Ríkisstjórnin hefur ákveðið að frá og með 11. apríl þurfi þeir ferðamenn sem skikkaðir verði til að dvelja í sóttvarnarhúsi eftir komuna hingað til lands að greiða 10.000 krónur fyrir herbergið á nótt. Fæði verður innifalið og verður herbergisgjaldið hið sama óháð því hversu margir eru að ferðast saman og dveljast í herberginu.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu, en á ríkisstjórnarfundi í dag var farið yfir þær breyttu reglur sem taka gildi á landamærum varðandi sóttkví og sýnatöku á fimmtudag, 1. apríl.
Eins og áður hefur komið fram munu farþegar sem koma frá þeim ríkjum sem eru „dökkrauð“ á korti sóttvarnastofnunar Evrópu að dvelja í sóttvarnarhúsum við komuna til landsins, á milli landamæraskimana.
Þetta mun eiga við um ferðamenn frá t.d. Belgíu, Frakklandi, Hollandi, Ítalíu, Noregi, Póllandi, Spáni, Svíþjóð, Tékklandi og Ungverjalandi, miðað við núverandi stöðu faraldursins í þessum löndum og fleirum, en 14 daga nýgengi smita í þessum ríkjum er yfir 500 smit á hverja 100.000 íbúa.
Að auki verða börn fædd 2005 og síðar skylduð í sýnatöku á landamærum frá og með 1. apríl.
Bólusettir og þeir sem eru með vottorð um fyrri sýkingu fara í eina skimun
Ríkisstjórnin hefur einnig ákveðið að þeir farþegar sem koma hingað til lands með bólusetningarvottorð eða vottorð um fyrri sýkingu fari í eina sýnatöku við komuna til landsins.
Þetta lagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir til að yrði gert, en í minnisblaði hans til heilbrigðisráðherra fyrr í mánuðinum sagði að þetta væri lagt til sökum þess að nýlega greindist bólusettur farþegi sem kom hingað til lands með kórónuveiruna í nefkoki.
Ekki hafi verið sýnt fram á það með óyggjandi hætti til þessa að bólusettir og þeir sem sýkst hafi af COVID-19 beri ekki með sér veiruna, þó að það sé talið ólíklegt.
Ferðamönnum gert að forskrá brottfarardag
Stjórnvöld hafa líka ákveðið að grípa til sérstakra varúðarráðstafana á landamærum og eru þær tvíþættar, samkvæmt tilkynningu ráðuneytisins.
Í fyrsta lagi verða gerðar ráðstafanir vegna falsaðra vottorða. Ef minnsti grunur vaknar um að einstaklingur hafi framvísað fölsuðu vottorði til þess að koma sér hjá sóttvarnaráðstöfunum hérlendis verður hann skyldaður í tvöfalda sýnatöku og sóttkví í sóttvarnarhúsi á milli skimana.
Í annan stað verður byrjað að fylgjast sérstaklega með þeim sem ætla að dvelja í stuttan tíma á Íslandi. Ferðamönnum verður gert skylt að forskrá brottfarardag frá Íslandi ef hann liggur fyrir og ef dvalartíminn er skemmri en sem nemur áskildum tíma í sóttkví verður það „kannað sérstaklega“.
Stjórnvöld telja „enda hætt við að viðkomandi muni ekki fylgja reglum um sóttkví.“