„Það breytir þá auðvitað engu hvort menn hafi verið með vangaveltur um annað eða viðrað áhyggjur ef þetta var niðurstaðan.“
Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og formaður Framsóknarflokksins í samtali við Kjarnann þegar hann er spurður út í þá gagnrýni sem varaformaður flokksins og viðskiptaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, viðhafði um þá aðferðafræði sem beitt var við sölu á 22,5 prósent hlut í Íslandsbanka í mars síðastliðnum. Hann svarar því þó ekki hvort hann hafi rætt áhyggjur Lilju við hana persónulega.
Hann segir að menn hafi oft rætt „einhverjar efasemdir“ fyrir útboðið en að niðurstaða bæði ráðherranefndar og ríkisstjórnar, sem og í Alþingi – bæði í nefndum og þingflokkum – hafi verið sú að heimila þessa sölu með þessari aðferð og án frekari annmörkum en settir voru.
Bjarni kannast ekki við miklar efasemdir hjá sjálfum sér
Sigurður Ingi útskýrir þetta nánar og segir að menn hafi „viðrað vangaveltur“ fyrir útboðið. Lilja situr í ráðherranefnd um efnahagsmál en hún sagði í viðtali við Morgunblaðið þann 11. apríl að hún hefði viljað almennt útboð, en ekki að bréfin yrðu seld til valins hóps fjárfesta. Hún sagðist jafnframt hafa komið þeim sjónarmiðum sínum skýrt á framfæri í aðdraganda útboðsins. „Ég hef alltaf talið skynsamlegt að taka lítil og hægfara skref. Hafa vaðið fyrir neðan sig. Ekki einblína á verð, heldur gæði framtíðareigenda. Önnur leið var hins vegar valin og því miður er fátt sem kemur á óvart í þessu máli og hver útkoman varð.“
Katrín brást við þessum orðum viðskiptaráðherrans með því að segja að hvorki Lilja né nokkur annar ráðherra hefði óskað að færa neitt til bókar um söluferli á hlut Íslandsbanka þegar málið var rætt í ríkisstjórn og ráðherranefnd um efnahagsmál. Lilja sagði á þingi í síðustu viku að bæði Katrín og Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra hefðu deilt þeim áhyggjum sem hún hafði.
Bjarni sagði þó á fundi fjárlaganefndar í síðustu viku að hann kannaðist ekki við að hafa verið með miklar efasemdir í ráðherranefndinni og telur hann ekki að það sé lýsandi fyrir umræðu í ráðherranefnd að þar hafi ráðherrar verið með mikla efasemd um að framkvæma útboðið. „Þvert á móti þá er ég þeirrar skoðunar um að þar hafi farið fram gagnleg umræða um kosti og galla þeirra valkosta sem við stóðum frammi fyrir.“
„Getum ekki treyst fjármálaheiminum“
Sigurður Ingi segist í samtali við Kjarnann ekki geta tjáð sig um hvað fram fer í ráðherranefndinni, enda sitji hann ekki þá fundi og allt sé í trúnaði sem gerist þar nema það sé bókað. Sama gildi um ríkisstjórnarfundi.
„Almennt get ég sagt að menn viðra skoðanir sínar og hafa áhyggjur af ólíkum hlutum,“ segir hann og vísar í orð sín á Alþingi í síðustu viku þar sem hann sagði að í öllu þessu ferli, innan ráðherranefndar, í ríkisstjórn, á Alþingi og í samráði við sérfræðinga, hafi „því miður aldrei komið upp sú tillaga að setja lágmark sem allir sjá í dag að hefði verið gott – eða önnur viðmið sem hefðu þrengt túlkun eða mögulega söluaðila. Ég held að lærdómurinn af þessu sé að við getum ekki treyst fjármálaheiminum til þess að hafa svigrúm til túlkunar. Reglurnar verða að minnsta kosti að vera alveg skýrar.“
Hann telur að það þurfi að vera stífara regluverk til þess að búa til öryggi á fjármálamörkuðum. „Mér finnst þetta ferli sýna það að við séum ekki komin lengra og að það þurfi halda áfram með það.“
Fylgjandi því að sett verði á laggirnar rannsóknarnefnd Alþingis – ef þörf krefur
Ráðherrann bendir á að ríkisstjórnin hafi ákveðið að stöðva frekari sölu og bíða eftir niðurstöðum rannsókna Ríkisendurskoðunar og Fjármálaeftirlits Seðlabankans. Ef eitthvað birtist í þeim rannsóknum sem krefst frekari rannsókna þá þurfi að leitast eftir því við Alþingi að setja á laggirnar sérstaka rannsóknarnefnd.
Þannig að þú ert fylgjandi því að skipa rannsóknarnefnd Alþingis síðar?
„Algjörlega ef það þarf. Mér finnst að trúverðugleiki verði að vera hafinn yfir allan vafa þegar verið er að selja ríkiseignir eða almenningseignir. Þá eigi að vera fullkomið gegnsæi í því. Við hljótum öll að vera svekkt að hafa ekki sett skýrari reglur svo að túlkun söluaðilanna hafi ekki verið fyrir hendi og þess vegna finnst mér að þessir sérfræðingar sem ráðlögðu okkur hefðu átt að ráðleggja okkur betur. Þess vegna er ég svekktur út í Bankasýsluna og treysti henni ekki til að halda áfram að óbreyttu. Ég er þó mest svekktur út í sjálfan mig og okkur öll.“
Sigurður Ingi segir að Ríkisendurskoðun sé stofnun Alþingis og hljóti því að vera yfir allt vanhæfi hafin. Fjármálaeftirlit Seðlabankans hefði gríðarlega miklar heimildir til rannsókna – og hafi þegar komið í ljós að eftirlitið sé að rannsaka hvort söluaðilarnir hafi farið út fyrir sínar heimildir í þeirri túlkun sem þeir höfðu.
„Ef niðurstöður þessara rannsókna benda til að einhverjum spurningum sé ósvarað eða þeir telji í gegnum niðurstöðuna að það þurfi að skoða þetta betur og að þeim hafi skort heimildir þá finnst mér það einboðið, já,“ segir hann.
„Við viljum og viðurkennum að þarna hefði mátt gera betur“
Mikið hefur verið rætt um traust í garð stjórnmálamann eftir söluna og varðandi það þá segir Sigurður Ingi að hann vilji gera betur.
Ráðherrann segir að þrátt fyrir að meginmarkmiðin í þessum tveimur útboðum hafi náðst með dreifðri eignaraðild, 100 milljarða hærra verðmæti almennings í Íslandsbanka, fjölbreyttara eignarhaldi þá sé rýrnun trausts augljós afleiðing síðasta útboðs.
„Þess vegna stöðvuðum við frekari sölu þangað til fyrir liggja rannsóknir og einhvers konar ný útgáfa af því fyrirkomulagi sem Bankasýslan var með. Það er auðvitað gert vegna þess að við viljum og viðurkennum að þarna hefði mátt gera betur – og við viljum gera betur. Það er nokkuð augljóst eins og kemur fram í skoðanakönnunum að auðvitað verður traust á slíku fyrir hnekki og það er mjög mikilvægt að það sé fyrir hendi. Þess vegna stöðvum við og lýsum því yfir að það verði ekki frekari sala fyrr en annars vegar liggi fyrir niðurstaða rannsókna og hins vegar að einhvers konar nýtt fyrirkomulag liggi fyrir þar sem aðkoma Alþingis og aukið gagnsæi sé skýrara,“ segir hann.
Ráðherrar bera að lokum ábyrgðina
En ábyrgð ráðamanna? Hvað með hana?
Sigurður Ingi segir að það liggi í augum uppi að þeir sem starfa hjá framkvæmdavaldinu beri að lokum ábyrgð. „Við berum líka þá ábyrgð að það sé farið eftir þeim leiðbeiningum sem liggja fyrir.“
Hann rifjar upp að hann hafi setið í rannsóknarnefnd þingmanna eftir hrunið 2008 og þar hafi ein helsta athugasemdin, meðal annars við einkavæðingu bankanna, verðið að menn hafi ekki fylgt ráðum sérfræðinganna. „Það var gert í þessu tilviki,“ áréttar hann.
Þarf enginn að taka pólitíska ábyrgð í þessu tilfelli, að þínu mati?
„Eigum við ekki að kanna niðurstöðu rannsóknanna og gagnanna fyrst,“ segir hann og bætir því við að öllum steinum verði velt áður en hægt verði að svara frekari vangaveltum um það.