Evrópusambandið hefur dregist verulega aftur úr bæði Kína og Bandaríkjunum þegar kemur að því að gefa bóluefnaskammta til fátækari ríkja. Í skjölum sem fjölmiðillinn Politico hefur undir höndum kemur fram að sambandið hafi aðeins gefið 7,9 milljónir skammta, 4 prósent af þeim 200 milljónum sem aðildarríkin hétu að veita fátækari ríkjum heimsins. Á sama tíma hafa Bandaríkin gefið 59,8 milljónir skammta og Kínverjar 24,2 milljónir. Skjalið sem Politico vitnar í er vinnuskjal leiðtogaráðs Evrópu (European Council) og er dagsett 2. ágúst.
Í skjalinu eru teknir saman kaupsamningar á bóluefnum og samningar um gjafir en einnig útlistuð þau svæði sem mikilvæg eru fyrir ESB í pólitísku ljósi í þeim efnum.
Í aðildarríkjum ESB búa 365 milljónir fullorðinna einstaklinga. Löndin hafa samanlagt tryggt sér um 500 milljónir skammta af bóluefnum frá lyfjaframleiðendum og á von á að þeir verði orðnir um milljarður í lok september, segir í nýlegri frétt Reuters-fréttastofunnar um sama mál.
Þegar kemur að útflutningi bóluefna stendur ESB framar flestum og hefur flutt yfir 500 milljónir skammta til 51 lands, en aðallega ríkari landa heims. Einnig er tekið fram í skjalinu að sambandið hafi heitið 3,4 milljörðum evra í COVAX-samstarfið (um 500 milljörðum íslenskra króna), alþjóðlegt samstarf sem á að tryggja fátækustu ríkjum heims bóluefni.
Kínverjar hafa tryggt sér kaup á 1 milljarði skammta af bóluefnum og hafa selt yfir 390 milljónir þeirra til 94 landa. Gjafaskammtarnir (rúmlega 24 milljónir) eru því aðeins brot af heildinni.
Af þeim tæplega 60 milljónum skömmtum sem Bandaríkin hafa gefið til þessa hafa 37 milljónir farið inn í COVAX-samstarfið. Auk þess hafa bandarísk stjórnvöld þegar lagt til um 4 milljarða dollara (490 milljarða króna) til samstarfsins, segir í fréttaskýringu Politico um málið. Þar kemur einnig fram að í næstu viku standi til að gefa 20 milljónir skammta til viðbótar og að í heild verði þeir orðnir 500 milljónir fyrir lok næsta árs.
Byrjað að örva borgara ríkari landa
Í mörgum Afríkuríkjum hefur aðeins í kringum 1 prósent íbúanna verið bólusettur. Á sama tíma eru mörg ríkari lönd, m.a. Sameinuðu arabísku furstadæmin, Þýskaland, Bretland, Ísrael og Ísland að byrja að gefa fullbólusettu fólki örvunarskammta.
Sérfræðingar Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar telja enn ekki nægjanleg gögn til staðar til að mæla með örvunarskömmtum.
„Ætlum við virkilega að sætta okkur við 1,5 prósent bólusetningarhlutfall í Afríku á meðan það er þegar orðið 70 prósent í sumum löndum?“ spurði Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri WHO á fundi fyrir síðustu helgi. Í dag biðlaði hann svo til auðugari ríkja um að bíða með að gefa örvunarskammta bóluefnis þar til í lok september.
WHO stefnir enn að því markmiði að hvert ríki heims verði búið að bólusetja að minnsta kosti 10 prósent íbúa sinna fyrir lok september. „Við erum langan veg frá því að ná þessum markmiðum,“ sagði Ghebreyesus og að dreifing bóluefna væri enn óréttlát. Innan við tvö prósent af öllum skömmtum sem hefur verið dreift í heiminum hafa farið til Afríku. „Það ætti að vera ör á samvisku okkar allra,“ sagði Bruce Aylward, læknir, faraldsfræðingur og einn helsti ráðgjafi forstjóra WHO á fundinum í síðustu viku.
Nóg til
Aðeins þrjú ríki heims hafa bólusett yfir 70 prósent íbúa. Ísland er eitt þeirra.
Nóg af bóluefni er á Íslandi til að gefa þeim 50 þúsund einstaklingum sem fengu Janssen-bóluefnið örvunarskammt, segir í frétt mbl.is í dag. Þar er haft eftir Distica, fyrirtækinu sem sér um dreifingu og geymslu bóluefna hér á landi, að birgðir Íslands séu drjúgar. Á lager eru til 75.000 skammtar af Pfizer, 7.400 skammtar af Moderna, 7.200 skammtar af Janssen og 5.500 skammtar af AstraZenica. Þetta eru í heild 95.100 skammar.
Þá er einnig umtalsvert magn af bóluefni væntanlegt á næstu vikum; um 33.000 skammtar af Pfizer og um 96.000 skammtar af Moderna. Það gera því samtals 129.000 skammta til viðbótar þeim birgðum sem þegar eru til.
Kjarninn hefur beint fyrirspurn bæði til heilbrigðisráðuneytis og forsætisráðuneytis um hvort og þá hversu margir bóluefnaskammtar hafi verið gefnir til fátækari ríkja. Engin svör hafa enn borist.