Samfélagsmiðlarisinn Facebook ætlar að byggja gagnaver í Fort Worth í Texas sem verður eingöngu knúið með endurnýjanlegri orku. Til þess fjárfestir fyrirtækið 500 milljónum bandaríkjadala eða um 67 milljörðum íslenskra króna.
Áætlanir gera ráð fyrir að gagnaverið verði tilbúið til notkunar seint á næsta ári en fyrir rekur Facebook fimm álíka gagnaver í Iowa, Oregon, Norður-Karólínu og Luleå í Svíþjóð. Til að spara orku verður vélbúnaður þessa gagnavers ekki kældur með rafknúnum viftum heldur með náttúrulegum vindum. Slíkt hóf Facebook að gera í Oregon með góðum árangri.
Á fréttabloggi Facebook segir Tom Furlong, yfirmaður innviða fyrirtækisins að þetta verði eitt þróaðasta, afkastamesta og umhverfisvænasta gagnaver í heiminum. „Þróun okkar á gagnaverunum er mikilvægur hluti af því að auka hagkvæmni innviða fyrirtækisins og hefur þegar sparað okkur meira en tvo milljarða dollara í kostnað síðustu þjú ár.“
Vindorka verður beisluð til að knýja gagnaverið en 200 megavatta vindorkuver hefur verið reist til að anna orkueftirspurn nýja gagnaversins. „Kolefnaspor hvers notanda á ári á Facebook er nú jafn mikið og af meðalstórum bolla af latté,“ segir Furlong enn fremur í bloggi sínu.
Stórfyrirtæki í tölvuiðnaði keppast nú við að reisa gagnaver víðsvegar um heiminn. Fyrr á þessu ári bárust fregnir þess efnis að tölvurisinn Apple hafi þreifað fyrir möguleika á að reisa gagnaver hér á landi. Verið reisti Apple að lokum í Danmörku.
Á vef íslenskrar verkfræðistofu er bent á hagkvæmnimöguleika þess að reisa gagnaver á Íslandi. Hér eru góðir kælimöguleikar og lágt orkuverð miðað við það sem þekkist annarstaðar í heiminum. „Útihiti er að jafnaði mjög lágur og loftraki að sama skapi. Á Íslandi þarf því minni raforku til reksturs gagnavera en í flestum öðrum löndum heims,“ segir á vef Eflu.