„Ég hef verið á móti kísilveri í Helguvík og sú afstaða hefur ekkert breyst,“ segir Guðbrandur Einarsson, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, um þau tíðindi frá eiganda verksmiðjunnar, Arion banka, að viðræður við áhugasama kaupendur standi yfir. „Það getur varla verið í samræmi við núverandi viðhorf í loftslagsmálum að fara að brenna kolum í Helguvík,“ segir Guðbrandur við Kjarnann og minnir á að íbúar í Reykjanesbæ séu einnig mótfallnir endurræsingu verksmiðjunnar. Um 350 athugasemdir frá einstaklingum bárust Skipulagsstofnun vegna frummatsskýrslu Stakksbergs í fyrra um fyrirhugaðar endurbætur, endurræsingu og margfalda stækkun kísilverksmiðjunnar í Helguvík. Allar voru þær frá fólki, flestu úr Reykjanesbæ, sem lagðist gegn því að kísilverið yrði endurræst.
Friðjón Einarsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í bæjarstjórn og formaður bæjarráðs, tekur undir með Guðbrandi og segir við Kjarnann að meirihluti bæjarstjórnar sé „alfarið á móti endurræsingu verksmiðjunnar. Öllum ætti að vera ljóst að okkar skoðun hefur ekkert breyst varðandi rekstur verksmiðjunnar“.
Líkt og Kjarninn greindi nýlega frá segja stjórnendur Arion banka jákvæðar breytingar á markaði fyrir kísil hafa leitt til þess að mikill áhugi hafi vaknað á eign á dótturfélagi bankans, Stakksbergi, en þar er um að ræða kísilverksmiðjuna í Helguvík sem áður var í eigu United Silicon.
Áfallasaga kísilversins í Helguvík hófst löngu áður en kynt var upp í ljósbogaofninum Ísabellu í fyrsta skipti. Ísabella var óstöðug allt frá upphafi og átti ítrekað eftir að hiksta og hósta með tilheyrandi mengun þar til yfir lauk. Það kom alvarlega niður á fólki sem bjó í nágrenninu sem og bæjarfélaginu er stólað hafði á tekjur frá fyrirtæki sem var orðið gjaldþrota rúmu ári eftir að fyrstu neistarnir voru bornir að Ísabellu.
Helsti lánardrottinn fyrirtækisins, Arion banki, fékk svo að finna fyrir því og endaði að lokum með verksmiðjuna í fanginu.
Rúmlega 10.500 tonn af kolum og tæplega 3.000 tonn af viðarkolum voru notuð á þeim tæplega tíu mánuðum sem kísilverksmiðja United Silicon í Helguvík starfaði með hléum á árunum 2016-2017. Þá voru 97,5 tonn af dísilolíu og bensíni notuð. Á þessum tíma var losun koltvísýrings frá jarðefnaeldsneyti 31.410 tonn og frá lífmassa 33.847 tonn – samtals um 65.257 tonn. Losuð voru 115 tonn af brennisteinsdíoxíði út í andrúmsloftið en vegna „tæknilegra örðugleika“ voru gögn úr mælibúnaði fyrir svifryk ekki talin áreiðanleg.
Brenna þarf þúsundum tonna af kolum
Samkvæmt fyrirætlunum Arion banka sem settar voru fram í frummatsskýrslu, á að bæta við þremur ljósbogaofnum og framleiða 100 þúsund tonn af kísli á ári. Til þess þarf 80.000 tonn af kolum, 8.000 tonn af viðarkolum og 90 þúsund tonn af viðarflís ásamt þúsundum kílóa af fleiri hráefnum.
Í síðasta birta árshlutareikningi Arion banka sagði að félagið væri á lokametrunum með nýtt umhverfismat á kísilverksmiðjunni. Áætlaður kostnaður við þær úrbætur sem átti að ráðast í á verksmiðjunni samkvæmt úrbótaáætlun Stakksbergs er um 4,5 milljarðar króna. Áætlanir um breytingar á verksmiðjunni eru sagðar vera á lokastigi samþykktar.
Þetta er töluverður viðsnúningur frá því sem fram kom á uppgjörsfundi Arion banka sem fram fór í febrúar síðastliðnum. Þar sagði Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, að þar sem bankinn bókfærði aðeins hrakvirði á verksmiðjuna væri það „vísbending um að litlar vonir séu um að verksmiðjan muni starfa aftur, áhugavert væri að sjá aðra og grænni starfsemi eiga sér stað þar í framtíðinni.”
Nýtt deiliskipulag er forsenda þess að enduruppbygging verksmiðjunnar geti átt sér stað og bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur vald til að hafna eða samþykkja tillögu að deiliskipulagi. Ákvörðun um hvort kísilmálmverið hefur starfsemi á ný er því pólitísk og ræðst í atkvæðagreiðslu kjörinna fulltrúa.
Kjarninn greindi frá því í september í fyrra að miðað við þau svör sem bárust frá bæjarfulltrúum í Reykjanesbæ um afstöðu þeirra til málsins sé ljóst að meirihluti núverandi bæjarstjórnar mun ekki gefa grænt ljós á það að kísilmálmverksmiðjan í Helguvík verði endurbætt, ræst að nýju og stækkuð líkt og Stakksberg fyrirhugar.
Vilja að verksmiðjan verði rifin eða starfsemi breytt
Forseti bæjarstjórnar segir við Kjarnann nú, í tilefni fregna af áhuga á kaupum á verksmiðjunni, að Reykjanesbær hafi ítrekað komið þeim sjónarmiðum aukins meirihluta bæjarstjórnar á framfæri við Arion banka að það sé enginn vilji fyrir endurræsingu kísilverksmiðjunnar í Helguvík. Stjórnvöld hafi einnig átt samráð við bankann um möguleika á annars konar nýtingu mannvirkja. „Það hefur hins vegar ekki skilað neinni niðurstöðu enn sem komið er,“ segir Guðbrandur.
Um þetta atriði segir Friðjón formaður bæjarráðs að fram hafi farið óformlegar viðræður við áhugasama aðila um niðurrif verksmiðjunnar og einnig við eigendur hennar. „Ekkert er ákveðið í þeim efnum að okkur vitandi en væntum viðbragða frá eigendum fljótlega.“