skýrslu skipti nefndin um skoðun, hætti við að leggja til að Bolsonaro yrði ákærður fyrir fjölda- og þjóðarmorð en í staðinn að hann yrði ákærður fyrir glæpi gegn mannkyni.
Í nefndinni eiga ellefu þingmenn sæti og sjö þeirra eru andstæðingar forsetans. Einn nefndarmanna er sonur Bolsonaro. Í fréttaskýringu New York Times segir að alls óvíst sé hvort að niðurstaðan muni að endingu leiða til þess að farið verði að tilmælum hennar og Bolsonaro ákærður. Nefndin segir að um 300 þúsund manns hafi týnt lífi í faraldrinum vegna stefnu forsetans sem er um helmingur allra sem látist hafa vegna COVID-19.
Gjá hefur myndast milli þjóðfélagshópa í Brasilíu undir stjórn Bolsonaro sem tók við völdum árið 2019. Á næsta ári verður kosið á ný og stjórnmálaskýrendur telja að mögulega geti skýrslan, í ljósi skiptra skoðana um ágæti forsetans, haft eitthvað að segja um niðurstöðu kosninganna.
„Það hefði verið hægt að koma í veg fyrir mörg dauðsföll,“ hefur New York Times eftir Renan Calheiros, þingmannsins sem er aðalhöfundur skýrslunnar. „Ég er persónulega sannfærður um að hann beri ábyrgð á því að veldisvöxtur varð í slátruninni.“ Hann sagði við New York Times í byrjun viku að hann ætti ekki von á öðru en að meirihluti nefndarinnar myndi styðja niðurstöðurnar en til stendur að kjósa um framhald málsins á þinginu í næstu viku.
Allt frá upphafi faraldursins gerði Bolsonaro lítið úr vandanum og ógninni sem veiran hefði í för með sér. Á sama tíma og flest ríki í heiminum gripu til harðra sóttvarnaaðgerða og sjúkrahús í Brasilíu hófu að fyllast af alvarlega veiku fólki, hvatti hann til fjöldasamkoma og sagði grímur óþarfar. Hann hvatti til notkunar á lyfjum við meðferð COVID-sjúklinga sem ekki höfðu fengið samþykki sem slík og í ljós hefur komið að voru gagnslaus. Að auki er hann þekktur andstæðingur bólusetninga og var í fyrstu ekkert að ýta undir slíkt hjá þjóð sinni. Ríkisstjórn dró mánuðum saman lappirnar í því að dreifa bóluefnum um landið og hundsuðu yfir 100 tölvupósta frá lyfjafyrirtækinu Pfizer sem framleiðir eitt bóluefnanna og var fyrst allra til að fá markaðsleyfi. Í staðinn fyrir að svara Pfizer kaus ríkisstjórnin að ofgreiða fyrir ósamþykkt bóluefni frá Indlandi. Þeim samningi var þó að endingu rift.
Muni skýrslan verða samþykkt af meirihluta þingmanna mun ríkissaksóknari Brasilíu hafa þrjátíu daga frest til að ákveða hvort að hann ákæri Bolsonaro. Neðri deild þingsins mun svo einnig þurfa að samþykkja ákærurnar, segir í fréttaskýringu New York Times. Þar kemur fram að Bolsonaro hafi skipað núverandi ríkissaksóknara. Þá skipa stuðningsmenn Bolsonaros ennfremur neðri deild þingsins.
Calheiros, sem er þingmaður miðjuflokks í brasilísku öldungadeildinni og hefur setið í fleiri ár á þingi, segir að ef neðri deildin samþykki ekki ákærurnar verði leitað annarra leiða til að draga forsetann til saka. Alþjóða glæpadómstólinn í Haag komi þar t.d. til greina.