„Má ekki ræða um orðsporið? Er það í alvöru þannig? Á ekki að fara fram neitt mat á því, eigum við ekki að velta því neitt fyrir okkur, þegar við erum að tala um traust og heilbrigði, heilbrigt eignarhald í lokuðu útboði þar sem menn eru handvaldir, hvert orðsporið er og hverjir það eru sem kaupa?“
Þetta sagði Sigmar Guðmundsson þingmaður Viðreisnar þegar hann beindi fyrirspurn sinni að Bjarna Benediktssyni fjármála- og efnahagsráðherra í þinginu í morgun. Mikill kurr hefur verið í þingmönnum stjórnarandstöðunnar síðan fjármála- og efnahagsráðuneytið birti lista yfir kaupendur í Íslandsbanka í gær.
Bjarni sagði meðal annars að það væri sjálfsagt að ræða hlutina. „Það er langbest að Ríkisendurskoðun fari yfir framkvæmdina í heild sinni, svari spurningum til dæmis um það hvort við höfum gerst sek um að handvelja við framkvæmd þessa útboðs einstaka fjárfesta.“
Sigmar sagði að þegar banki er seldur í eigu þjóðar sem er skaðbrennd eftir heilt bankahrun þá væri traust algjört lykilorð. „Allir hafa verið sammála um að markmiðið sé traust og heilbrigt eignarhald. Þetta hefur verið endurtekið aftur og aftur og aftur.“
Benti hann á að síðustu daga hefðu verið uppi miklar efasemdir um traustið vegna þess að Bankasýslan teldi að bankaleynd ætti að ríkja um kaupendur, að regluverkið væri þannig að brenndri þjóð sem selur bankann sinn kæmi það hreinlega ekki við hverjir kaupa. „Stjórnarformaður Bankasýslunnar fylgdi þessu svo eftir í viðtali og sagði að þetta mætti skoða í næsta útboði ef menn teldu mikilvægt að vita hver keypti hvað. Ég ætla að endurtaka orð Bankasýslunnar um þessa sölu á eign okkar allra í lokuðu útboði fyrir útvalda: Ef menn telja það mikilvægt að vita hver keypti hvað.“
Traustið hvarf með gegnsæinu
Spurði Sigmar hvernig það mætti vera að þetta viðhorf væri uppi innan Bankasýslunnar að loknu lokuðu útboði. „Af hverju bjó ríkisstjórnin ekki svo um hnútana í undirbúningi sölunnar að þegar Bankasýslan handvelur kaupendur þá sé það ófrávíkjanlegt skilyrði í útboðinu að þjóðin fái að vita um alla kaupendur? Fjármálaráðuneytið birti svo listann í gær, sem var mjög gott, en því miður fór það svo að birting listans í nafni gegnsæis, til að auka traust, varð til þess að traustið hvarf með gegnsæinu.
Hvernig í ósköpunum komast menn að þeirri niðurstöðu að það efli traust á fjármálakerfinu og áframhaldandi sölu fjármálastofnana þegar vænn hluti handvalinna kaupenda eru persónur og leikendur úr bankahruninu? Eigum við að fyllast trausti á heilbrigðu eignarhaldi þegar dæmi eru um handvalda kaupendur sem sæta rannsókn yfirvalda eða hafa jafnvel fengið dóm? Er sátt og traust vegna þeirrar staðreyndar að stórum útgerðaraðilum, sem berjast hart og af alefli gegn því að borga sanngjarnt og eðlilegt verð fyrir að veiða fiskinn sem þjóðin á, er boðið og þiggja með þökkum að fá nú að kaupa eign þjóðarinnar, nærri 2 milljarða, með afslætti? Getum við enn þá talað um traust og heilbrigt eignarhald eftir þessa atburðarás?“ spurði þingmaðurinn.
Ríkið sætti sig við að eignarhald gæti þróast með ýmsum hætti eftir að skráningu er lokið
Bjarni svaraði og sagði að með ákvörðun um að skrá bankann í kauphöll, setja hann á almennan markað, þá væri ríkið að taka meðvitaða ákvörðun um að sleppa hendinni af eignarhaldinu og sætta sig við að það gæti þróast með ýmsum hætti eftir að skráningu er lokið.
„Í útboðinu var mikilvægt að það væru til staðar almennar gegnsæjar reglur sem tryggðu að eitt gengi yfir alla. Spurt er: Er eignarhaldið á Íslandsbanka traust og heilbrigt? Tvímælalaust, ríkið með 42,5 prósent eignarhlut, lífeyrissjóðir, stórir alþjóðlegir og innlendir langtímafjárfestar næstir, fjöldinn allur af íslenskum almenningi og öðrum einkafjárfestum með smábrot af eigninni.
Þetta er nákvæmlega það sem er æskilegt, heilbrigt og eftirsóknarvert. Það sem við hefðum helst viljað. Svo geta menn farið í þann leik hér að fara að tína út einstaka aðila, eins og maður mátti svo sem vænta af Viðreisnarþingmanni að myndi gerast. Það má ekki vera útgerðaraðili, við erum á móti útgerðaraðilum, fjandinn hafi það, ekki leyfa þeim að fjárfesta í fjármálafyrirtækjum. Við skulum bara hafa í huga hér hina almennu reglu sem er þessi: Þegar menn vilja fara með virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki, sem sagt 10 prósent eða meira, þá þurfa menn að fara í gegnum nálarauga Fjármálaeftirlitsins. Þeir sem fara með smáhluti eða allt að 10 prósent þurfa ekki að uppfylla hin sérstöku skilyrði. Þeir eru eins og allir aðrir Íslendingar, að því gefnu að þeir séu hæfir í þessu útboði eða ef þeir vilja kaupa á markaði þá geta þeir það. Maður sem situr í fangelsi má kaupa hlutabréf,“ sagði Bjarni.
Spurði hann hvort Sigmar vildi hafa það einhvern veginn öðruvísi.
Eigum við ekki að ræða um heilbrigði og heilbrigt eignarhald?
Sigmar tók aftur til máls og sagði að orðið orðspor kæmi fyrir í öllum hugleiðingum um aðdraganda þessarar sölu.
„Má ekki ræða um orðsporið? Er það í alvöru þannig? Á ekki að fara fram neitt mat á því, eigum við ekki að velta því neitt fyrir okkur, þegar við erum að tala um traust og heilbrigði, heilbrigt eignarhald í lokuðu útboði þar sem menn eru handvaldir, hvert orðsporið er og hverjir það eru sem kaupa?“ spurði hann.
Varðandi það sem fjármálaráðherra kom inn á að það sem síðan ætti að gerast á eftirmarkaði þar sem ekki yrði veittur neinn afsláttur af eigum ríkisins í útboði af þessu tagi þá sagði Sigmar að allir sæju það í hendi sér að mikill munur væri á þessu tvennu.
„Og svo koma þessir orðaleppar sem hér eru nefndir aftur og aftur til að drepa málum á dreif. Það er ekki talað um afslátt. Stjórnarformaður Bankasýslunnar talar um frávik. Þetta er frávik en ekki afsláttur, eins og niðurstaðan, þegar verið er að selja eigur þjóðarinnar, sé ekki sú sama. Eigum við ekki að ræða um orðspor? Eigum við ekki að ræða um heilbrigði og heilbrigt eignarhald? Eigum við að gera greinarmun á lokuðu útboði þar sem menn eru handvaldir og því sem gerist síðan á eftirmarkaði? Þar er ríkið búið að sleppa höndunum. Það sleppir ekki í höndunum í útboðinu sjálfu.
Þessar skýringar hæstvirts fjármálaráðherra sem koma fram eftir að þessi makalaust listi er birtur – þar sem meira að segja framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar fær að kaupa fyrir rúma milljón með fráviki eða afslætti. Eigum við ekki að spyrja spurninga um þetta? Eigum við ekki að tala um að þetta sé eðlilegt eða óeðlilegt? Er það bannað?“ spurði hann.
Segir að enginn hafi verið handvalinn
Bjarni svaraði í annað sinn og sagði að það væri sjálfsagt að ræða þetta.
„Hver er að stoppa umræðuna? Það sem háttvirtur þingmaður gerir er að hann fellur á prófinu þegar hann segir handvaldir, þegar hann segir útvaldir. Það er þar sem hann fellur á prófinu og allt sem hann segir eftir það er ómarktækt vegna þess að hér var enginn handvalinn. Það sem var ákveðið að gera var að segja: Hæfir fjárfestar geta tekið þátt. Það er sala sem stendur yfir núna. Allir sem buðu gátu fengið að vera með eftir almennum reglum, enginn handvalinn, eingöngu þeir sem gáfu tilboð komu til greina og þeir þurftu að uppfylla skilyrði um verð og að vera hæfir fjárfestar. Þannig að hvar er handvalið, háttvirtur þingmaður?
Sá sem heldur þessu fram er að reyna að gera þetta tortryggilegt og þess vegna segi ég: Það er langbest að Ríkisendurskoðun fari yfir framkvæmdina í heild sinni, svari spurningum til dæmis um það hvort við höfum gerst sek um að handvelja við framkvæmd þessa útboðs einstaka fjárfesta. Kannski væri ágætt líka að Ríkisendurskoðun svaraði því hvort framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar sé nægilega góður einstaklingur til að fá að taka þátt eins og aðrir Íslendingar. En hann er sem sagt á lista Viðreisnar yfir fólk sem ekki mátti vera með,“ sagði Bjarni að lokum.