Enn eitt vandamálið er í uppsiglingu varðandi bólusetningu íbúa Afríku. Nú þegar hyllir loks undir að bóluefni gegn COVID-19 fari að koma þangað í umtalsverðu magni eru tafir á bólusetningum fyrirsjáanlegar vegna skorts á sprautum.
UNICEF og Alþjóða heilbrigðisstofnunin vara við þessu og spá því að 2,2 milljarða einnota sprauta muni vanta upp á til að gefa fólki bóluefnaskammtana þegar þeir koma. Þá er meðtalinn fyrirsjáanlegur skortur á sérstökum sprautum sem notaðar eru til að gefa bóluefni Pfizer-BioNtech.
WHO telur að sprautuskorturinn verði viðvarandi fram á að minnsta kosti fyrsta fjórðung næsta árs. „Snemma á næsta ári munu COVID-bóluefni fara að streyma til Afríku en skortur á sprautum gæti lamað bólusetningaferlið,“ sagði Matshidiso Moeti, yfirmaður WHO í Afríku á blaðamannafundi. Verulega innspýtingu vanti í framleiðslu sprauta á bæði heimsvísu en einnig í Afríku. „Óteljandi líf Afríkubúa eru í húfi.“
Óttast er að með sama áframhaldi muni aðeins fimm Afríkuríki ná því takmarki að bólusetja tíu prósent borgara sinna fyrir árslok en markmiðið er 40 prósent.
Afríkusambandið hyggst kaupa 110 milljón skammta af bóluefni lyfjafyrirtækisins Moderna. Var það samkomulag gert með milligöngu bandarískra stjórnvalda og munu fyrstu sendingarnar vera skammtar sem Bandaríkin höfðu tryggt sér með samningum. Fyrsta sendingin mun þó ekki berast fyrr en í lok árs og frekari sendingar eru ekki áformaðar fyrr en í upphafi þess næsta. Moderna segist vera með áætlanir um að byggja verksmiðju til framleiðslu bóluefnisins í Afríku árið 2023.
Íbúar Afríku eru um 1,2 milljarðar. Um 5,6 prósent þeirra eru fullbólusettir. 54 prósent Evrópubúa eru bólusettir að fullu.
Tölfræði vegna faraldursins er víða óáreiðanleg í Afríku. Sem dæmi voru tekin 287 sýni í Úganda í gær, samkvæmt upplýsingum stjórnvalda, og reyndust þau öll jákvæð. Íbúar Úganda eru yfir 40 milljónir.
8,5 milljónir staðfest tilfelli hafa greinst í Afríku frá upphafi faraldursins. Yfir 218 þúsund dauðsföll eru rakin til COVID-19 en þessar tölur eru taldar verulega vanmetnar.