Frá því í febrúar hafa að meðaltali 244 Úkraínumenn komið hingað til lands í hverjum mánuði og sótt um alþjóðlega vernd. Í febrúar voru umsóknirnar sextán en á 24. degi þess mánaðar hófst innrás Rússa í Úkraínu.
Mikill fólksflótti hófst í kjölfarið og í mars sóttu 533 manneskjur með tengsl við Úkraínu um hæli hér. Fjöldinn var 327 í apríl en kominn niður í 221 í maí. Svo virðist sem enn haldi áfram að hægja á komu þeirra hingað í leit að vernd. Í gær höfðu 125 Úkraínumenn komið hingað í leit að vernd í júní. Misjafnt er hversu margir koma á degi hverjum. Í fyrradag komu tólf og á síðustu tveimur vikum komu 73, svo dæmi séu tekin, úr upplýsingum sem Kjarninn fékk frá Embætti ríkislögreglustjóra.
Á um fimm mánaða tímabili hafa í heild 1.222 flóttamenn frá Úkraínu leitað skjóls á Íslandi.
Enginn veit með vissu hversu margir hafa flúið Úkraínu vegna stríðsátakanna. Áætlað er að talan standi nú í um 7,7 milljónum. Langflestir hafa flúið til nágrannalandsins Póllands eða um fjórar milljónir.
En það eru fleiri á flótta í heiminum sem leggja í löng ferðalög frá heimahögum í leit að skjóli eða betra lífi. Frá áramótum hafa 1.896 einstaklingar sótt um alþjóðlega vernd hér á landi. Langflestir eru með tengsl við Úkraínu. Flóttafólk frá Venesúela er næst flest (370) og fólk á flótta frá Palestínu er þriðji fjölmennasti hópurinn. Í Venesúela hafa miklar efnahagsþrengingar haft gríðarleg áhrif á almenning á síðustu árum. Þá eru vopnuð átök einnig tíð á ákveðnum landsvæðum. Í Palestínu hefur ástandið verið slæmt árum og áratugum saman og ítrekað kemur til átaka – oft mannskæðra.
Gögn ríkislögreglustjóra um flóttamenn sem hingað koma eru flokkuð í tvennt eftir kynjum; karlkyn og kvenkyn. Þegar litið er til hóps umsækjenda í heild eru konur í meirihluta (55 prósent) og í miklum meirihluta (64 prósent) hvað varðar fólk á flótta frá Úkraínu.
Um 450 börn hafa leitað verndar á Íslandi á árinu, þar af 304 frá Úkraínu.
Staða Úkraínumanna annars vegar og flóttafólks frá öðrum löndum hins vegar er almennt nokkuð ólík. Í byrjun mars ákvað dómsmálaráðherra að virkja ákvæði í útlendingalögum er varðar fjöldaflótta í samræmi við ákvörðun Evrópusambandsins að virkja samskonar úrræði. Þessi aðferð er fyrst og fremst til þess að geta veitt þeim sem flýja Úkraínu skjóta og skilvirka aðstoð, nánar tiltekið tímabundna vernd, án þess að móttakan og aðstoðin verði verndarkerfi Íslands ofviða, sagði í tilkynningu dómsmálaráðuneytisins.
Úkraínumenn fá dvalarleyfi sem veitt er til eins árs í senn með heimild til að endurnýja eða framlengja í allt að þrjú ár. Síðar er heimilt að gefa út ótímabundið dvalarleyfi.
Dvalarleyfið sem einstaklingum er veitt á þessum grundvelli felur í sér sömu réttindi og aðgengi að þjónustu og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Það þýðir aðgengi að húsnæði, framfærslu, félagsþjónustu, heilbrigðisþjónustu og aðgengi að atvinnumarkaðnum.
Aðrir sem hingað leita þurfa að sækja um vernd, bíða niðurstöðu Útlendingastofnunar og geta kært þá niðurstöðu til kærunefndar útlendingamála. Þetta ferli getur tekið nokkra mánuði.
Þeir sem sæta ofsóknum í heimalandi sínu eða heyra af öðrum ástæðum undir flóttamannahugtakið samkvæmt íslenskum lögum eiga rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi. Þegar knýjandi ástæður á borð við alvarlega sjúkdóma eða sérlega erfiðar félagslegar aðstæður í heimalandi eru til staðar er heimilt að veita dvalarleyfi af mannúðarástæðum. En hafi fólk fengið hæli í öðru Evrópulandi er því almennt vísað aftur þangað án þess að mál þeirra fái efnismeðferð.
Dvalið í skammtímaúrræðum mun lengur en áformað var
Um 700 manns dvelja nú í skammtíma búsetuúrræðum á vegum Útlendingastofnunar og um 190 í svokölluðum „millistykkjum“ eða „skjólum“ líkt og Gylfi Þór Þorsteinsson, aðgerðastjóri hjá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, orðar það, inntur eftir því hvernig gangi að koma öllu flóttafólki sem hingað hefur leitað í húsnæði. „Millistykkin“ eru m.a. úrræði á borð við Bifröst, sem Borgarbyggð hefur umsjón með. Þar getur fólk dvalið í jafnvel nokkra mánuði ef þarf.
En blikur eru á lofti og húsnæði, bæði skammtíma- og langtíma, fer tilfinnanlega að vanta við óbreyttar aðstæður.
„Fólkið á aðeins að þurfa að dvelja í skammtímaúrræðunum í nokkrar vikur en það er ekki raunin,“ segir Gylfi og bætir við að það eigi sér ýmsar skýringar. Stundum taki málsmeðferð umsókna um vernd langan tíma. Af þessum sökum og vegna þess að stöðugt kemur fleira flóttafólk til landsins fyllist pláss sem losna strax og stöðugt þurfi því að bæta við húsnæði.
Öll úrræði þéttsetin
Gistiheimili og hótel sem ekki eru í notkun eru hins vegar ekki á hverju strái í augnablikinu enda ferðaþjónustan farin á flug eftir faraldurinn. Það er því af sem áður var er nokkuð greiðlega gekk að finna húsnæði undir farsóttarhúsin sem Gylfi veitti forstöðu er COVID-faraldurinn stóð sem hæst.
Frá áramótum hefur þurft að koma tæplega 1.900 manns fyrir, þar af rúmlega 1.200 frá Úkraínu. „Öll úrræði eru þéttsetin,“ segir Gylfi og að ákveðinn „fráflæðisvandi“ hafi myndast þar sem sveitarfélögin sem eiga samkvæmt aðgerðaráætlunum að taka við fólkinu úr skammtímahúsnæði geta það ekki alltaf. Skýringin er hin margumtalaða húsnæðisekla, „það er eins og við vitum skortur á íbúðarhúsnæði og þetta hefur oft leitt til þess að fólk þarf að dvelja lengur í skammtímaúrræðum Útlendingastofnunar heldur en stóð til í upphafi“.
Ný nálgun
Nýrra skammtímalausna er því stöðugt leitað en einnig vilja yfirvöld leiðbeina flóttafólki við að finna sitt eigið húsnæði á leigumarkaði er það hefur fengið hér dvalarleyfi og jafnvel vinnu. Sem getur reynst þrautin þyngri af fyrrgreindum ástæðum. „Þannig að þetta stundum helvíti töff,“ viðurkennir Gylfi. Hins vegar séu allir að reyna að leggjast á eitt að láta hlutina ganga upp en hvað næstu vikur og mánuðir bera í skauti sér er óvíst.
Nú er verið að skoða að bæta byggingum í þorpinu á Eiðum á Fljótsdalshéraði við sem búsetuúrræði. Þar gætu að sögn Gylfa dvalið um 20 manns til að byrja með. Skóli var rekinn á Eiðum á síðustu öld og hótel yfir sumartímann nokkuð fram á þessa. Þar er ný nálgun í farvatninu, segir Gylfi, sem unnið er að með Vinnumálastofnun og snýr að því að útvega fólkinu sem þangað færi einnig vinnu. „Að tengja með þessum hætti saman vinnu og búsetu væri jafnvel hægt að gera víðar úti á landi.“
Sögulegur fjöldi flóttamanna
Spurður hvort farið sé að slá af kröfum um það húsnæði sem hugsað er til skammtímadvalar flóttafólks segir Gylfi svo ekki vera en að vissulega séu í slíku húsnæði ekki alltaf þær aðstæður sem æskilegar eru til lengri tíma. Fólk getur þurft að deila baði, eldhúsi og svo framvegis, og fjölskyldur að dvelja nokkuð þröngt saman í herbergi.
„Það hafa aldrei komið jafn margir flóttamenn til landsins á jafn skömmum tíma í Íslandssögunni,“ segir Gylfi. „En ég tel að við séum að ná eins vel utan um þetta og hægt er miðað við þær aðstæður sem eru í húsnæðismálum. Viðbragðið sem sett var á stofn í vetur heldur ennþá. Allir sem að þessu koma eru að reyna að gera þetta eins vel og mögulegt er. Því við erum náttúrlega að tala um fólk. Það verður að vanda sig. Þeirra vegna.“