Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mætti á blaðamannafund norrænu forsætisráðherranna í Kaupmannahöfn í Danmörku í morgun en þing Norðurlandaráðs stendur nú yfir þar í landi. Hún segir í samtali við Kjarnann að ráðherrarnir hafi meðal annars rætt sín á milli hvernig Norðurlöndin geti byggt sig upp þannig að þau séu samstillt þegar vá er fyrir dyrum.
Ráðherrarnir sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem þeir lýstu yfir vilja til að dýpka samstarf Norðurlandanna til að geta verið betur undirbúin fyrir krísu á borð við kórónuveiruna. Á þingi Norðurlandaráðs í dag ræddu þingmenn og ráðherrar enn fremur skýrslu sem fjallar meðal annars um það hvað hægt sé að læra af kórónuveirufaraldrinum og hvað hefði verið hægt að gera betur.
Katrín segir í samtali við Kjarnann að ákveðin mál hafi komið upp í byrjun faraldurs sem þurfi að skoða. „Sum lönd eru í ESB og önnur ekki. Það skapar, ja, ég segi ekki vandamál – sumir eru í öðru samtali þannig að það var úrlausnarefni fyrir okkur en við nutum til dæmis mikils aðstoðar Svía í bóluefnasamningum sem er eitt af því sem við þurfum að vera svolítið meðvituð um í norrænu samstarfi. Svo eru sumir í NATO og aðrir ekki. Það er eitthvað sem við þurfum líka að vera meðvituð um.“
Katrín segir að yfirlýsing ráðherranna snúist um það að fara yfir ákveðna ferla. „Hvað gerum við þegar krísa skellur á og lönd fara til dæmis að loka landamærum?“ spyr hún og bætir því við að mikil óvissa hafi skapast í kringum ástandið. Hún segir að sú óvissa hafi eiginlega verið ónauðsynleg þar sem ráðherrar landanna þekkist vel og hefðu getað verið í meira sambandi í byrjun COVID.
Hún segir að faraldurinn hafi að einhverju leyti opinberað veikleika í norrænu samstarfi. „En líka má segja að eftir fyrsta áfallið þá hófst rosalega þétt samtal og borgaraþjónusturnar unnu til dæmis mikið saman til að koma fólki heim. Það var mikið samtal á milli heilbrigðisráðherranna og utanríkisráðherranna – þannig að fyrstu viðbrögð voru svolítið „hver fyrir sig“ en svo hófst mjög þétt samtal. Þannig að faraldurinn opinberaði bæði veikleika og styrkleika.“
Hvernig er að koma aftur á þing Norðurlandaráðs eftir að það féll niður í fyrra vegna kórónuveirufaraldursins?
„Það er rosalega gaman og maður skynjar ofboðslega stemningu í húsinu,“ segir Katrín. Hún bendir á að norrænu forsætisráðherrarnir hafi reyndar hist á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Glasgow í vikunni en hún tók þátt í hliðarviðburði ráðherranna um grænar fjárfestingar, þar sem meðal annars var greint frá þeirri fyrirætlan íslenskra lífeyrissjóða að fjárfesta í grænum verkefnum.
Kjarninn fjallaði um málið í gær en þrettán íslenskir lífeyrissjóðir ætla að setja 580 milljarða króna í fjárfestingar í hreinni orku og umhverfisvænum lausnum til ársins 2030. Sjóðirnir skrifuðu undir viljayfirlýsingu þess efnis gagnvart alþjóðlegu samtökunum Climate Investment Coalition (CIC) sem var formlega kynnt á loftslagsráðstefnunni í Glasgow í gær. CIC mun fylgjast með og mæla hvort þátttakendur í verkefninu standi við yfirlýst markmið og birta niðurstöður sínar árlega.