Ekki hafa borist formlegar ásakanir um kynferðislega áreitni/áreiti eða ofbeldi á síðustu fjórum árum innan skrifstofu borgarstjóra og borgarritara. Ekki er hægt vegna mannabreytinga sem hafa átt sér stað á þessu tímabili að staðfesta hvort óformlegar kvartanir hafi borist til yfirmanna.
Þetta kemur fram í svari Reykjavíkurborgar við fyrirspurn Kjarnans.
„Reykjavíkurborg leggur áherslu á starfsumhverfi þar sem gagnkvæm virðing, traust, heilindi og fagmannlegt viðmót eru í hávegum höfð í öllum samskiptum. Til að undirstrika þær áherslur hafa skýr stefna og verkferlar verið í gildi, einmitt til að koma í veg fyrir og uppræta háttsemi sem teljast megi, eða geti leitt af sér, einelti, áreitni eða ofbeldi. Vorið 2019 voru samþykkt í borgarráði ný stefna og verklag Reykjavíkurborgar gegn einelti, áreitni og ofbeldi meðal starfsfólks Reykjavíkurborgar, í kjölfar vinnu stýrihóps,“ segir í svarinu.
Þrenns konar viðbrögð
Kjarninn spurði hvaða verkferla Reykjavíkurborg væri með ef upp kæmu mál af þessu tagi. Í svarinu segir að kvartanir um einelti, áreitni eða ofbeldi geti leitt af sér þrenns konar viðbrögð af hálfu Reykjavíkurborgar.
Í fyrsta lagi sé um að ræða formlega meðhöndlun. „Formleg meðferð máls hefst eftir að skrifleg kvörtun berst um meint einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni eða ofbeldi. Í formlegri meðferð máls fer fram könnun á málsatvikum og niðurstaða er fengin um það hvort einelti, áreitni eða ofbeldi hafi átt sér stað. Í framhaldinu er gerð áætlun um næstu skref. Þessi könnun er framkvæmd af sérstökum eineltis- og áreitniteymum.“
Í öðru lagi geta mál farið í óformlegan feril. „Óformleg meðhöndlun máls er leið til að kanna mál óformlega, til dæmis áður en farið er í formlegan feril. Það er ákvörðun þess sem kvartar hvað hann vill gera eða að verði gert við mál sitt. Hann getur tekið ákvörðun um hvort hann vilji bíða og sjá hvernig mál þróast. Hann getur sjálfur rætt milliliðalaust við meintan geranda eða með aðstoð þriðja aðila. Allt þetta eru aðgerðir sem Reykjavíkurborg styður starfsfólkið við, meðal annars með milligöngu mannauðsráðgjafa sem starfa á öllum sviðum.“
Í þriðja og síðasta lagi eigi sér stað frumkvæðisathugun. „Þegar Reykjavíkurborg berast óformlegar eða nafnlausar ábendingar er í skoðað hvort grundvöllur sé fyrir að fara í svokallaða frumkvæðisathugun, en í því felst könnun á vinnuumhverfinu, hvort eitthvað þurfi að skoða í samskiptum, stjórnun og vinnustaðamenningu. Slík könnun er einnig kölluð sálfélagslegt áhættumat og byggist á vinnuverndarlöggjöf. Frumkvæðisathugun er í skylda vinnuveitanda þegar grunur er uppi um að sálfélagslegir þættir á vinnustaðnum séu að skapa hættu á einelti, áreitni eða ofbeldi. Frumkvæðisathugun er ekki einstaklingsmál heldur fyrirbyggjandi aðgerð og beinist að úrbótum til framtíðar,“ segir í svari Reykjavíkurborgar.