Faraldurinn tekur U-beygju í Suður-Ameríku

„Það er ekki auðvelt að útskýra þetta,“ segir faraldsfræðingur hjá WHO um þann snögga viðsnúning sem virðist vera að eiga sér stað í faraldrinum í Suður-Ameríku. „Það er of snemmt að segja til hvað er raunverulega að gerast.“

Mannþröng á Ipanema-ströndinni í Ríó á dögunum.
Mannþröng á Ipanema-ströndinni í Ríó á dögunum.
Auglýsing

Á fyrri hluta ársins var faraldur COVID-19 einna verstur í Suður-Ameríku. Á síðustu vikum og mánuðum hefur hins vegar tekist að bólusetja stóra hluta margra þjóða álfunnar og bæði smit og dauðsföll af völdum sjúkdómsins eru á hraðri niðurleið. Bólusetningin ein og sér skýrir það ekki og vísindamenn klóra sér nú í kollinum um hvað veldur.

Í júní og júlí voru vísindamenn uggandi yfir þróun faraldursins í Suður-Ameríku. Smitum fjölgaði, ný bylgja hófst, og sjúkrahús í mörgum löndum álfunnar áttu fullt í fangi með sinna sjúkum. Þúsundir létust daglega og bylgjan virtist engan endi ætla að taka.

En núna er staðan orðin allt önnur. Nýjum tilfellum hefur fækkað mjög hratt í nánast öllum ríkjum Suður-Ameríku en á sama tíma hefur kraftur verið settur í bólusetningar. En svo skörp hefur umbyltingin verið að sérfræðingar eru ekki vissir um að bólusetningar einar og sér skýri hana, sérstaklega ef horft er til þess að fullbólusettir eru að smitast í stórum stíl annars staðar í heiminum, flestir af delta-afbrigðinu.

Faraldurinn var sérlega skæður í Brasilíu, Argentínu, Chile, Perú, Kólumbíu, Úrúgvæ og Paragvæ á fyrri helmingi ársins. Bólusetningar fóru í flestum landanna hægt af stað en engu að síður var takmörkunum aflétt. Ár var liðið frá upphafi faraldursins og ríkin, sem sum eru í hópi þeirra tekjulægri í heiminum, voru orðin óþreyjufull að koma hjólum efnahagslífsins af stað aftur. Faraldurinn fór við þessar aðstæður víða í hæstu hæðir og um mitt ár var langt í frá farið að birta til.

Auglýsing

En svo breyttist allt. Og það frekar skyndilega. „Þetta er fyrirbæri sem við vitum ekki nákvæmlega hvernig við eigum að útskýra,“ segir faraldsfræðingurinn Carla Domingues við New York Times, en hún sá um skipulag almennra bólusetninga í Brasilíu til ársins 2019.

„Það er ekki auðvelt að útskýra þetta,“ segir Jairo Méndez Rico, faraldsfræðingur hjá WHO. „Það er of snemmt að segja til hvað er raunverulega að gerast.“

Hertar takmarkanir geta ekki útskýrt niðursveifluna. Þá eru skólar víða byrjaðir og nemendur mættir aftur í skólastofurnar. Takmörkunum hefur víðast hvar verið aflétt frekar en hitt þótt sum ríki hafi tekið upp harðari aðgerðir á landamærum sínum á síðustu vikum og mánuðum. Flestir sérfræðingar eru sammála um að átak í bólusetningum í álfunni eigi stærstan hlut að máli.

Í fréttaskýringu New York Times er á það bent að stjórnvöld í Suður-Ameríku glími ekki við tregðu borgaranna til bólusetninga líkt og mörg lönd, m.a. Bandaríkin, hafa nú verið að reka sig harkalega á.

Bólusetningar í Brasilíu fóru hægt af stað en núna, í byrjun september, hafa um 65 prósent þjóðarinnar fengið annan eða báða skammta bóluefnis. Þar með hafa Brasilíubúar tekið fram úr Bandaríkjunum hvað þetta varðar. Þá eru yfir 70 prósent íbúa Chile og Úrúgvæ fullbólusett. Í Argentínu er staðan einnig nokkuð góð og þar er bólusetning yfir 60 prósent þjóðarinnar hafin.

Ungt fólk bíður í röð eftir bólusetningu í Brasilíu. Mynd: EPA

Eitt af því sem gæti verið að hafa áhrif á stöðuna er að delta-afbrigðið hefur, að minnsta kosti enn sem komið er, ekki náð þeim miklu yfirburðum á önnur afbrigði í Suður-Ameríku og víða annars staðar. Þar eru þó önnur teikn á lofti. Ný afbrigði, s.s. lambda og mu – afbrigði sem Alþjóða heilbrigðismálastofnunin hefur nýverið sett á varúðarlista sína. Þá eru vísbendingar um að delta sé að ná yfirhöndinni. Sem dæmi eru nú, í fyrsta sinn, um helmingur greindra tilfella í Brasilíu af völdum þess veiruafbrigðis.

En hin góða staða er tvíeggjað sverð. Sumir sérfræðingar óttast að fólk verði nú værukærara, hætti að nota grímur og gæta almennt að sér í smitvörnum.

Að mati sumra kann svo að vera að hlutfallslega hafi smit verið útbreiddara í Suður-Ameríku en víðast annars staðar á fyrstu mánuðum faraldursins. Margir hafi því myndað mótefni með náttúrulegum hætti. Það útilokar þó ekki endursýkingu af hinum nýju afbrigðum.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Jean-Rémi Chareyre
VG og loftslagsmálin: Að hugsa lengra en þjóðarnefið nær
Kjarninn 19. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd í aðdragandi alþingiskosninganna 2021 – Hluti I
Kjarninn 19. september 2021
Bjarni Jónsson
Stjórnmálaflokkarnir og dánaraðstoð
Kjarninn 19. september 2021
Soffía Sigurðardóttir
Samvinna til árangurs
Kjarninn 19. september 2021
Lesendum Morgunblaðsins og Fréttablaðsins fækkað um 20 prósent frá miðju ári 2019
Lestur Fréttablaðsins hefur helmingast á rúmum áratug og minnkað um 20 prósent frá því nýir eigendur keyptu blaðið um mitt ár 2019. Þróun á lesendahópi Morgunblaðsins er nánast sú sama. Mikið tap er á rekstri beggja dagblaða.
Kjarninn 19. september 2021
Jón Ormur Halldórsson
Pólitíska miðjan hennar Merkel
Kjarninn 19. september 2021
Steinar Frímannsson
Góð, en stundum þokukennd stefna – Umhverfisstefna Viðreisnar
Kjarninn 19. september 2021
Tugir innherjasvikamála órannsökuð þegar Fjármálaeftirlitið hætti rannsóknum
Fyrrverandi rannsakandi á verðbréfasviði Fjármálaeftirlitsins eftir hrun bankakerfisins segir sögu sína í bók sem brátt kemur út í Bretlandi og Bandaríkjunum. Hann segir stór mál enn hafa verið órannsökuð þegar FME slaufaði rannsóknarteymum sínum.
Kjarninn 19. september 2021
Meira úr sama flokkiErlent