Hundruð manna stóðu í röðum fyrir utan bari á Englandi í gærkvöldi og biðu eftir því langþráða augnabliki að vertinn opnaði dyrnar og byði þeim að kaupa eins og eitt bjórglas eða tvö. Um leið og klukkan sló tólf á miðnætti varð þeim að ósk sinni. Nokkrar krár með leyfi til að selja áfengi allan sólarhringinn biðu ekki eftir því að birta tæki að degi heldur buðu þyrstum kúnnum að ganga í bæinn um leið og það mátti á ný. Krár hafa verið lokaðar í landinu frá því í janúar, í um fjóra mánuði, en á miðnætti voru gerðar ýmsar tilslakanir á Englandi. Krár mega nú hafa útisvæði sín opin og veitingastaðir sömuleiðis. Það sama mun gerast í Skotlandi þann 26. apríl en Wales á enn eftir að ákveða dagsetningu en þar voru þó gerðar minniháttar tilslakanir í dag. Á Norður-Írlandi hefur útgöngubanni verið aflétt og mega nú tíu koma saman utandyra.
„Ég vona að þetta sé nokkurs konar endurfæðing og að við getum haft opið um ófyrirséða framtíð,“ hefur BBC eftir Nicholas Hair, eiganda barsins Kentish Belle í London.
Þetta er ekki eina þjónustan sem er nú aftur í boði. Verslanir, hárgreiðslustofur, líkamsræktarstöðvar og sundlaugar hafa einnig verið opnaðar sem og dýragarðar og skemmtigarðar – svo lengi sem gestir geta notið þeirra utandyra. Ákveðnar fjöldatakmarkanir og fleira er enn í gildi en þetta eru vissulega gleðileg tímamót.
„Fólk ætti að njóta þessa nýfengna frelsis en að halda áfram vöku sinni og vera meðvitað um hættuna,“ segir Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. Johnson segir að um „óafturkræft“ skref í opnun landsins sé að ræða og að nú sé tækifærið til að gera aftur sumt af því sem „við elskum og höfum saknað“.
Dauðsföllum vegna COVID-19 hefur farið fækkandi dag frá degi undanfarið. Í gær létust sjö manns á Englandi sem greinst höfðu síðustu 28 daga, vegna sjúkdómsins. Ekki hafa orðið færri dauðsföll af völdum kórónuveirunnar á einum degi frá því um miðjan september. Í síðustu viku létust samtals 240 manns en til samanburðar létust 1.400 vikulega í janúar. Þá fækkar sjúkrahúsinnlögnum einnig.
Búið er að gefa rétt tæplega 40 milljónir skammta af bóluefni í Bretlandi. Þar af hafa um sjö milljónir manna fengið báða skammtana.
Margir þurfa enn að bíða
Næsta skref í afléttingum verður ekki tekið fyrr en 17. maí. Veitingastaðir og barir sem ekki eru með útisvæði verða ekki opnaðir fyrr en þá. Á það við um 60 prósent allra slíkra staða á Englandi. Á þeim stöðum þar sem útisvæði eru að finna verður nóg að gera á næstunni. Byrjað var að bóka þar borð með góðum fyrirvara er ljóst var hvenær fyrstu afléttingarnar yrðu.
Johnson brýndi fyrir fólki í dag að sýna áfram ítrustu varkárni og taka ábyrgð á eigin hegðun. Hann segist vonast til þess að aldrei aftur þurfi að stíga skref til baka og herða aðgerðir vegna kórónuveirunnar.