Stéttarfélagið Efling hyggst ekki styðja framhald dómsmála á hendur Eldum rétt og starfsmannaleigunni Mönnum í vinnu, en samkvæmt fréttatilkynningu frá Eflingu féllst Ábyrgðarsjóður launa á það í upphafi mánaðar að gangast í ábyrgð fyrir vangreiddar launagreiðslur til fjögurra rúmenskra fyrrverandi starfsmanna starfsmannaleigunnar.
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar telur að þetta sé óvænt vending í málinu. „Það er sannarlega ánægjulegt að Ábyrðarsjóður launa hafi á síðustu stundu stigið inn og viðurkennt réttmæti þeirra krafna sem launagreiðendur kusu að slást um við láglaunafólk fyrir dómi. Þannig er félagsmönnum okkar bættur skaði og því eru að okkar mati ekki sömu forsendur fyrir dómsmáli,“ er haft eftir Sólveigu Önnu.
Um er að ræða upphæðir á bilinu 120-195 þúsund í tilfelli hvers þeirra fjögurra félagsmanna Eflingar sem í hlut áttu. Hafa greiðslurnar verið lagðar inn á reikninga þeirra.
„Ágreiningur dómsmálsins laut einkum að því hvort Mönnum í vinnu hefði verið heimilt að draga að eigin ákvörðun ýmsa kostnaðarliði frá launum starfsmannanna og lýsa því þannig yfir að launin væru greidd með skuldajöfnun,“ er haft eftir Ragnari Aðalsteinssyni lögmanni Rúmenanna fjögurra í tilkynningu Eflingar.
„Verkalýðshreyfingin hefur lengi barist gegn einhliða frádrætti af verkalaunum og voru um það sett lög í byrjun síðustu aldar. Með þeirri ákvörðun Ábyrgðasjóðs launa að fallast á að greiða laun starfsmannanna án frádráttar stígur sjóðurinn mikilvægt skref í þá átt að vernda verkalaun starfsmanna gegn einhliða skuldajöfnuði atvinnurekandans,“ er enn fremur haft eftir Ragnari.
Eins og Kjarninn sagði frá í síðasta mánuði var kröfum rúmensku starfsmannanna á hendur starfsmannaleigunni vísað frá Héraðsdómi Reykjavíkur. Niðurstaða dómsins var á þá leið að þar sem gjaldþrotaskiptum á búi starfsmannaleigunnar hafi lokið 11. september 2020 yrði engum frekari kröfum komið fram gagnvart félaginu eftir það tímamark, að minnsta kosti ekki á meðan þess sé ekki krafist að skiptin yrðu endurupptekin.
Fram kom í dómnum að stefnendurnir hefðu ekki upplýst um afstöðu skiptastjóra til krafna þeirra í bú starfsmannaleigunnar, þrátt fyrir að skorað hafi verið á þá um að gera það. Einnig kom fram í niðurstöðu héraðsdóms að framburður starfsmannanna varðandi greiðslur til þeirra hefði verið ótrúverðugur og í andstöðu við gögn sem þeir hefðu sjálfir lagt fram í málinu. Þá hafi frádráttur af launum starfsmannanna verið í samræmi við ráðningarsamninga þeirra.
Eldum rétt var stefnt í málinu sem notendafyrirtæki starfsmannaleigunnar, en þetta var í fyrsta sinn sem látið hefur verið reyna á nýlegt ákvæði um keðjuábyrgð í lögum um starfsmannaleigur fyrir dómi. Þar sem kröfum starfsmannanna fjögurra á hendur starfsmannaleigunni var vísað frá dómi var málinu einnig vísað frá gagnvart Eldum rétt.
Sólveig Anna skorar á Eldum rétt
Eldum rétt, sem selur tilbúna matarskammta sem fólk getur eldað heima hjá sér, hefur lengi sagt að fyrirtækið hafi verið dregið inn í þetta dómsmál að ósekju. Fram kom eftir að dómur héraðsdóms féll að fyrirtækið skoðaði að leita réttar síns gagnvart stéttarfélaginu Eflingu vegna ummæla sem forsvarsmenn þess hafa látið falla á opinberum vettvangi.
Formaður Eflingar hefur hins talið að Eldum rétt eigi að taka ábyrgð á málinu. Í tilkynningu Eflingar er haft eftir henni að hún telji það miður „að þessi kostnaður lendi á skattgreiðendum“ og skorar hún á Eldum rétt um að „axla ábyrgð og endurgreiða Ábyrgðarsjóði þessar fjárhæðir.“
Fram kemur í tilkynningu Eflingar að stéttarfélagið og lögmannsstofan Réttur hafi stutt 20 félagsmenn Eflingar til að leggja fram kærur til Héraðssaksóknara í ágúst 2019 og apríl 2020 vegna grunaðra brota af hálfu Manna í vinnu. Rannsókn þessara mála er samkvæmt tilkynningu Eflingar enn yfirstandandi hjá Héraðssaksóknara.