Delta afbrigðið hefur tekið algjörlega yfir öll önnur afbrigði kórónuveirunnar hér á landi á síðustu vikum sem hefur leitt til þess að útbreiðsla veirunnar hefur orðið mjög mikil hér innanlands. Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi Almannavarna í dag. Þórólfur sagði að afbrigðið hefði komið hingað til lands og dreifst með fólki sem hefur hér víðtækt tengslanet.
„Einnig hefur komið í ljós að fullbólusettir geta smitast nokkuð auðveldlega og smitað aðra þannig að það er ljóst að bólusetningin er ekki að skapa það hjarðónæmi sem vonast var til. Þetta hefur leitt til þess að margir sem hafa komið hingað til lands hafa borið með sér delta afbrigði veirunnar og náð að smita út frá sér hér innanlands. Þannig höfum við séð ótrúlega hraða útbreiðslu innanlands bæði hjá bólusettum og óbólusettum einstaklingum, einkum frá fólki sem hingað kemur og hefur hér víðtækt tengslanet,“ sagði Þórólfur.
Raðgreining hafi sýnt að uppruni flestra smita megi rekja til hópatburða, til að mynda til skemmtistaðs í Reykjavík, hópferða til London og Krítar sem og til annara atburða þar sem margt fólk kemur saman.
Vantar upp á bólusetningu í yngstu hópunum
Þórólfur sagði að ljóst hafi verið að ekki hafi verið hægt að halda áfram óbreyttu fyrirkomulagi skimana á landamærum vegna vaxandi fjölda ferðamanna og takmarkaðs mannafla til að sinna sýnatöku. Á einhverjum tímapunkti hafi þurft að láta á það reyna hvort útbreidd bólusetning myndi ná að halda COVID í skefjum eða í lágmarki hér á landi en um 70 prósent landsmanna er fullbólusettur. Þá hafði innanlandssmit verið í lágmarki um nokkurt skeið þegar ákvörðun um tilslakanir var tekin auk þess sem áhætta á því að smit bærist yfir landamærin hafði verið metin lítil.
Hlutfall bólusettra er misjafnt eftir aldurshópum, um 95 prósent þeirra sem eru 60 ára og eldri eru fullbólusett. Um 90 prósent þeirra sem eru 50 til 60 ára eru fullbólusett og í aldurshópnum 16-50 ára eru 80 prósent fullbólusett. „Helst vantar á bólusetningu yngstu aldurshópanna, núna eru um 10 prósent þeirra sem eru á aldrinum 12 til 16 ára fullbólusettir,“ sagði Þórólfur.
Þórólfur sagði það eiga eftir að koma í ljós hvort að núverandi takmarkanir muni duga til að nú utan um þá bylgju sem er í gangi en vonir höfðu verið bundnar við að hin víðtæka bólusetning myndi koma í veg fyrir alvarleg veikindi og spítalainnlagnir. Vísbendingar séu um bólusetning komi í veg fyrir alvarleg veikindi að sögn Þórólfs.
Álag á heilbrigðiskerfið áhyggjuefni
„Nú hafa 24 rúmlega þurft að leggjast inn á sjúkrahús af þeim 1470 sem greinst hafa innanlands eða um 1,6 prósent. Í fyrri bylgjum faraldurs var hlutfall þeirra sem þurftu að leggjast inn á sjúkrahús um fjögur til fimm prósent. Hins vegar hafa um 70 prósent af þeim sem hafa greinst frá 1. júlí verið fullbólusettir og hlutfall þeirra bólusettra sem hafa þurft að leggjast inn er um eitt prósent. Hlutfall innlagna hjá smituðum óbólusettum er hins vegar um 2,4 prósent,“ sagði Þórólfur. Því sé bólusetningin að veita vörn gegn alvarlegum veikindum.
Svo virðist sem mest sé um smit meðal fólks sem fékk bóluefni frá Janssen og því stendur til að bjóða þeim sem það fengu aðra bólusetningu, annað hvort með bóluefni frá Pfizer eða Moderna. Einnig stendur til að bjóða börnum frá 12 til 15 ára bólusetningu á næstunni.
„Þannig erum við núna á þeim tímamótum að við erum að sjá mikla útbreiðslu veirunnar í samfélaginu sem getur náð til þeirra sem að ekki hafa verið bólusettir en það eru núna um 30 þúsund manns sem eru eldri en 16 ára og um 70 þúsund börn yngri en 16 ára. Þannig getur lítið hlutfall alvarlegra veikinda hjá óbólusettum leitt af sér mikinn fjölda alvarlegra veikra ef útbreiðslan verður mikil,“ sagði Þórólfur. Hann sagði að þetta gæti leitt af sér mikið álag á heilbrigðiskerfið. Nú þegar hafi borist af því fréttir frá Landspítalanum að mikið álag sé á spítalanum sem einnig geti leitt af sér truflun á þjónustu við aðra sjúklinga en einungis þá sem eru að glíma við COVID-19.