Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, tilkynnti á upplýsingafundi almannavarna í dag að almannavarnastig vegna COVID-19 verði fært af neyðarstigi niður á hættustig í dag. Víðir sagði að baráttan hefði gengið vel upp á síðkastið og að markmiðin um að verja heilbrigðiskerfið og viðkvæma hópa sem og að koma í veg fyrir útbreiðslu smita og takmarka ný smit við landamærin hefðu gengið vel.
„Áfram skulum við samt halda, það er stutt í markmið okkar varðandi bólusetninguna og við látum ekki deigan síga á lokametrunum. Það ætti enginn að vera hissa eða stressaður yfir því þó eitt og eitt smit haldi áfram að greinast og jafnvel utan sóttkvíar. Kerfið okkar hefur sýnt að vel hefur tekist að takast á við það og með miklu sameiginlegu átaki hefur okkur tekist að stoppa hópsmit, til að mynda í Ölfusi og í Skagafirði,“ sagði Víðir á fundinum.
Tveir greinst með indverska afbrigðið á landamærum.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, fór yfir tölur gærdagsins, venju samkvæmt. Í gær greindust þrír innanlands og þar af voru tveir í sóttkví en samtals voru tekin um 1400 sýni. Sá sem greindist utan sóttkvíar tengist ekki fyrri smitum að sögn Þórólfs og var tiltölulega nýkominn til landsins og gæti því hafa sloppið í gegnum kerfið sem er á landamærunum. Síðustu vikuna hafa 26 greinst innanlands og þar af sjö utan sóttkvíar.
Á landamærunum greindist einn með COVID-19 en þar voru tekin rúmlega 600 sýni. Þórólfur sagði landamærasmit hafa fækkað mikið að undanförnu. Líklegt sé að þær aðgerðir sem gripið hafi verið til hafi dregið úr komu þeirra sem líklegust voru til að bera með sér smit að mati Þórólfs. Síðustu vikuna hafa fimm virk smit greinst á landamærunum, öll í fyrri skimun.
Flest eru smitin á landamærunum af hinum bresku stofni veirunnar en hingað til hafa tveir greinst með indverska afbrigðið. Þeir hinir sömu eru nú í sóttvarnahúsi að sögn Þórólfs en eins og staðan er núna eru um 400 manns í sóttvarnahúsum, bæði í sóttkví og einangrun.
Ný uppfærsla á rakningarappi
Alma Möller, landlæknir, kynnti uppfærslu á smitrakningarappinu. Nýja útgáfan sem kom út í gær byggir á svokallaðri bluetooth lausn en eldri útgáfa byggði á GPS tækni. Þessi bluetooth lausn gerir rakningarteymi kleift að rekja smit þar sem tengsl milli einstaklinga eru ekki þekkt, til dæmis þegar smit kemur upp í fjölmenni. „Þetta gerir bluetooth tæknin okkur kleift án þess að gefa nokkurn afslátt á vernd persónuupplýsinga og öryggi,“ sagði Alma.
Appið er á íslensku, ensku og pólsku og hvatti Alma alla til að sækja sér nýja uppfærslu. Hún sagði smáforritið eiga eftir að vera mikilvægt í smitrakningu nú þegar tilslakanir eru í kortunum. „Við teljum að það verði afar mikilvægt nú á næstunni þegar við vonandi förum að slaka meira á hér innanlands. Smitrakning er og verður einn af hornsteinum okkar aðgerða til að sporna við COVID-19.“