Samherji Holding ehf., sá hluti samstæðu Samherja sem heldur utan um erlenda starfsemi, hefur ekki skilað inn ársreikningi fyrir árið 2019 þrátt fyrir að tæpir átta mánuðir séu síðan að lögbundinn frestur til að skila slíkum inn til ársreikningaskrár rann út. Samkvæmt lögum eiga öll félög að skila inn ársreikningum fyrir 31. ágúst á hverju ári.
Hinn hluti samstæðunnar, Samherji hf. sem heldur utan um starfsemi fyrirtækisins á Íslandi og í Færeyjum, skilaði sínum ársreikningi í byrjun október í fyrra. Sá hluti átti eigið fé upp á 63 milljarða króna.
Samherji Holding átti eigið fé upp á rúma 58 milljarða króna á núvirði í lok árs 2018, síðasta ársins sem félagið hefur skilað ársreikningi fyrir.
Samanlagt eigið fé Samherjasamstæðunnar, sem er í eigu tveggja fjölskyldna að nær öllu leyti, er því að minnsta kosti um 120 milljarðar króna, og líkast til meira.
Sé ársreikningi ekki skilað á að sekta félög vegna vanskila á ársreikningi til ársreikningaskrár.
Verður skilað þegar hann er tilbúinn
Kjarninn spurðist fyrir um ástæður þess að tafir höfðu verið að skilum á ársreikningi Samherja Holding hjá félaginu í byrjun árs. Sú fyrirspurn var send á Margréti Ólafsdóttur, aðstoðarkonu forstjóra félagsins, og Björgólf Jóhannsson, sem þá var annar forstjóra þess ásamt Þorsteini Má Baldvinssyni. Björgólfur lét af störfum sem forstjóri í febrúarmánuði og hefur Þorsteinn Már haldið einn um forstjórataumanna síðan þá, líkt og hann gerði áður en Björgólfur kom til starfa síðla árs 2019.
Í svari Samherja, sem barst 7, janúar 2021, sagði að enn væri unnið að gerð ársreiknings fyrir Samherja Holding, og að sú vinna hefði tafist af ýmsum ástæðum. „Það eru ákveðnar og skýrar reglur um það þegar ársreikningum er ekki skilað á tilætluðum tíma. Frestur á skilum ársreikninga hlutafélaga var framlengdur til byrjun október 2020 fyrir öll hlutafélög. Ársreikningi 2019 fyrir Samherja Holding ehf. verður skilað þegar hann er tilbúinn, sem verður innan ekki langs tíma.“
Samherji Holding er að uppistöðu í eigu Þorsteins Más, Helgu S. Guðmundsdóttur fyrrverandi eiginkonu hans, og Kristjáns Vilhelmssonar. Inni í þeim hluta starfseminnar erueignarhlutir Samherja í dótturfélögum í Þýskalandi, Noregi, Bretlandi og í fjárfestingafélagi á Íslandi. Þar eru þó einnig íslenskir hagsmunir, meðal annars 27,36 prósent hlutur í Eimskip. Í byrjun árs 2021 var greint frá því að Baldvin Þorsteinsson, sonur Þorsteins Más, hafi verið falið að leiða útgerðarstarfsemi Samherja í Evrópu, sem fer fram í gegnum Samherja Holding.
Inni í þeim hluta er líka fjárfestingafélagið Sæból, sem hét áður Polar Seafood. Það félag á tvö dótturfélög, Esju Shipping Ltd. og Esju Seafood Ltd. sem bæði eru með heimilisfesti á Kýpur. Þau félög héldu meðal annars utan um veiðar Samherja í Namibíu, þar sem samstæðan og stjórnendur hennar eru nú grunaðir um að hafa greitt mútur til að komast yfir ódýran kvóta.
Saksóknari með gögnin frá KPMG
KPMG var endurskoðandi Samherja Holding árum saman, og raunar Samherjasamstæðunnar allrar. Í fyrrahaust var greint frá því að Samherji hefði ákveðið að skipta um endurskoðunarfyrirtæki og fara með viðskipti sín til BDO ehf., lítt þekkts endurskoðunarfyrirtækis. Stundin fjallaði um þessi vistaskipti í lok október og byrjun nóvember í fyrra.
Kjarninn greindi frá því í byrjun febrúar 2021 að KPMG hafi verið gert að láta embætti héraðssaksóknara í té upplýsingar og gögn varðandi bókhald og reikningsskil allra félaga Samherjasamstæðunnar á árunum 2011 til 2020. Einnig þarf fyrirtækið að láta héraðssaksóknara hafa upplýsingar og gögn sem varða eina tiltekna skýrslu sem KPMG vann um starfsemi Samherja á árunum 2013 og 2014.
Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp úrskurð sinn um þetta í byrjun desember. Dómurinn féllst á kröfur héraðssaksóknara um að KPMG yrði skyldað til að láta gögnin af hendi og núverandi og fyrrverandi starfsmönnum félagsins yrði sömuleiðis gert skylt að veita embættinu þær upplýsingar sem þeir búa yfir.
Stjórnendur Samherja voru ekki ánægðir með þessa niðurstöðu og sögðu vinnubrögð saksóknara og héraðsdómara í málinu vera „ótrúleg“.
Fyrirtækið sagði í yfirlýsingu að með úrskurðinum hafi ekki einungis lögbundinni þagnarskyldu verið aflétt af endurskoðendum KPMG, heldur einnig rofinn trúnaður lögmanna, enda hafi gögn sem embætti héraðssaksóknara fékk með úrskurðinum verið „í vörslum bæði endurskoðenda og lögmanna hjá KPMG og dótturfélögum.“
Í kjölfarið kærði KPMG, dótturfélag þess og endurskoðandi Samherja sem starfar hjá KPMG úrskurðinn til Landsréttar sem féllst á aðfinnslur þeirra í febrúar síðastliðnum, ógilti úrskurðinn og vísaði málinu aftur heim í hérað.
Í mars kvað héraðsdómari upp nýjan úrskurð þar sem gagnaöflunin var sögð lögmæt. Samherji reyndi á að fara fram á að gögnunum yrði eytt en því máli var vísað frá fyrr í þessum mánuði vegna aðildarskorts, enda Samherji ekki eigandi gagnanna heldur KPMG.