Forsætisráðuneytið telur sér ekki heimilt að afhenda fundargerðir ráðherranefndar um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins þar sem þær séu undanþegnar upplýsingarétti samkvæmt upplýsingalögum. Þar er vísað til greinar sem segir að réttur almennings til aðgangs að gögnum taki ekki til fundargerða ríkisráðs og ríkisstjórnar, minnisgreina á ráðherrafundum og gagna sem tekin hafa verið saman fyrir slíka fundi.
Þetta kemur fram í svari þess við fyrirspurn Kjarnans þar sem óskað var eftir afriti af öllum fundargerðum ráðherranefndar um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins þar sem fjallað er um sölu á hlutum íslenska ríkisins í Íslandsbanka frá því að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók við völdum síðla árs 2017 og fram til dagsins í dag.
Í svarinu sagðist ráðuneytið hins vegar vilja upplýsa að rætt var um sölumeðferð á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka á fjórum fundum ráðherranefndar um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins; 27. janúar 2021, 4. maí 2021, 4. febrúar 2022 og 1. apríl 2022.
Í fundargerðum þeirra funda er ekki að finna neina bókun um sérstaka afstöðu ráðherra til sölumeðferðarinnar.
Lilja sagði í Morgunblaðinu í dag að hún hefði ekki verið hlynnt þeirri aðferðafræði sem var beitt við sölu á 22,5 prósent hlut í Íslandsbanka 22. mars síðastliðinn. Hún hafi viljað almennt útboð, en ekki að bréfin yrðu seld til valins hóps fjárfesta. Lilja, sem er einn þriggja ráðherra ríkisstjórnar sem situr í ráðherranefnd um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins, segist hafa komið þeim sjónarmiðum sínum skýrt á framfæri í aðdraganda útboðsins. „Ég hef alltaf talið skynsamlegt að taka lítil og hægfara skref. Hafa vaðið fyrir neðan sig. Ekki einblína á verð, heldur gæði framtíðareigenda. Önnur leið var hins vegar valin og því miður er fátt sem kemur á óvart í þessu máli og hver útkoman varð.“
Katrín sagði í viðtali við vef Fréttablaðsins fyrr í dag að hvorki Lilja né nokkur annar ráðherra hafi óskað að færa neitt til bókar um söluferli á hlut Íslandsbanka þegar málið var rætt í ríkisstjórn og ráðherranefnd um efnahagsmál.
Salan tekin fyrir á fjórum fundum
Fyrst var sölumeðferðin til umfjöllunar á fundi ráðherranefndarinnar 27. janúar í fyrra þegar fjármála- og efnahagsráðherra lagði fram og kynnti minnisblað um ákvörðun um að hefja sölumeðferð á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka. Í svari forsætisráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans segir að í fundargerð þess fundar komi fram að málið hafi verið rætt í ráðherranefndinni.
Rúmum þremur mánuðum síðar, 4. maí 2021, lagði Bjarni svo fram og kynnti annað minnisblað um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka og glærur frá Bankasýslu ríkisins um sama efni. Í fundargerð ráðherranefndarinnar kemur fram að málið hafi verið rætt. Síðar í saman mánuði var ráðist í sölu á 35 prósent hlut í Íslandsbanka á 55,3 milljarða króna og bankinn í kjölfarið skráður á markað snemma í júní sama ár.
Sala á hlutum í bankanum var svo aftur til umræðu á fundi sem fór fram 4. febrúar síðastliðinn, fyrir rúmum tveimur mánuðum. Þar lagði Bjarni fram og kynnti lokadrög að skýrslu um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka. Í svari forsætisráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans segir: „Í óstaðfestri fundargerð kemur m.a. fram að málið hafi verið rætt í ráðherranefndinni og ákveðið hafi verið að leggja skýrsluna fyrir á næsta ríkisstjórnarfundi. Fjármála- og efnahagsráðherra lagði einnig fram og kynnti minnisblað um framhald á sölu eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka ásamt greinargerð. Málið var rætt og ákveðið að leggja það fyrir á næsta ríkisstjórnarfundi.“
22,5 prósent hlutur í Íslandsbanka var svo seldur í lokuðu útboði með tilboðsfyrirkomulagi þann 22. mars 2022 fyrir 52,65 milljarða króna. Verðið var 4,1 prósent undir markaðsvirði á þeim tíma sem þýðir að þeir 207 aðilar sem fengu að kaupa gerðu það á verði sem var 2,25 milljörðum krónum undir markaðsvirði þess tíma. Kostnaður við útboðið var um 700 milljónir króna.
Fyrir tíu dögum, þann 1. apríl, fundaði ráðherranefndin svo aftur. Þá hafði komið fram margháttuð gagnrýni á söluna í mars. Á þeim fundi kynntu fulltrúar Bankasýslu ríkisins glærur um sölumeðferðina 22. mars. „Í óstaðfestri fundargerð um málið kemur m.a. fram að málið hafi verið rætt og óskað eftir því að Bankasýslan birti upplýsingar um sölumeðferðina og kaupendur allra fyrst.“
Listi yfir kaupendur var svo birtur síðastliðinn miðvikudag eftir að Bjarni Benediktsson hafði lagt sjálfstætt mat á að hann ætti að birta. Það var gert í andstöðu við ráðleggingar Bankasýslu ríkisins sem hafði meðal annars fengið lögfræðiálit frá LOGOS um að það væri óvarlegt.
Í svari ráðuneytisins segir að Katrín Jakobsdóttir, Bjarni Benediktsson og Lilja Alfreðsdóttir, sem mynda ráðherranefndina, hafi setið alla ofangreinda fundi. Auk ráðherranna sátu fundina embættismenn og starfsfólk viðkomandi ráðuneyta og aðstoðarmenn ráðherra. Forstjóri og stjórnarformaður Bankasýslunnar voru gestir á fundunum 4. maí 2021 og 1. apríl 2022 en forstjóri Bankasýslunnar var þar að auki gestur á fundinum 4. febrúar 2022.