Eitt mál er varðar kynferðislegt áreiti hefur komið formlega inn á borð Körfuknattleikssambands Íslands (KKÍ) á síðustu 10 árum.
Þetta kemur fram í svari KKÍ við fyrirspurn Kjarnans. Málið var „tekið föstum tökum“, að því er fram kemur í svarinu.
„Mál koma formlega inn á borð til okkar með því að þolandi eða einstaklingur tengdur þolenda með beina vitneskju tilkynnir okkur um mál. Hvort sem er í beinu samtali, gegnum síma eða tölvupósti,“ segir í svarinu.
KKÍ hvetur þá sem telja á sér brotið að tilkynna slík mál
Samkvæmt KKÍ er sambandið með verkferla fyrir slík mál.
„Í stuttu máli er það þannig að ef upp kemur mál þá eru formaður og varaformaður fyrstu snertifletir. Málið er yfirfarið og tekin ákvörðun um hvort þurfi að tilkynna til lögreglu sem við teljum þann farveg sem svona alvarleg mál eigi að fara.
Í dag höfum við einnig samskiptaráðgjafa íþrótta-og æskulýðshreyfingarinnar sem á að fá öll mál til sín. En samt sem áður þurfum við að virða óskir þolenda ef þær eru aðrar en að kalla til lögreglu eða samskiptaráðgjafa. Þegar búið er að ná utan um málið er stjórn KKÍ upplýst og ítrekaður trúnaður sem ríkir um svona alvarleg mál. KKÍ hvetur þá sem telja á sér brotið að tilkynna um slík mál, öðruvísi er ekki hægt að taka á þeim,“ segir í svarinu.
Eitt mál til HSÍ
Mikil umfjöllun var í kringum Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) í sumar og haust vegna ásakana um kynferðislega áreitni og ofbeldi á hendur landsliðsmanna í fótbolta. KSÍ staðfesti við Kjarnann í september að ábending hefði borist sambandinu snemmsumars um yfir 10 ára gamalt mál er varðar alvarlegar ásakanir um kynferðisofbeldi tveggja landsliðsmanna gegn stúlku.Kjarninn spurði Handknattleikssamband Íslands (HSÍ) hvort mál hefðu borist á þeirra borð á síðustu árum og í svari sambandsins kom fram að eitt erindi er varðaði ótilhlýðilega háttsemi starfsmanns hafi verið skoðað og sé nú lokið.
Samkvæmt HSÍ kom eitt mál óbeint á þeirra borð fyrir þann tíma en það varðaði sjálfboðaliða hjá þeim „sem varð sekur um ótilhlýðilega framkomu vegna starfa hans í félagi“.