Danskir unglingar drekka mest allra í Evrópu og hafa gert í áraraðir, enda þurfa danskir unglingar ekki að vera nema 16 ára til þess að mega versla sér vín, bjór og aðra blandaða drykki úti í búð, svo lengi sem áfengismagn fer ekki yfir 16,5 prósent.
Þó að þessi mikla drykkjumenning hafi hingað til ekki valdið Dönum nægilega miklum áhyggjum til þess að þeir hafi ákveðið að hækka aldurinn til áfengiskaupa, en þess má geta að ekkert aldurstakmark er sett á áfengisdrykkju almennt, hefur danska heilbrigðisstofnunin nú séð ástæðu til þess að hvetja til þess að hætt verði að setja samasemmerki á milli menntaskólaviðburða og mikillar áfengisneyslu og ráðið gegn áfengisneyslu ungmenna undir 18 ára.
Þannig fengu skólameistarar allra danskra menntaskóla bréf á dögunum þar sem þeir voru hvattir til þess að endurskoða drykkjumenningu á viðburðum tengdum skólunum. Þá var sérstaklega minnst á nemendur í fyrsta bekk og voru skólarnir hvattir til þess að banna áfengisneyslu á öllum viðburðum fyrir nýja nemendur frá skólabyrjun og fram að haustfríinu. Þannig gætu nemendur kynnst bekkjarfélögum sínum án þess að hafa áfengi um hönd.
Drykkja í öruggum aðstæðum
Tilmæli heilbrigðisyfirvalda hafa fengið nokkuð jákvæð viðbrögð þó fæstum þyki bann við áfengisneyslu, líkt og það sem lagt er til fyrir nemendur á fyrsta ári, raunhæft. Þannig hefur TV2 haft eftir formanni danskra nemendasamtaka að þau hafi lengi talað fyrir því að ekki yrði boðið upp á drykki með áfengismagni yfir 5 prósentum á menntaskólaviðburðum. Hins vegar geti bann við áfengi á slíkum viðburðum leitt til þess að menntaskólanemar eigi fyrstu kynni sín af áfengi í ótryggum aðstæðum utan viðburða á vegum skólans.
Þá taki samtökin vel í aukið samtal á milli skólayfirvalda og nemenda um áfengismenningu og þær afleiðingar sem áfengisneysla í óhófi getur haft, auk þess sem þau segja það góða hugmynd að skólarnir bjóði einnig upp á áfengislausa drykki á viðburðum sínum. Um sé að ræða rótgróna danska menningarhefð sem ekki verði upprætt með því að banna fyrstubekkingum að drekka áfengi á skólaviðburðum í örfáar vikur.