Greindum tilfellum COVID-19 fjölgaði um 360 prósent í Ísrael á einni viku og alvarlega veikum af völdum veirunnar hefur fjölgað stöðugt en þó ekki mjög hratt, í hálfan mánuð. Í gær lágu 110 sjúklingar á spítölum. Dauðsföllum hefur hins vegar ekki fjölgað með sama hraða og í fyrri smitbylgjum sem styður enn frekar þær vísbendingar að ómíkron sé ekki jafn mikil ógn við líf fólks þrátt fyrir að vera mun meira smitandi en delta-afbrigðið.
Opna fyrir ferðamenn
Stjórnvöld í landinu gripu til mjög harðra aðgerða er ómíkron-afbrigðið uppgötvaðist í nóvember og stöðvuðu ferðalög til landsins. Það hægði verulega á útbreiðslunni miðað við þróunina í t.d. Evrópuríkjum en fimmta bylgja faraldursins, sem nú er hafin, er engu að síður skollin á og er að miklu leyti vegna ómíkron.
Nú stendur til að draga úr ferðatakmörkunum bólusettra og ferðamönnum frá ákveðnum löndum verður leyft að koma til Ísrael frá og með 9. janúar. Þeir verða að sýna neikvætt PCR-próf við komuna og einnig fara í eitt slíkt próf við upphaf dvalar sinnar.
Ísraelar hafa reynt að halda grunnskólum sínum opnum en nú er ósætti komið upp um framhaldið milli heilbrigðisráðherrans og menntamálaráðherrans. Gildistími áætlunar sem kallast „græna kennslustofan“ er útrunninn en hún fól í sér að nemendur og kennarar frá svæðum þar sem smit er takmarkað gátu mætt í skólann, þrátt fyrir að vera í sóttkví, svo lengi sem þeir framvísaðu neikvæðu COVID-prófi. Foreldrar og nemendur eru sagðir ráðvilltir og ekki vissir hvort kennt verði í skólum næstu daga eða hvort fjarnám verði tekið upp. Tæplega 90 þúsund nemendur eru í sóttkví eða einangrun í Ísrael og vel fyri 4.000 starfsmenn skólanna.
Nokkrir háskólar ákváðu í gær, er smitfjöldinn rauk upp úr öllu valdi miðað við vikuna á undan, að taka upp fjarnám eftir helgi.
Ísraelar byrjuðu bratt í bólusetningum meðal fyrstu þjóða í byrjun árs eftir að hafa gert samning við Pfizer um afhendingu bóluefnis. Enn eru aðeins um 60 prósent íbúa landsins skilgreind sem fullbólusett jafnvel þótt bólusetningar hafi boðist börnum niður í fimm ára aldur frá því í nóvember. Fullbólusettir eru þeir sem nýverið hafa fengið annan skammt bóluefnis eða þegið örvunarbólusetningu, þ.e.a.s. þriðja skammtinn. Ísraelar eru um 9,3 milljónir. 4,1 milljón hefur fengið örvunarskammt sem þýðir að hundruð þúsunda manna hafa ekki þegið hann.
Sá fjórði
Naftali Bennett, forsætisráðherra Ísrael, hvatti á sunnudag alla eldri landa sína til þiggja fjórða skammt bóluefnis. Stjórnvöld hafa samþykkt að allir sem eru 60 ára eða eldri sem og allt heilbrigðisstarfsfólk, geti fengið slíkan örvunarskammt.
Líkt og víðar um heiminn er ásókn í skimun vegna kórónuveirunnar gríðarleg í Ísrael. Vísindamenn telja að senn líði að því að um 50 þúsund manns smitist af veirunni daglega. Stjórnvöld skoða nú forgangsröðun í skimanir enda langar bílalestir myndast síðustu daga við sýnatökustaði.
Hjarðónæmi eða ekki
Heilbrigðisráðherrann Nachman Ash sagði nýverið að Ísrael gæti náð hjarðónæmi með útbreiðslu ómíkron-afbrigðisins sem talið er valda mildari sjúkdómseinkennum, sérstaklega hjá þríbólusettum. Er hann bjartsýnn á að lyf lyfjafyrirtækisins Merck & Co's, sem gefið er sjúklingum við upphaf veikinda, eigi eftir að gagnast vel í baráttunni. Lyfið fékk nýverið markaðsleyfi í landinu og má gefa öllum átján ára og eldri.
Salman Zarka, sem fer fyrir COVID-viðbragðsteymi heilbrigðisráðuneytisins, segir aftur á móti of snemmt að tala um hjarðónæmi og hvenær og hvort það náist. Hann segir reynslu síðustu tveggja ára sýna að þeir sem hafi smitast af veirunni og náð sér geti smitast aftur. Ný afbrigði, töluvert frábrugðin þeim sem á undan hafa komið, hafa allan faraldurinn verið að skjóta upp kollinum. Ómíkron, hið bráðsmitandi afbrigði sem fyrst uppgötvaðist í sunnanverðri Afríku í lok nóvember, virðist frekar valda einkennum í hálsi en lungum líkt og fyrstu afbrigðin gerðu. Eiginleikar þess eru því á margan hátt frábrugðnir þeim.
Vísindamenn um allan heim fara enn varlega í að lýsa yfir vissu um að ómíkron sé meinlausari veira en þær fyrri. Það er ekki síst gert í ljósi þess að þrátt fyrir að það valdi vægari sjúkdómseinkennum, smitist það svo hratt að hlutfallslega margir sýkjast, þar á meðal óbólusettir, fólk með undirliggjandi sjúkdóma og aldraðir sem er hættara við alvarlegum veikindum.