Rússneskar hersveitir eru sagðar hafa vísvitandi látið stórskotahríð dynja á Zaporizhzhia-kjarnorkuverinu í Úkraínu í nótt. Eldur kviknaði í rannsóknarstofu sem og byggingu við kjarnorkuverið sem notuð er til þjálfunar starfsfólks, og logaði hann klukkustundum saman áður en tókst að slökkva hann.
Þó tekist hafi að ráða niðurlögum eldsins og að kjarnaofnar versins séu ekki taldir í hættu er málið litið mjög alvarlegum augum. Um að ræða fyrsta atvikið þar sem ráðist hefur verið á kjarnorkuver í stríði með þessum hætti samkvæmt Volodímír Zelenskí, forseta Úkraínu, sem sakar Rússa um kjarnorkuhryðjuverk.
Starfsfólk kjarnorkuversins er enn að störfum og gætir öryggis þess. Aukin geislavirkni hefur ekki mælst í nágrenni versins enn sem komið er, en búið er að skrúfa niður í starfsemi kjarnakljúfa versins og getur það leitt til þess að talsverð geislavirkni leki út í umhverfið, að því er fram kemur í umfjöllun Guardian. Sé ekki vel að gætt gæti orðið kjarnorkuslys á stærð við það sem gerðist í Tsjernóbil, ef ekki stærra.
Framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, Jens Stoltenberg, hefur fordæmt kæruleysi Rússa í árásinni og krefst þess að þeir leggi niður vopn.
Þá hefur Boris Johnsson, forsætisráðherra Bretlands, kallað eftir neyðarfundi í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna vegna málsins, en í tilkynningu frá skrifstofu forsætisráðherrans sakar hann Vladimír Pútín Rússlandsforseta um að stofna allri Evrópu í hættu með árásinni á kjarnorkuverið.