Ísland heldur græna litnum á nýuppfærðu korti Sóttvarnastofnunar Evrópu, ECDC, um þróun kórónuveirufaraldursins í álfunni. Til þess að fá grænan lit á kortinu þarf 14 daga nýgengi smita að vera innan við 50 samhliða því að hlutfall jákvæðra sýna er innan við fjögur prósent. Sé hlutfall jákvæðra sýna hins vegar innan við eitt prósent er nóg að 14 daga nýgengi smita sé innan við 75 til þess að fá grænan lit á korti ECDC.
Skandinavía, Þýskaland sem og lönd austar í álfunni eru að mestu eða öllu leyti græn. Staðan er verst í Hollandi, sem er að stórum hluta dökkrautt, og á Íberíuskaga en Portúgal fær rauðan lit og hluti Spánar dökkrauðan. Þá er Kýpur einnig dökkrautt á kortinu en Írland rautt. Á þeim svæðum sem eru dökkrauð er 14 daga nýgengi smita meira en 500.
Ef kortið er borið saman við kort síðustu viku má helst merkja breytingar til hins verra. Írland var til að mynda gult en er nú rautt, Frakkland var að mestu leyti grænt en er nú gult. Í síðustu viku var litur Hollands á kortinu rauður en á nýjasta kortinu er Holland að megningu til dökkrautt.
Nýgengið á hraðri uppleið
Samvkæmt upplýsingum á covid.is er 14 daga nýgengi innanlands komið upp í 63,5 á hverja 100 þúsund íbúa og hefur hækkað mjög skart á síðustu viku. Nýgengi á landamærunum stendur í rúmlega 16. Frá mánaðamótum hafa fullbólusettir ekki þurft að fara í skimun við komuna til landsins en breyting á því fyrirkomulagi er í vændum. Frá og með þriðjudegi þurfa allir sem koma til landsins að skila neikvæðu PCR-prófi eða hraðprófi sem er innan við 72 klukkustunda gamalt fyrir brottför. Enn munu óbólusettir þurfa að fara í tvær skimanir við komuna til landsins með fimm daga sóttkví á milli.
Þórólfur Guðnason greindi frá því á upplýsingafundi fyrr í dag að hann hefði nú þegar skrifað minnisblað til heilbrigðisráðherra þar sem hann leggur til að teknar verði upp takmarkanir innanlands á ný, svo „hefta megi veiruna og koma í veg fyrir alvarlegar afleiðingar hennar“.
Í gær greindust 78 manns með COVID-19 innanlands sem er mesti fjöldi smita sem greinst hefur það sem af er ári. Daginn þar áður greindust 56 sem var mesti fjöldi sem greinst hafði á einum degi frá því í október í fyrra.