Sex ríki Afríku, Egyptaland, Kenía, Nígería, Senegal, Suður-Afríka og Túnis, verða þau fyrstu í álfunni til að fá tæknibúnað til að framleiða sitt eigið mRNA-bóluefni. Alþjóða heilbrigðismálastofnunin, WHO, hefur unnið að því að gera Afríkulöndum það kleift að framleiða sjálf bóluefni og hafa samningar þar um loks náðst.
Þegar framleiðslan verður komin af stað þurfa Afríkulönd, að sögn WHO, ekki lengur að stóla eingöngu á efnaðri ríki hvað varðar bóluefnaskammta gegn COVID-19. Sú hefur verið raunin hingað til sem hefur orðið til þess að Afríka er langt á eftir öðrum álfum heims þegar kemur að bólusetningum. Þá hafa lyfjafyrirtækin mörg hver neitað að gefa eftir einkaleyfi til framleiðslunnar og önnur verið treg til þess.
BioNtech, fyrirtækið sem bjó til mRNA-bóluefni gegn COVID-19 sem Pfizer framleiðir, hefur einnig tilkynnt að það ætli sér að koma til Afríkulanda færanlegum bóluefnaverksmiðjum, búnum til úr flutningagámum.
WHO vonast til þess að einnig hægt verði að nýta tækjabúnaðinn til að framleiða önnur lyf og bóluefni, m.a. insúlín, krabbameinslyf og mögulega bóluefni gegn malaríu, berklum og HIV en þeir sjúkdómar eru í dag útbreiddir í mörgum Afríkuríkjum.
Frá því að bóluefnaframleiðsla hófst fyrir rúmu ári hefur WHO harðlega gagnrýnt efnaðri þjóðir fyrir að hamstra bóluefni og standa ekki við skuldbindingar um gjafir til fátækustu ríkja heims líkt og samið hafði verði um áður en framleiðsla bóluefnanna hófst. Því þegar á hólminn var komið tróðu Vesturlönd sér mörg hver fremst í röðina hjá framleiðendum bóluefna, með peninga og völd að vopni og voru farin að bólusetja íbúa sinna landa í þriðja sinn áður en þau höfðu uppfyllt loforð um að gefa með sér til þeirra fátæku.
Þau tíðindi að BioNTech ætli að flytja til Afríku færanlegar rannsóknarstofur og verksmiðjur hefur verið fagnað en ákvörðunin hefur einnig verið gagnrýnd því með þessu fyrirkomulagi á ekki að deila þekkingu á framleiðslu bóluefnanna, líkt og WHO hefur krafið lyfjafyrirtækin um að gera. Lyfjafyrirtæki sem nutu gríðarlegs meðbyrs og fjármuna frá ríkjum, opinberum stofnunum og fleiri aðilum, til að þróa bóluefni og mala nú gull af framleiðslunni.
„Enginn annar viðburður í sögunni en COVID-19 hefur sýnt að það að vera háður fáum fyrirtækjum um nauðsynlega framleiðsluvöru er takmarkandi og hættulegt,“ sagði Tedros Adhanom Ghebreyesus, framkvæmdastjóri WHO, er hann heimsótti Suður-Afríku nýverið.
Enn hafa 116 ríki heims ekki náð að bólusetja 70 prósent íbúa sinna og sum eru langan veg frá því. 80 prósent íbúa Afríku hafa ekki fengið einn einasta skammt af bóluefni.