Á hádegi í dag voru þrír sjúklingar inniliggjandi á legudeildum Landspítalans með COVID-19. 705 eru í eftirliti á COVID-göngudeildinni, þar af 74 börn. Enginn er „á rauðu“, segir í tilkynningu frá farsóttarnefnd spítalans en sá litur er notaður yfir þá sem eru með alvarleg einkenni og gætu þurft á innlögn að halda innan skamms. Hins vegar eru 22 einstaklingar flokkaðir „gulir“.
Fjórtán starfsmenn spítalans eru í einangrun. Þrjátíu starfsmenn eru í sóttkví A og 149 í vinnusóttkví.
Farsóttarnefndin áréttar, í sambandi við sitt litakóðunarkerfi á veikindum sjúklinga að það að einstaklingur sé á grænu þýðir ekki sjálfkrafa að hann sé einkennalaus. Hann getur verið með ýmis einkenni en vegna aldurs, fyrra heilsufars, áhættuþátta o.s.frv. getur hann flokkast grænn með litla, meðal, eða mikla áhættu á að þróa frekari veikindi.
Á sama hátt eru þeir sem flokkast „gulir“ einnig með mismikil einkenni og eftirlit þeirra stýrist af áhættumati og líkum á frekari veikindum. Þeir sem eru „rauðir“ eru með mikil einkenni og eru í mestri áhættu að verða alvarlega veikir og þarfnast innlagnar. Þessi aðferð við að flokka sjúklinga og veita þeim eftirlit við hæfi hefur reynst afar vel á göngudeildinni frá byrjun og er t.d. vegvísir um hvenær skal kalla viðkomandi inn til skoðunar og meðferðar í göngudeild og hversu títt þarf að hringja í hann og meta ástandið. „Það gefur því ekki rétta mynd af ástandinu að horfa einungis á fjölda einstaklinga með ákveðna litakóðun heldur eru fleiri breytur sem hjálpa fagfólkinu að skipuleggja eftirlitið og forgangsraða með öryggi sjúklinga að leiðarljósi,“ segir í áréttingu farsóttarnefndarinnar.
Hátt í hundrað smit á einum degi
Að minnsta kosti 96 smit af kórónuveirunni greindust innanlands í gær. Fyrir hádegi í dag var enn verið að greina sýni en yfir 4.000 slík voru tekin í gær. Flestir þeirra sem greindust í gær eða yfir 70 prósent, voru utan sóttkvíar og meirihluti þeirra var bólusettur eins og verið hefur síðustu daga.
Að minnsta kosti 141 óbólusettur einstaklingur hefur greinst með veiruna innanlands síðustu átta daga.
Alma Möller landlæknir sagði á upplýsingafundi í morgun að bólusetning dragi „sem betur fer“ mikið úr veikindum hjá fólki, ekki síst alvarlegum. Hún sagði aðgerðir innanlands nú gerðar vegna óvissunnar um virkni bóluefna sem nú væri uppi.