Alþjóðasamtök flugfélaga (IATA) fagna því að frá og með næsta mánudegi þurfi bólusettir farþegar frá flestum ríkjum ESB sem og Bandaríkjunum ekki lengur að fara í sóttkví við komuna til Bretlands né að fara í sýnatöku á áttunda degi. Í tilkynningu segja samtökin þessa ákvörðun breskra yfirvalda „jákvæða, rökrétta og löngu tímabæra“ og eigi eftir að koma efnahag landsins til góða, sérstaklega ferðaþjónustunni.
Hins vegar furða samtökin sig á því að áfram þurfi fullbólusettir farþegar frá mörgum löndum að fara í einangrun og sýnatöku á landamærum Bretlands. Þá hafa þau einnig áhyggjur af stöðu sambærilegra mála í Bandaríkjunum þar sem strangar ferðatakmarkanir hafa verið framlengdar vegna útbreiðslu delta-afbrigðis kórónuveirunnar. „Hvenær ætla Bandaríkin að svara í sömu mynt?“ spyrja samtökin í tilkynningunni.
Breytingarnar á landamærum Bretlands eiga almennt að ná til allra aðildarríkja ESB sem og Íslands og Noregs en þó er Frakkland enn á „rauðum lista“ vegna útbreiðslu faraldursins þar í landi. Sú ákvörðun hefur verið harðlega gagnrýnd af franska utanríkisráðherranum sem segir ákvörðun breskra yfirvalda „óskiljanlega“ og mismuna fólki.