Það fagna því margir að árið 2021 sé liðið og það aldrei komi til baka. Árið sem við áttum að endurheimta „eðlilegt líf“ en var erfiðara mörgum en það sem á undan fór heyrir nú sögunni til.
Og það er vissulega hægt að tína til ýmsar ástæður til að vera bjartsýnn nú í upphafi ársins 2022. Samtakamáttur, vísindin og mennskan eru leiðarstefin að betra lífi okkar allra.
Pöndur ekki lengur í bráðri útrýmingarhættu
Á áttunda áratug síðustu aldar bjuggu innan við þúsund pöndur í sínu náttúrulega umhverfi. Með verndarátaki sem staðið hefur nú í þrjátíu ár hefur tekist að ná því markmiði að nú ganga (og kútveltast) um 1.900 pöndur frjálsar á heimaslóðum sínum í Kína í þeim 67 friðlöndum sem þeim hafa verið búin . Yfirvöld þar í landi lýstu því yfir árið 2021 að pöndur væru því ekki lengur í bráðri útrýmingarhættu. Enn eru þó um 600 pöndur fangar í dýragörðum vítt og breitt um veröldina.
Vísindamenn höfðu óttast að bambusinn, eftirlætisfæða pandanna, myndi verða fyrir neikvæðum áhrifum af loftslagsbreytingum. Pöndur éta 12-38 kíló af bambus á dag og því eru það sannarlega gleðitíðindi að bambusinn, líkt og pöndurnar sjálfar, er að ná sér á strik.
Bóluefni gegn malaríu
Malaría hefur í fjölda ára verið banvænasti sjúkdómur veraldar. Árið 2020 létust um 627 þúsund manns af hans völdum. Meira en 260 þúsund börn yngri en fimm ára deyja árlega í Afríku úr malaríu. Í þeirri heimsálfu verða 96 prósent allra dauðsfalla af völdum sjúkdómsins.
Í október síðastliðnum gaf Alþjóða heilbrigðismálastofnunin fyrsta bóluefninu gegn malaríu grænt ljós og talið er að það muni bjarga lífi hundruð þúsunda barna.
Í fyrra bárust önnur góð tíðindi af baráttunni gegn malaríu. WHO gaf út að Kína væri laust við sjúkdóminn eftir áratuga herferð þar í landi til að útrýma henni. Um miðja síðustu öld voru að greinast um 30 milljón tilfelli árlega. Árið 2020 var hið fjórða í samfelldri röð þar sem ekkert tilfelli malaríu greindist og það varð til þess að hægt er að lýsa Kína laust við sjúkdóminn. WHO stefnir að því að útrýma malaríu í 25 löndum til viðbótar fyrir árið 2025.
COVID-faraldur mögulega á enda
Bjartsýni svífur yfir vötnum í upphafi ársins um að innan skamms verði annar faraldur úr sögunni: Heimsfaraldur COVID-19. Tvennt skýrir þá bjartsýni. Hið nýja afbrigði ómíkrón virðist valda vægari sjúkdómseinkennum en þau fyrri þrátt fyrir að vera mun meira smitandi. Ómíkrón gæti með tíð og tíma útrýmt öðrum afbrigðum þótt enn sé hætta á að ný skjóti upp kollinum.
Það mun ráðast af því hvernig tekst að bólusetja heimsbyggðina. Þótt bólusetningarhlutfall sé orðið mjög hátt í vestrænum heimi er það enn aðeins örfá prósent í mörgum fátækustu löndum veraldar. Meira en 8,5 milljörðum skammta af bóluefni hefur verið dreift og WHO vonast til þess að í júlí verði búið að bólusetja 70 prósent íbúa allra landa.
Greiningarfyrirtækið Ipsos spurði 22 þúsund fullorðna einstaklinga í 33 löndum um hvernig þeir teldu árið 2022 verða og lýstu flestir yfir töluverðri bjartsýni þegar kom að baráttunni við COVID-faraldurinn. Um 77 prósent aðspurðra töldu að árið yrði almennt betra en 2021. Mest var bjartsýnin í Kína.
Meirihluti þeirra sem tóku þátt í könnuninni var bjartsýnn á að í það minnsta 80 prósent jarðarbúa verði búnir að fá bólusetningu fyrir lok árs. Þá voru þátttakendur almennt bjartsýnir á að líflegra yrði í samfélögum og að efnahagur myndi vænkast.
Hinn sanni ólympíuandi
Augnablikið þegar ítalski hástökkvarinn Gianmarco Tamberi ákvað að deila ólympíugulli sínu með keppinaut sínum, Kataranum Mutaz Barshim, var það hjartnæmasta á Ólympíuleikunum í Tókýó í ágúst. Slíkt hefur ekki átt sér stað á leikunum frá því árið 1912. Barshim segir Tamberi einn af sínum allra bestu vinum og að það hafi verið sannkallaður draumur að standa á verðlaunapallinum við hlið hans. Ákvörðun hans hafi lýst sönnum ólympíuanda.
Ár tígrisdýrsins
Árið 2022 er ár tígrisdýrsins samkvæmt kínverska tímatalinu. Það mun einnig marka endalok tíu ára átaks til að tvöfalda fjölda þessara stórkostlegu dýra. Björgunarverkefnið TX2 er eitt það metnaðarfyllsta sem ráðist hefur verið í til að bjarga einni ákveðinni tegund. Og árangurinn þykir töluverður. Í sex löndum hefur tekist að fjölga tígrisdýrum um 40 prósent. Heimkynni þeirra eru í Asíu og tóku þrettán lönd í heimsálfunni þátt í verkefninu.
Líffræðilegur fjölbreytileiki á enn undir högg að sækja á mörgum sviðum. Hins vegar þykir björgunarverkefnið TX2 gefa góð fyrirheit um að gerlegt sé að vinda ofan af neikvæðri þróun og fækkun tegunda sem spila stórt og ómissandi hlutverk í vistkerfum jarðar.