Kennarasambandi Íslands (KÍ) hafa ekki borist kvartanir um kynþáttafordóma sérstaklega og ekki er haldið utan um tölfræði varðandi kvartanir vegna fordóma í garð nemenda þar sem málefni kennara eru einkum á könnu stéttarfélagsins. Slíkar kvartanir gætu hafa borist til fræðsluyfirvalda sveitarfélaga og skólastjórnenda allra skólastiga.
Þetta kemur fram í svari jafnréttisnefndar Kennarasambands Íslands (KÍ) fyrir hönd sambandsins við fyrirspurn Kjarnans.
Þá segir í svarinu að samþætt verkáætlun vegna fordóma eða annars misréttis í skólum sé ekki til hjá KÍ „enda ekki hlutverk stéttarfélagsins að útbúa verkáætlun heldur sveitarfélaga og ríkis sem eru rekstraraðilar skóla“.
Reykjavíkurborg heldur ekki utan um tölurnar
Faðir barna sem orðið hafa fyrir fordómum í skóla gagnrýndi Reykjavíkurborg fyrir aðgerðaleysi í samtali við Kjarnann á dögunum. Hann telur að gera verði betur og móta betri stefnu hvað kynþáttafordóma varðar í skólum borgarinnar.
Kjarninn greindi frá því í vikunni að Reykjavíkurborg héldi ekki utan um tölur um kvartanir er varða kynþáttafordóma í skólum borgarinnar. Í svari Reykjavíkurborgar við fyrirspurn Kjarnans kom fram að engin samþætt verkáætlun væri til staðar hjá borginni til að takast á við kynþáttafordóma í skólum.
„Almennar reglur eru varðandi einelti og ofbeldishegðun. Í vetur var samþykkt að setja á stofn starfshóp til að vinna að aðgerðaáætlun og verklagi til að bregðast við rasískum ummælum, skrifum og/eða hegðun hjá börnum og starfsfólki í skóla- og frístundastarfi. Aðgerðaáætlunin verði nýtt þegar rasísk atvik eiga sér stað í skólaumhverfinu og verði jafnframt vegvísir fyrir þá fræðslu og símenntun sem þarf að eiga sér stað innan skólasamfélagsins. Þessi starfshópur hefur vinnu sína síðla sumars 2022 og er að vænta niðurstaða í byrjun haustannar,“ sagði í svarinu.
Illa gengið að knýja á um breytingar í kennaramenntun og starfsþróun kennara
Í svari jafnréttisnefndar KÍ segir að allt frá árinu 2012 hafi nefndin skorað á stjórnendur skólasamfélagsins alls að kenna jafnréttis- og kynjafræði.
„Illa hefur gengið að knýja á um breytingar í kennaramenntun og starfsþróun kennara en ör þróun samfélagsins, vaxandi fordómar og slaufunarmenning kallar á að nú verði gerðar löngu þarfar breytingar. Þess ber að geta að á menntavísindasviði starfa öflugir kennarar sem leggja áherslu á að kennaranemar fái kennslu um jafnréttismál. Á framhaldsskólastigi eru þrír skólar með jafnréttis- og kynjafræði sem skyldufag en flestir bjóða upp á það sem valfag. Á leik- og grunnskólastigi hefur innleiðingin gengið hægar. Eins og gengur er mismikill áhugi á jafnréttismálum í skólum. Stjórnvöld hafa ekki sett innleiðingu jafnréttis í skólakerfinu á dagskrá þrátt fyrir að nefndin hafi ítrekað vakið athygli á mikilvægi þess.“
Fram kemur hjá jafnréttisnefnd KÍ að alla tíð hafi sýn nefndarinnar verið sú að jafnrétti verði ekki náð í samfélaginu án markvissrar og kerfisbundinnar aðkomu skólakerfisins. Alls staðar þar sem jafnréttismál ber á góma séu þátttakendur sammála um mikilvægi þess að jafnréttisvæða skólakerfið í heild sinni þannig að kennarar séu færir um að sinna grunnþættinum jafnrétti sem á að vera rauður þráður í öllu skólastarfi frá leikskóla og upp í háskóla.
Ætti að vera eðlilegur hluti alls skólahalds að uppræta misrétti og fordóma
Þá segir í svarinu að mikilvægt sé að allir kennarar séu í stakk búnir að grípa inn í aðstæður sem upp koma í skólastarfi, uppræta hverskyns misrétti og fordóma og sinna forvörnum þar sem í skólum fyrirfinnast fordómar, áreitni og ofbeldi rétt eins og í samfélaginu öllu.
„Við eigum ekki að sætta okkur við að skólar fái aðkeypta sérfræðinga einu sinni á ári til að sinna því sem ætti að vera eðlilegur hluti alls skólahalds og í verkahring kennara. Við eigum að knýja á um jafnréttisvæðingu skólakerfisins því það myndi bæta lífsgæði okkar allra.
Frá árinu 2013 hefur skólakerfið stuðst við sex grunnþætti menntunar og er einn þeirra jafnrétti sem á sem fyrr segir að vera rauður þráður allrar menntunar barnanna okkar. Allt frá því að jafnréttislög voru sett árið 1974 hefur verið grein um jafnréttisfræðslu í skólum en sú grein sem er nr. 15. Í jafnréttislögum frá árinu 2020 er enn skýrari en þar kemur fram að „ [á] öllum skólastigum skulu nemendur hljóta jafnréttis- og kynjafræðslu við hæfi þar sem m.a. er kennt um kynjaðar staðalímyndir, kynbundið náms- og starfsval og málefni fatlaðs fólks og hinsegin fólks.“ Hluti þessarar fræðslu á að vera um fordóma enda nær jafnréttis og kynjafræðsla utan um alla flokka jafnréttis ekki aðeins þá sem nefndir eru í lögum.“
Varðandi það sem framundan er hjá KÍ þá hefur jafnréttisnefnd í hyggju að leggja endurskoðaða jafnréttisstefnu og -áætlun fyrir þing KÍ hvar fordómum verður gert hærra undir höfði en verið hefur. „Einnig vill jafnréttisnefnd að á vegum KÍ og/eða sveitarfélaga verði jafnréttisráðgjafi sem fari í skóla, starfi með kennurum og nemendum og uppræti erfið mál og mun nefndin leggja til ályktun um slíkan ráðgjafa á næsta þingi KÍ sem verður 1.-4. nóvember 2022,“ segir að lokum í svarinu.