Lögmaður á vegum félaga Samherja í dómsmálinu sem rekið er í Namibíu um þessar mundir hefur farið fram á það að tölvupóstar, sem embætti héraðssaksóknara á Íslandi sendi namibískum rannsakendum, verði ekki á meðal sönnunargagna í málinu og ekki heldur vitnisburður Jóhannesar Stefánssonar uppljóstrara.
Þetta kemur fram í dómskjali sem birtist í vefgátt namibískra dómstóla undir lok ágústmánaðar. Þar segir lögmaður sex namibískra félaga sem voru í að minnsta kosti hlutaeigu Samherja; Esja Holding, Mermaria Seafood, Saga Seafood, Heinaste Investment, Saga Investment og Esja Investment, að tölvupóstar, sem sóttir voru á vefþjóna Samherja af hálfu embættis héraðssaksóknara hér á landi og síðan sendir til namibískra rannsakenda fyrr á þessu ári, eigi ekki að teljast tæk sönnunargögn í málinu.
Nýju sönnunargögnin hafi komið of seint fram
Lögmaðurinn fullyrðir, fyrir hönd skjólstæðinga sinna, að saksóknarinn hafi ekki heimild til þess að reiða sig á þessi gögn, sem fyrst voru sett fram inn í dómsmálið í Namibíu undir lok júlímánaðar og fylgdu með eiðsvarinni yfirlýsingu rannsakanda hjá namibísku spillingarlögreglunni.
Hann segir meðal annars að gögnin hefðu þurft að koma fyrr fram til þess að geta talist gild sönnunargögn í málinu og sakar ríkissaksóknara Namibíu um að hafa vísvitandi setið á þeim.
Erfitt er að sjá hvernig það fær staðist, því samkvæmt undirskrift löggilds skjalaþýðanda í Reykjavík voru gögnin einungis þýdd af íslensku yfir á ensku í upphafi sumars áður en þau voru svo send til Namibíu á dulkóðuðu USB-drifi. Það er löngu eftir að ríkissaksóknarinn lagði fram greinargerð sína í málinu, þar sem farið var yfir það hvernig málið blasti við ákæruvaldinu. Það gerði saksóknarinn, Martha Imalwa, undir lok síðasta árs.
Í þessum gögnum sem send voru frá Íslandi má meðal annars finna, eins og Kjarninn sagði frá í upphafi ágústmánaðar, tölvupóst frá 2011 þar sem Aðalsteinn Helgason, lykilmaður í innreið Samherja í namibískan sjávarútveg, viðraði það við Jóhannes Stefánsson og Ingvar Júlíusson að á einhverjum tímapunkti gæti það farið að skipta máli „að múta einum af leiðtogum þessara manna“. Aðalsteinn átti við þá namibísku áhrifamenn sem meintar mútugreiðslur runnu síðan til af reikningum félaga í Samherjasamstæðunni.
Tímasetningin á framlagningu þessara gagna er ekki það eina sem athugasemdir eru gerðar við af hálfu lögmannsins, heldur hnýtir hann einnig í formsatriði, sem sögð eru í ósamræmi við namibískar réttarreglur. Þannig segir lögmaðurinn til dæmis að með gögnunum sem tekin voru saman á Íslandi vanti vottorð frá þar til bæru stjórnvaldi hérlendis um að gögnin skuli viðurkennd fyrir dómi í Namibíu.
Sömuleiðis gerir lögmaðurinn athugasemdir við þýðinguna á gögnunum, en löggilti skjalaþýðandinn hér á Íslandi lét þess getið að hluti tölvupóstanna hefði verið á ensku og hann hefði því ekki þýtt hvert einasta orð. Gerðar eru athugasemdir við að þess sé ekki getið hvað var upprunalega á ensku og hvað ekki.
Þá gerir lögmaðurinn líka athugasemdir við það sem ekki hefur verið lagt fram í málinu. Hann segir saksóknara hafa handvalið tölvupósta til þess að leggja fram sem sönnunargögn.
Vitnisburður Jóhannesar skuli strikaður út
Í kröfu lögmannsins er einnig óskað eftir því að vitnisburður Jóhannesar Stefánssonar, sem mikið af málatilbúnaði ákæruvaldsins í Namibíu styðst við, verði með öllu strikaður út sem sönnunargögn í málinu.
Krafan byggir á því, samkvæmt því sem fram kemur í dómskjalinu, að Jóhannes muni ekki koma til Namibíu til þess að bera vitni, eða að líkurnar á því séu svo litlar, að það myndi brjóta gegn réttindum Samherjafélaganna ef saksóknara yrði heimilt að styðjast við vitnisburðinn við úrlausn málsins.
Einnig segir lögmaðurinn að í framburði Jóhannesar séu órökstuddar sögusagnir, sem lögmaðurinn segir „hneykslanlegar“ og muni svipta skjólstæðinga hans réttinum til þess að fá sanngjarna meðferð fyrir dómi.
Í viðtali við Stundina, sem birtist í dag, segir Jóhannes að hann muni ekki láta neitt stöðva sig í að fara til Namibíu til þess að bera vitni, en það hefur hann áður sagt.
„Það er 100 prósent að ég fer til Namibíu og það hefur alltaf verið klárt af minni hálfu. Ég fór í þetta til að klára þetta og ég mun vitna í öllum málunum. Það er ekkert sem að stoppar mig," segir Jóhannes meðal annars við Stundina.
Yfirheyrslur hér á landi í sumar
Eins og Kjarninn sagði frá þann 20. ágúst hafa yfirheyrslur staðið yfir hjá embætti héraðssaksóknara vegna Samherjamálsins undanfarnar vikur.
Frá byrjun júlí hefur hluti þeirra sem hafa stöðu sakbornings við rannsókn málsins og einhver vitni verið kölluð til yfirheyrslu þar sem ýmis gögn málsins voru meðal annars lögð fyrir þá.
Samkvæmt heimildum Kjarnans var ekki útilokað að fleiri myndu bætast við í þeim hópi sem hafa réttarstöðu sakbornings í rannsóknum hérlendra yfirvalda, en sex hafa verið með slíka stöðu frá því að fyrstu yfirheyrslur fóru fram í málinu síðasta sumar.