Delta-afbrigði kórónuveirunnar hefur greinst í um 100 löndum. Það hefur síðustu vikur og mánuði skotið sér niður af krafti í nokkrum þeirra og þar sem það er meira smitandi en önnur hefur það á skömmum tíma náð yfirhöndinni. Talið er að með haustinu verði það orðið allsráðandi í Evrópu.
Frá því að afbrigðið, sem fyrst var kennt við Indland, skaut upp kollinum, hafa spurningar vaknað um virkni bóluefna gegn því þar sem bóluefnin sem eru á markaði í dag eru þróuð út frá fyrri afbrigðum. Og svörin eru farin að hlaðast inn. En þau eru ekki samhljóma.
Niðurstaða breskrar rannsóknar sem gerð var í maí var sú að tveir skammtar af bóluefni Pfizer-BioNtech veittu 88 prósent vörn gegn einkennum COVID-19 af völdum Delta-afbrigðisins.
Í skoskri rannsókn, sem birt var í júní, var niðurstaðan sú að þetta sama bóluefni veitti 79 prósent vörn gegn afbrigðinu. Í síðustu viku birtu kanadískir vísindamenn svo sínar niðurstöður sem voru þær að virkni bóluefnisins gegn afbrigðinu væri 87 prósent.
Í þessari viku kom svo enn ein rannsóknin og samkvæmt heilbrigðisráðuneyti Ísraels veitti bóluefni Pfizer aðeins 67 prósent vörn gegn veikindum af völdum allra afbrigða kórónuveirunnar. Með sömu aðferðum höfðu ísraelskir vísindamenn komist að því í maí að vörnin væri 95 prósent. En það var áður en Delta-afbrigðið hóf að dreifa sér um landið.
Mismunur í niðurstöðum rannsóknanna er kannski ruglandi en hann er engu að síður nokkuð eðlilegur.
Nokkur púsl
„Við verðum að púsla þessum rannsóknum öllum saman og ekki horfa of mikið á eina niðurstöðu,“ hefur New York Times eftir líftölfræðingnum Natalie Dean. Hún bendir á að í klínískum rannsóknum sé tiltölulega auðvelt að mæla virkni bóluefna. Í þeim taka þúsundir sjálfboðaliða þátt og fá þeir ýmist bóluefni eða lyfleysu. Ef hópurinn sem fær bóluefni veikist síður geti vísindamenn með nokkru öryggi sagt að bóluefnið verji þá gegn sjúkdómnum.
En um leið og bóluefni eru komin í „raunheima“ – hafa verið gefin almenningi – er mun erfiðara að mæla virkni þeirra því vísindamenn hafa misst stjórn á því hverjir fá efnið og hverjir ekki. Þar sem bóluefni hafa verið gefin fólki eftir kúnstarinnar reglum, miðað við aldur og undirliggjandi sjúkdóma t.d., er flókið að bera óbólusetta saman við bólusetta. Þessir hópar eru orðnir ansi ólíkir.
Því þurfa vísindamenn að velja samanburðarhópa mjög vandlega og því eru rannsóknir sem þessar oft bornar uppi af fáum einstaklingum. „Þetta krefst gríðarlegrar vinnu,“ hefur New York Times eftir faraldsfræðingnum Marc Lipsitch.
Niðurstöður allra þessara rannsókna og fleiri sem gerðar hafa verið á öðrum bóluefnum, eru á þá leið að þau virki almennt gegn hinu skæða afbrigði og komi í veg fyrir alvarleg veikindi og þar með sjúkrahúsinnlagnir.
Frekari rannsókna og yfir lengri tíma er þörf til að fá enn skýrari mynd á virkni bóluefnanna. Einnig þarf að framkvæma rannsóknirnar í fleiri löndum.
Tæplega 90 prósent Íslendinga eldri en sextán ára hafa fengið að minnsta kosti annan skammtinn af bóluefni eða um 70 prósent þjóðarinnar. Bólusetningahlutfallið hér er með því hæsta sem fyrirfinnst í heiminum og er vel yfir því sem gengur og gerist annars staðar í Evrópu.