Bárður á Steig Nielsen, lögmaður Færeyja, sendi í vikunni út yfirlýsingu um vilja Færeyinga til þess að fá að taka þátt undir sínum eigin fána á Ólympíuleikunum. Færeyjar eru ekki sjálfstæður meðlimur Alþjóða Ólympíunefndarinnar og keppa færeyskir íþróttamenn því undir dönskum fána.
Í yfirlýsingunni, sem lögmaðurinn birti á ensku á vef færeysku landsstjórnarinnar fyrr í vikunni, segir að vilji Færeyinga til þess að öðlast aðild að Alþjóða Ólympíunefndinni sé skýr, en færeysk yfirvöld hafa á undanförnum árum sóst eftir sjálfstæðri aðild að nefndinni, án árangurs.
Bárður bendir á að færeyskir keppendur hafi tekið þátt í síðustu fjórum Ólympíuleikum, undir fána Danmerkur.
Á hinum nýafstöðnu leikum í Tókýó hreppti færeyski ræðarinn Sverri Sandberg Nielsen meira að segja fjórða sætið í einmenningsróðri fyrir hönd Danmerkur, sem er betri árangur en nokkur íslenskur keppandi náði í sinni keppnisgrein á leikunum.
Auk þess var einn leikmaður í silfurliði Dana í handbolta karla færeyskur, en sá hefur valið að spila fyrir Danmörku.
„Frá Færeyjum koma nú reglulega íþróttamenn sem hafa getu til að keppa á Ólympíuleikunum, sem ljáir þeim rökum vægi að þeir ættu að fá að vera fulltrúar heimalands síns á Ólympíuleikunum,“ segir í yfirlýsingu Bárðar á Steig Nielsen, sem segir að Alþjóða Ólympíunefndin þurfi að endurskoða stefnu sína og leyfa Færeyingum að halda flaggi sínu á lofti á Ólympíuleikunum.
Eru með í Ólympíuhreyfingu fatlaðra
Bárður bendir á að Færeyjar séu stofnmeðlimur í Ólympíuhreyfingu fatlaðra og hafi tekið þátt í hverjum einustu Ólympíuleikum fatlaðra frá 1984 með góðum árangri, auk þess sem eyjarnar hafi fengið sjálfstæða aðild að stærstu samböndum knattspyrnuheimsins, UEFA og FIFA, í upphafi tíunda áratugarins.
„Það er kominn tími til þess að færeyski fáninn fái að birtast á Ólympíuleikunum,“ segir Bárður í yfirlýsingunni, en barátta Færeyja fyrir því að fá að keppa undir eigin fána var formlega sett af stað árið 2018 og vakti mikla athygli.
Í frétt BBC frá þeim tíma sagði að dönsk íþróttayfirvöld og ólympíunefndir annarra Norðurlanda stæðu að fullu að baki þessum vilja Færeyinga og tekið var fram að ekkert fjármagn kæmi frá Danmörku inn í færeyskt íþróttalíf.
Alþjóða Ólympíunefndin varð þó ekki við óskum Færeyinga fyrir leikana í Tókýó og hefur í því sambandi verið vísað til reglna í Ólympíusáttmálanum sem koma í veg fyrir að lönd önnur en þau sem viðurkennd eru sem sjálfstæð af alþjóðasamfélaginu verði veitt aðild að Alþjóða Ólympíunefndinni.
Dæmi eru þó um að lönd eða landsvæði sem ekki eru sjálfstæð séu með aðild að Alþjóða Ólympíunefndinni.
Þar má til dæmis nefna Púertó Ríkó, sem heyrir undir Bandaríkin og Arúba, sem er hluti hollenska konungsdæmisins, auk þess sem Hong Kong er með sjálfstæða aðild að nefndinni.